Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 296/1983

Gjaldár 1982

Reglugerð nr. 812/1981   Reglugerð nr. 201/1981   Reglugerð nr. 94/1979   Reglugerð nr. 119/1965   Lög nr. 103/1980   Lög nr. 67/1971, 20. gr., 36. gr.   Lög nr. 14/1965, 2. gr.  

Launaskattsstofn — Atvinnurekendagjöld — Lífeyristryggingargjald — Slysatryggingariðgjald — Launaskattur — Skattmat — Ökutækjastyrkur — Fæðispeningar — Fæðishlunnindi — Matsreglur ríkisskattstjóra

Í kæru til skattstjóra, dags. 24. ágúst 1982, var þess farið á leit af hálfu kæranda, að álagning launaskatts og gjalda af greiddum launum yrði leiðrétt á þann veg, að úr stofni til þessara gjalda yrði felldur greiddur ökutækjastyrkur að fjárhæð 7.379 kr. og greitt fæðisgjald að fjárhæð 19.320 kr. Rök kæranda voru þau, að ökutækjastyrkur væri ekki annað en endurgreiðsla á útlögðum kostnaði starfsmanna og bæri því ekki að reikna nefnd gjöld þar af. Þá væri fæðispeningum iðnaðarmanna fyrst og fremst ætlað að mæta fæðiskostnaði umfram mötuneytisverð og umframkostnaði, þegar unnið væri fjarri fastri starfsstöð og yrði því að telja óeðlilegt að greiðslur þessar mynduðu stofn til gjaldanna. Með úrskurði, dags. 29. desember 1982, hafnaði skattstjóri kröfu kæranda með þeim rökum, að launatengd gjöld hefðu verið reiknuð af launum samkvæmt rekstrarreikningi kæranda. Þar hefði eingöngu verið um að ræða gjaldfærð laun, en ekki getið sérstaklega um greiðslu ökutækjastyrks.

Úrskurði skattstjóra hefur af hálfu kæranda verið skotið til ríkisskattanefndar með kæru, dags. 27. janúar 1983, og gerðar kröfur ítrekaðar. Röksemdum skattstjóra fyrir synjuninni er mótmælt og bent á, að skattstjóra beri að reikna hin kærðu gjöld samkvæmt framlögðum launaframtölum, enda segi ekkert um það í skattalögum að sundurliða skuli laun í rekstrarreikningi með sama hætti og sundurliðað sé á launamiðum.

Með bréfi, dags. 25. apríl 1983, eru svofelldar kröfur gerðar í málinu af hálfu ríkisskattstjóra:

„Að ákvörðun skattstjóra að reikna launaskatt af fæðispeningum verði staðfest enda verður eigi séð að fyrir hendi sé lagaheimild er undanþiggi fæðispeninga launaskattsskyldu.

Rétt þykir að fallast á að sá hluti launa er sannanlega telst bifreiðastyrkur verði eigi talinn mynda launaskattsstofn.“

Samkvæmt 4. tl. A-liðs 1. mgr. 30. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, er sá hluti þar um ræddra hlunninda, þ.á m. fæðishlunninda, sem eigi eru talin vera manni til hagsbóta með hliðsjón af heimilisaðstæðum og öðrum atvikum að mati ríkisskattstjóra, heimilaður til frádráttar tekjum. Ekki skiptir máli, hvort hlunnindi þessi eru látin í té í reiðufé eða fríðu. Í skattmati ríkisskattstjóra, dags. 7. janúar 1982, fyrir tekjuárið 1981 eru settar reglur um frádrátt frá hlunnindamati fæðis eða greiddra fæðisstyrkja (fæðispeninga), þ.á m. sett ákveðið hámark fyrir frádrætti þessum. Þegar litið er til þessa verður að telja, að á því sé byggt, að slíkar greiðslur, sem hér um ræðir, séu inntar af hendi til þess að standa straum af kostnaði, sem starfsmenn verða fyrir og rétt þykir að atvinnurekandi greiði. Eigi liggur fyrir, að í því tilviki, sem hér um ræðir, hafi verið farið út fyrir þau mörk, sem að ofan greinir, með umræddum fæðisgjöldum. Þá liggur eigi fyrir, að í greiddum ökutækjastyrk hafi verið annað en endurgreiðsla á útlögðum kostnaði starfsmanna vegna notkunar bifreiða í þágu atvinnurekanda, en skattstjóra hefði verið í lófa lagið að upplýsa um það með athugun á framtalsgögnum viðtakenda ökutækjastyrks. Með vísan til þess, sem hér hefur verið rakið, og svo sem mál þetta liggur fyrir, verður eigi talið, að leitt hafi verið í ljós, að í hinum umþrættu greiðslum hafi verið innifalin laun. Að svo vöxnu verður því eigi litið svo á, að greiðslur þessar myndi stofn til hinna kærðu gjalda, sbr. 1. og 2. gr. laga nr. 14/1965, um launaskatt, með síðari breytingum, og ákvæði reglugerðar nr. 119/1965, um launaskatt, svo og ákvæði 20. og 36. gr. laga nr. 67/1971, um almannatryggingar, eins og greinum þessum var breytt með 5. gr. laga nr. 59/1978, og 1. gr. laga nr. 103/1980, sbr. og reglugerðir nr. 94/ 1979, nr. 201/1981 og nr. 812/1981. Er krafa kæranda því tekin til greina.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja