Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 329/1983

Gjaldár 1980

Lög nr. 75/1981, 97. gr. 2. mgr.  

Endurákvörðun — Tímamörk endurákvörðunar

Málavextir eru þeir, að skattstjóri sendi gjaldanda bréf, dags. 18. nóvember 1982, þar sem hann boðaði endurupptöku á álagningu gjaldárið 1980 vegna þess að varasjóðstillag 145.597 kr. hefði vegna mistaka verið tölvuskráð sem tekjuskattsstofn. Tekjur alls skv. skattframtali námu 582.387 kr. og tekjuskattsstofn að frádregnu varasjóðstillagi nam 436.790 kr.

Gjaldandi sendi skattstjóra mótmælabréf, dags. 30. nóvember 1982, og taldi rétt skattstjóra til endurupptöku fyrndan, með tilvísun í seinni málsgrein 97. gr. laga nr. 75/1981 þar sem um væri að ræða endurupptöku álagningar á tekjur ársins 1979.

Skattstjóri sendi gjaldanda bréf, dags. 2. desember 1982, og boðaði leiðréttingu með tilvísun til fyrra bréfs, dags. 18. nóvember 1982. Þar eð umrædd álagning fór fram seint á árinu 1980 taldi hann að fyrning málsins hefði ekki átt sér stað.

Með bréfi, dags. 13 desember 1982, framkvæmdi skattstjóri áður boðaða endurupptöku og hækkaði tekjuskatt úr 95.584 kr. í 286.753 kr. eða um 191.169 kr.

Í kærubréfi gjaldanda, dags. 12. desember 1982, er álagningunni mótmælt á sömu forsendum og getið er um í bréfi, dags. 30. nóvember 1982. Auk þess vísar gjaldandi í 1. mgr. 97. gr. laga nr. 75/1981 máli sínu til frekari stuðnings.

Með ítarlegum kæruúrskurði, dags. 27. desember 1982, synjaði skattstjóri kærunni með tilvísun í 2. mgr. 97. gr. laga nr. 75/1981.

Í kæru gjaldanda til ríkisskattanefndar, dags. 24. janúar 1983, er lögð áhersla á, að endurupptaka málsins sé byggð á óbreyttu framtali fyrirtækisins. Að öðru leyti er vísað til fyrri bréfaskipta vegna málsins.

Ríkisskattstjóri krafðist staðfestingar á úrskurði skattstjóra með bréfi, dags. 14. mars 1983. Þar segir, að telja verði að 2. mgr. 97. *\ laga nr. 75/1981, takmarki ekki rétt skattyfirvalda til jafn augljósrar leiðréttingar og framkvæmd var gagnvart kæranda. Honum hefði mátt vera ljóst, að upphafleg álagning hefði verið röng og hefði honum þá þegar borið að tilkynna skattyfirvöldum framangreind mistök. Að þessum málavöxtum virtum gæti kærandi ekki borið fyrir sig 2. mgr. 97. gr. laga nr. 75/1981. 2. mgr. 97. gr. laga nr. 75/1981 hljóðar sem hér segir:

„Hafi skattaðili látið í té í framtali sínu eða fylgigögnum þess fullnægjandi upplýsingar, sem byggja mátti rétta álagningu á, er þó eigi heimilt að endurákvarða honum skatt nema vegna síðustu tveggja ára sem næst eru á undan því ári þegar endurákvörðun fer fram þótt í ljós komi að álagning hafi verið of lág.“

Endurákvörðun skattstjóra var framkvæmd árið 1982 vegna skattársins 1979 og er því um að ræða 3 ár. Í þessu tilfelli verður því að telja rétt skattstjóra til endurákvörðunar fyrndan.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja