Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 404/1983

Gjaldár 1980

Lög nr. 75/1981, 53. gr., 96. gr., 99. gr., 100. gr.  

Landbúnaður — Matsverð bústofns — Bústofn — Stofn til verðbreytingarfærslu — Málsmeðferð — Kærumeðferð — Kæruúrskurður — Úrskurðarfrestur skattyfirvalda — Ógildingarástæða — Dómsúrlausn — HRD. ár 1948 bls. 179 — Verklagsregla — Endurákvörðun skattstjóra — RIS. 1981. 699 — Brot á verklagsreglu

Kærð er breyting skattstjóra á skattframtali kæranda árið 1980. Breytti skattstjóri útreikningi kæranda á verðbreytingarfærslu skv. 53. gr. laga nr. 40/1978, um tekjuskatt og eignarskatt, sbr. 27. gr. laga nr. 7/1980, um breyting á þeim lögum, og var hún fólgin í því að við þann útreikning ætti að miða matsverð bústofns til eignar á matsverði í árslok 1978, en ekki við matsverð í ársbyrjun 1979, með sama matsverði og í árslok þess árs, svo sem kærandi gerði. Krefst kærandi þess að breyting skattstjóra verði felld úr gildi. Í kæru sinni til ríkisskattanefndar gerir kærandi svofellda grein fyrir kröfu sinni:

„Áður hefur ríkisskattanefnd kveðið upp úrskurð í máli þessu (þ.e. 23. október 1981 úrskurður nr. 699). Þrátt fyrir fyrirspurnir mínar til skattstjóra Vestfjarðaumdæmis, um hvaða grein skattalaga heimili honum upptöku máls, sem ríkisskattanefnd hefur úrskurðað í hef ég engin svör fengið þar um. Af þeim sökum tel ég vafasamt að sú heimild sé í skattalögunum nr. 75/1981. Ekki virðist hún vera fyrir hendi þegar einstaklingar tapa máli sínu vegna formgalla í málsókn sinni. Gangi úrskurður ríkisskattanefndar gegn kröfu minni, óska ég sérstaklega eftir upplýsingum um þetta atriði.

Við meðferð þessa máls nú á árinu 1982 hefur skattstjóri ritað mér tvö bréf um málið þann 28. apríl og 14. júní. Í hvorugu bréfinu er mér settur kærufrestur til skattstofu Vestfjarðaumdæmis. Með hliðsjón af 99. gr. laga nr. 75/1981 þar sem settur er 30 daga kærufrestur frá póstlagningardegi tilkynningar um endurákvörðun, vil ég líta svo á að kærufrestur minn hafi verið útrunninn 14. júlí 1982. Samkv. 99. gr. laga 75/1981 skal skattstjóri hafa úrskurðað kærur innan tveggja mánaða frá lokum kærufrests. Þar sem úrskurður er ekki uppkveðinn fyrr en 10. janúar 1983, er það einnig krafa mín að hann sé ógiltur af þeim sökum. Til að fullnægja skilyrðum 99. greinar hefði úrskurður átt að vera uppkveðinn fyrir 15. september 1982.

Um efnisatriði málsins vísa ég til fyrri kæru minnar í málinu.“

Með bréfi, dags. 14. mars 1983, krefst ríkisskattstjóri þess fyrir hönd gjaldkrefjenda að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans.

Eins og fram kemur í kröfugerð kæranda felldi ríkisskattanefnd niður breytingu skattstjóra á sama atriði og um er deilt í kærumáli þessu, sbr. úrskurð ríkisskattanefndar nr. 699, dags. 23. október 1981. Var sú málsniðurstaða nefndarinnar á því byggð, að skattstjóri, hefði ekki gætt réttra reglna við framkvæmd breytingarinnar eftir 96. gr. laga nr. 40/1978, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum, sbr. nú lög nr. 75/1981, um sama efni. Þessi niðurstaða ríkisskattanefndar var því eigi til fyrirstöðu að skattstjóri tæki málið til endurákvörðunar, enda var ekki um að ræða efnisúrskurð hjá nefndinni og því ekki genginn fullnaðarúrskurður í kærumálinu í skilningi 11. mgr. 100. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt.

Með bréfi, dags. 28. apríl 1982, tilkynnti skattstjóri kæranda um fyrirhugaða breytingu á hinum umdeilda kærulið og veitti honum frest til 20. maí s.á. til að koma að athugasemdum sínum, sbr. 2. mgr. 96. gr. nefndra laga. Kærandi svaraði bréfi þessu með bréfi, dags. 10. maí 1982. Með bréfi, dags. 14. júní s.á. tilkynnti skattstjóri svo kæranda um framkvæmd breytingarinnar, sbr. 4. mgr. 96. gr. sömu laga. Eru engir þeir agnúar á framkvæmd breytingarinnar sem varðað gætu ógildingu hennar.

Með kæru, dags. 1. júlí 1982, kærði kærandi umrædda breytingu til skattstjóra. Barst skattstjóra kæran innan þess kærufrests, sem lögmæltur er í 99. gr. laga nr. 75/1981. Hinn kærði úrskurður skattstjóra er dagsettur 10. janúar 1983. Var þá liðinn sá frestur, sem skattstjóra er settur í nýnefndri lagagrein til uppkvaðningar kæruúrskurðar. Brot þessarar verklagsreglu veldur ekki ónýti úrskurðar þess, sem skattstjóri kveður upp, sbr. t.d. dóm í dómasafni Hæstaréttar ár 1948, bls. 179.

Að því er varðar kröfu kæranda um efnisatriði málsins er kröfu hans synjað með vísan til ákvæða 53. gr. laga nr. 40/1978, um tekjuskatt og eignarskatt, svo sem þeirri grein var breytt með 27. gr. laga nr. 7/1980, um breyting á þeim lögum. Er breyting skattstjóra á skattframtali kæranda árið 1980 því staðfest.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja