Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 423/1983

Gjaldár 1980 og 1981

Lög nr. 75/1981, 7. gr. A-liður 1. tl., 30. gr. 1. mgr. A-liður 3. tl., 116. gr.  

Ökutækjastyrkur — Ökutækjakostnaður — Vefenging skattframtals — Skattframtal, vefenging — Lögskýring — Skattmat — Ríkisskattstjóri — Matsreglur ríkisskattstjóra — Ökutækjaskýrsla — Aksturssamningur — Kílómetragjald — Akstursdagbók — Byggingafulltrúi — Ríkisstarfsmaður — Sératkvæði

Þeir eru málavextir, að í skattframtölum sínum árin 1980 og 1981 færði kærandi til tekna greidda ökutækjastyrki, fyrra árið að fjárhæð 4.559.225 kr. og síðara árið 5.950.083 kr. Til frádráttar sem kostnað á móti fengnum ökutækjastyrkjum færði kærandi fjárhæðir jafnháar styrkfjárhæðum. Kærandi gegnir störfum sem byggingafulltrúi í X-umdæmi. Ekki fylgdu sérstakar greinargerðir um bifreiðakostnað skattframtölum kæranda þessi ár. Við frumálagningu opinberra gjalda gjaldárin 1980 og 1981 var byggt á þeim frádrætti vegna bifreiðakostnaðar, sem kærandi tilfærði. Í málinu gerist það, að með bréfum, dags. þann 15. janúar 1982, fer skattstjóri þess á leit við kæranda, að hann útfylli eyðublöð fyrir ökutækjastyrk og ökutækjarekstur vegna bifreiðarekstrar árin 1979 og 1980, þ.e.a.s. vegna skattframtala árin 1980 og 1981. Svör skyldu berast fyrir 1. febrúar 1982. Greinargerðir þessar bárust skattstjóra þann 2. febrúar 1982. Samkvæmt gögnum þessum nam heildarbifreiðakostnaður kæranda árið 1979 6.031.240 kr. vegna tveggja bifreiða. Heildarakstur nam 57.435 km og þar af akstur í eigin þágu 18.080 km eða 31.48% heildaraksturs. Annan akstur taldi kærandi vera í þágu vinnuveitanda eða 9.320 km vegna annarrar bifreiðarinnar og 30.035 km vegna hinnar eða samtals akstur í atvinnuþarfir 39.355 km. Kostnaður pr. ekinn kílómetra nam 104 kr. vegna síðarnefndu bifreiðarinnar en 108 kr. vegna hinnar fyrrnefndu. Nam kostnaður samkvæmt þessu vegna aksturs í þágu atvinnu alls 4.130.200 kr. Þess var getið í skýrslunni, að sýslumaður V-sýslu myndi senda greinargerð. Árið 1980 nam heildarbifreiðakostnaður kæranda samkvæmt innsendum skýrslum 9.047.975 kr. vegna tveggja bifreiða. Heildarakstur nam þetta árið alls 38.136 km og þar af akstur í eigin þágu 11.785 km eða 30.91% heildaraksturs. Annan akstur taldi kærandi vera í þágu vinnuveitanda eða 15.011 km vegna annarrar bifreiðarinnar og 11.340 km vegna hinnar eða samtals akstur í atvinnuþarfir 26.351 km. Kostnaður pr. ekinn kílómetra nam 235 kr. vegna fyrrnefndu bifreiðarinnar en 246 kr. vegna hinnar síðarnefndu. Samkvæmt þessu nam kostnaður vegna aksturs í þágu vinnuveitanda alls 6.317.225 eða nokkru hærri en fjárhæð fengins ökutækjastyrks. Þá var þess og getið í skýrslu þessari, að sýslumaður V-sýslu myndi senda greinargerð.

Næst gerist það í málinu, að skattstjóri tilkynnir kæranda með bréfum, dags. 4. mars 1982, að frádráttur á móti ökutækjastyrk í skattframtölum árin 1980 og 1981 væri óeðlilega hátt metinn með hliðsjón af akstri. Væri hann því lækkaður um 1.200.000 kr. í skattframtali árið 1980 og 2.000.000 kr. í skattframtali árið 1981 og áður álögð opinber gjöld þessi gjaldár endurákvörðuð í samræmi við lækkun téðra frádráttarliða. Ekki vildi kærandi sæta þessu. Bárust skattstjóra kærur frá honum, dags. 31. mars 1982. Í fyrsta lagi mótmælti kærandi því að hann skyldi krafinn um rekstraryfirlit bifreiða sinna mörg ár aftur í tímann og að verið væri að blanda saman einkaakstri og akstri í þágu embættis, sem greitt væri fyrir samkvæmt akstursdagbók eftir taxta ferðakostnaðarnefndar, er og staðfest væri með yfirlýsingu, dags. 15. júní 1978 af öllum sýslumönnum í X-umdæmi er hann væri ráðinn hjá. Í öðru lagi mótmælti kærandi því, að hann skyldi ekki sitja við sama borð og aðrir ríkisstarfsmenn í þessum efnum. Þá var því í þriðja lagi mótmælt, að hluti af akstri, sem greitt væri fyrir, væri akstur í eigin þágu.

Þann 29. júlí 1982 móttók skattstjóri bréf sýslumannsins í V-sýslu, dags. 28. s.m., varðandi akstur kæranda í þágu starfs hans sem byggingarfulltrúa. Áður hafði skattstjóra borist bréf sýslumannsins, dags. 16. júní 1982, þar sem vottað var samkvæmt beiðni, að kærandi hefði notað eigin bifreið í þágu embættis byggingarfulltrúa og fengið greitt fyrir afnotin samkvæmt framlögðum reikningi. Kærandi hefði gengt starfi byggingarfulltrúa frá árinu 1980. Í síðara bréfinu tekur sýslumaðurinn fram, að akstursþörf sé breytileg og fari eftir verkefnum hverju sinni. Starf kæranda sé að mestu leyti fólgið í leiðbeiningarþjónustu fyrir bændur, eftirliti með byggingum í sveitum og úttektum á þeim. Greitt sé fyrir bifreiðaafnotin eftir eknum kílómetrum samkvæmt framlögðum reikningi í samræmi við taxta fjármálaráðuneytisins. Kæranda væri gert skylt að halda akstursdagbók.

Með úrskurðum, dags. 14. október 1982, féllst skattstjóri á að heimila til frádráttar sem bifreiðakostnað kostnað vegna aksturs þess kílómetrafjölda sem kærandi hafði í skýrslum sínum gefið upp sem akstur í þágu vinnuveitanda, þ.e.a.s. árið 1979 39.355 km og árið 1980 26.351 km miðað við, að hver ekinn kílómetri reiknaðist 86 kr. fyrra árið og 152 kr. síðara árið. Samkvæmt þessu varð frádráttarbær bifreiðakostnaður samkvæmt ákvörðun skattstjóra 3.384.530 kr. samkvæmt skattframtali árið 1980, en 4.005.352 kr. samkvæmt skattframtali árið 1981. Voru opinber gjöld endurreiknuð í samræmi við þessa niðurstöðu.

Úrskurðum skattstjóra hefur af hálfu kæranda verið skotið til ríkisskattanefndar með kæru, dags. 10. nóvember 1982. Sýnist kæran lúta að því, að lækkun skattstjóra á frádrætti vegna bifreiðakostnaðar verði hrundið gjaldárin 1980 og 1981. Getur kærandi þess, að hann hafi starfað fyrir sýslufélögin í X-umdæmi síðan 1960 og hafi greiðslur fyrir bifreiðaakstur verið með sama hætti frá upphafi. Kærunni fylgdi ljósrit af aksturssamningi, dags. 15. júní 1978. Þá fylgdi og ljósrit af starfssamningi við kæranda, dags. 26. október 1971.

Af hálfu ríkisskattstjóra eru í máli þessu gerðar svofelldar kröfur með bréfi, dags. 21. desember 1982:

„Að úrskurður skattstjóra verði staðfestur. Með vísan til matsreglna ríkisskattstjóra er kæranda eigi heimilt að ákvarða sér hærri kostnað á ekinn km en fram kemur í þeim reglum.“

Atkvæði meirihluta:

Úrskurður skattstjóra er staðfestur með vísan til forsendna hans.

ÚRSKURÐARORÐ:

Úrskurður skattstjóra er staðfestur.

Atkvæði minnihluta:

Af hálfu skattstjóra og ríkisskattstjóra er fallist á skiptingu aksturs annars vegar í þágu atvinnu og hins vegar í einkaþarfir. Ágreiningsefnið varðar það, hvort kostnaður til frádráttar í skattframtali vegna þessa aksturs skuli bundinn því hámarki pr. ekinn kílómetra, sem ríkisskattstjóri hefur ákveðið í skattmötum. Kostnaður kæranda vegna þessa aksturs er hærri en þessi möt segja til um, sbr. að framan, en eigi hefur á neinn hátt verið vefengt, að kostnaðarsundurliðun kæranda sé rétt og hann því í raun borið þann kostnað, sem hann tilgreinir, vegna aksturs í þágu þess embættis, sem hann gegnir. Um frádrátt kostnaðar á móti tekjufærðum ökutækjastyrk fer eftir ákvæðum 3. tl. A-liðs 1. mgr. 30. gr. laga nr. 75/ 1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Þess er þar getið, að útgjöld vegna móttekins ökutækjastyrks megi draga frá tekjum í samræmi við matsreglur ríkisskattstjóra. Matsreglur um þetta hafa verið settar í skattmötum, útgefnum af ríkisskattstjóra. Kemur þar fram, að til frádráttar skuli leyfa þann hluta af heildarrekstrarkostnaði bifreiðar, sem svarar til afnota hennar í þágu vinnuveitanda, þó að ákveðnu hámarki, sem reiknast tiltekin fjárhæð pr. ekinn kílómetra. Ýmsar reglur eru settar í skattmötum hér að lútandi. Eftir þessum reglum kemur sú fjárhæð til frádráttar sem bifreiðakostnaður, sem svarar til þeirra útgjalda, sem skattaðili hefur í raun haft af akstri í þágu vinnuveitanda allt að því marki, sem hin reiknaða fjárhæð pr. ekinn kílómetra segir til um. Þegar því marki er náð, gildir hin reiknaða fjárhæð, burt séð frá því, að óvefengt sé, að skattaðili hafi haft meiri kostnað af slíkum akstri. Leiðir þetta til þess, að sannanlegur kostnaður sem skattaðili hefur haft vegna aksturs í þágu vinnuveitanda fæst ekki til frádráttar sé hann hærri en sú reiknaða hámarksviðmiðun, sem getið hefur verið um, enda þótt slíkur kostnaður fari eigi fram úr fjárhæð fengins ökutækjastyrks. Verður ekki talið, að bifreiðakostnaður verði lækkaður á grundvelli slíks reiknaðs hámarks án þess að kostnaðarsundurliðun og akstursskipting sé á nokkurn hátt vefengd. Ekki verður heimild sú, sem 3. tl. A-liðs 1. mgr. 30. gr. laga nr. 75/1981 hefur að geyma til frádráttar í samræmi við matsreglur, skýrð svo að hún geti verið grundvöllur slíkrar meðferðar. Að þessu athuguðu þykir eiga að taka kröfur kæranda til greina, þó þannig að frádráttur á móti ökutækjastyrk gjaldárið 1980 verður 4.130.200 kr. þar sem ekki liggur fyrir, að kærandi hafi haft meiri kostnað af akstri í þágu vinnuveitanda árið 1979 samkvæmt skýrslum hans sjálfs þar um.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja