Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 536/1983

Gjaldár 1979

Lög nr. 75/1981, 97. gr. 2. mgr.  

Endurákvörðun — Tímamörk endurákvörðunar

Málavextir eru þeir, að kærandi seldi bát sinn D-GE 101 árið 1976. Söluverð var 75.000.000 gkr. Kærandi hafði fyrnt bátinn um 14% á ári. Umframfyrning árin 1972,1973 og 1974 nam 2.057.153 gkr. og árin 1975 og 1976 2.019.517 gkr. eða samtals 4.076.670 gkr.

Með úrskurði ríkisskattanefndar nr. 804 frá 8. ágúst 1978 var fallist á frestun skattlagningar á umframfyrningu með tilvísun til 11. mgr. E-liðs 7. gr. laga nr. 68/1971.

Skattstjóri sendi kæranda bréf dags. 15. apríl 1981 og tilkynnti honum, að fyrirhugað væri, að taka skattframtal hans árið 1979 til endurúrskurðar og færa honum til tekna áður frestaða tekjufærslu skattskyldra umframfyrninga vegna sölu m/b D-GE 101 að upphæð 4.076.670 gkr. þar sem heimild til frestunar skattlagningar væri útrunnin.

Andmæli virðast ekki hafa borist frá kæranda og með bréfi, dags. 26. maí 1981, framkvæmdi skattstjóri hina boðuðu breytingu.

Í kæru til skattstjóra dags. 14. júní 1981 mótmælti kærandi umræddri breytingu og krafðist þess að gjöld vegna hennar yrðu að fullu felld niður. Sem rökstuðning fyrir kröfunni gat hann þess að árið 1976 hafi hann selt bát sinn. Á skattframtali ársins 1977 kom fram, að báturinn hafði verið fyrndur á eignarhaldstíma umfram lágmarksfyrningu um 4.076.670 kr. Farið var fram á frestun skattlagningar þessarar fjárhæðar vegna fyrirhugaðra kaupa á öðrum bát sem stóð til að fyrna um þessa fjárhæð. Nýi báturinn, sem ber sama nafn, var síðan fyrndur um þessa upphæð jafnframt hafi það komið fram í ársreikningi með skattframtali 1979 að verið væri að fyrna þessa geymdu fjárhæð.

Með úrskurði, dags. 15. október 1981, synjaði skattstjóri kærunni. Jafnframt tilkynnti hann, að eignarskattsstofn hefði verið leiðréttur til hækkunar sem næmi fjárhæð umframfyrninga, þar sem fallið hefði niður að leiðrétta bókfært verð báts. Auk þess segir m.a. í forsendum úrskurðar skattstjóra:

„Það sem til álita er í þessu máli er, hvort gjaldandi hafi fullnægt skilyrðum 11. mgr. E-liðs 7. gr. laga nr. 68/1971 með áorðnum breytingum, sbr. bráðabirgðaákvæði IX í lögum nr. 40/1978 með áorðinni breytingu skv. 55. gr. laga nr. 7/1980 um breyting á þeim, sbr. nú lög nr. 75/1981, um að afla sér fyrnanlegrar eignar með kaupum á bát á árinu 1978, m/b D-GE 101.

Með skattframtali 1979 fylgir rekstrarreikningur yfir útgerð báts fyrir tímabilið 1. maí — 31. desember 1978. Samkvæmt honum nema tekjur af seldum afla 1.137.997 gkr. og gjöld 769.317 gkr., en engar afskriftir báts eru gjaldfærðar né heldur að áður frestuð tekjufærsla umframfyrninga sé tekjufærð á rekstrarreikningi. Enginn sérstakur efnahagsreikningur fylgir skattframtali v/útgerðar báts, en hins vegar fylgir skattframtali efnahagsreikningur yfir allar eignir og skuldir framteljenda og þar á meðal nefndur bátur og skuldir v/hans og á þessum efnahagsreikningi hefur kostnaðarverð báts verið lækkað, sem nemur fjárhæð áðurnefndra umframfyrninga 4.076.670 gkr. og einnig höfuðstólsreikningur gjaldanda, er sýnir eignarskattsstofn hans.“

Úrskurði skattstjóra hefur af hálfu kæranda verið skotið til ríkisskattanefndar með sömu kröfum og röksemdum og frá greinir í kæru hans til skattstjóra.

Jafnframt bendir kærandi á, að hann hafi talið þetta mál úr sögunni, þar eð skattstjóri hreyfði engum andmælum á sínum tíma enda telur kærandi framkvæmd sína fullkomlega í samræmi við lög.

Í kröfugerð ríkisskattstjóra fyrir hönd gjaldkrefjenda dags. 8. ágúst 1983, er krafist staðfestingar á úrskurði skattstjóra með vísan til forsendna hans.

Með vísan til 2. mgr. 97. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, er krafa kæranda tekin til greina og verður þá eigi tekin efnisleg afstaða til þeirra atriða sem um er deilt í máli þessu.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja