Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 575/1983

Gjaldár 1982

Lög nr. 75/1981, 2. gr. 1. mgr. 5. tl., 53. gr., 95. gr., 96. gr., 98. gr., 99. gr.  

Dánarbú — Lögaðili — Verðbreytingarfærsla — Tekjufærsla vegna verðbreytingar — Síðbúið skattframtal — Lögskýring — Skattkæra — Kærumeðferð

Málsatvik eru þau að af hálfu kæranda, sem var dánarbú, var ekki talið fram til skatts á réttum tíma árið 1982. Sætti hann því áætlun við álagningu opinberra gjalda það ár. Þann 26. júlí 1982 móttók skattstjóri skattframtal kæranda árið 1982 og tók hann það sem skattkæru, sbr. 2. ml. 1. mgr. 99. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Við uppkvaðningu kæruúrskurðar, dags. 31. janúar 1983, féllst skattstjóri á að leggja framtalið til grundvallar álagningu gjalda þó með þeirri breytingu að tekjur voru hækkaðar um 44.336 kr., „sem er tekjufærsla skv. 53. gr. laga nr. 75/1981, sem skattskyldum lögaðilum skv. 2. gr. áður nefndra laga, ber árlega að taka tillit til,“ eins og segir í úrskurðinum.

Af hálfu kæranda hefur kæruúrskurði skattstjóra verið skotið til ríkisskattanefndar með kæru dags. 25. febrúar 1983. Er í kærunni gerð svofelld grein fyrir kröfum:

„Samkvæmt úrskurði skattstjórans voru tekjur dánarbúsins hækkaðar um 44.336 vegna tekjufærslu skv. 53. gr. 1. nr. 75/1981. Þessu er harðlega mótmælt af hálfu dánarbúsins, enda var búinu ekkert tækifæri gefið til að koma að sjónarmiðum sínum, áður en þessi tekjuhækkun var framkvæmd.

Því er mótmælt, að 53. gr. skattalaganna eigi við um dánarbú í þeim tilvikum, sem þar um ræðir, 53. gr. er á fyrst og fremst við um lögaðila sem hafa undir höndum atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi. Dánarbú þetta hefur ekkert slíkt með höndum. Búið hefur verið undir skiptum um nokkurt skeið og hafa búskipti dregist vegna ýmissa dómsmála, sem dánarbúið hefur verið aðili að.

Það var aldrei tilgangur löggjafarvaldsins að skattleggja dánarbú með þessum hætti. Í upphaflegu frumvarpi laganna fjallaði 53. gr. um aðila, er hafa með höndum atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi. Það má t.d. í þessu sambandi benda á, að þrotabú eru talin með lögaðilum og eru því skv. 2. gr. skattalaga tekjuskattsskyld. Hins vegar er það ljóst, að þrotabú skulda meir en þau eiga og því ætti að skattleggja skuldirnar skv. 53. gr. skattalaga. Nú dragast skipti þrotabúa svo árum skiptir en á meðan ætti skv. túlkun skattstjóra, að halda áfram að skattleggja skuldirnar, enda þótt engar eignir eða tekjur séu fyrir hendi til að greiða slíka skatta. Þá má benda á það, að oft á tíðum koma upp lögfræðileg vafaatriði við búskipti sem skera þarf úr fyrir dómstólum. Getur slíkt tekið nokkur ár, en á meðan yrðu skuldir dánarbúsins skattlagðar skv. túlkun skattstjóra, sem endaði sjálfsagt með því að búið yrði þrotabú og ekkja eða ekkill sætu þá uppi algjörlega eignalaus.

53. gr. er fyrst og fremst stefnt gegn þeim lögaðilum, sem hafa með höndum atvinnurekstur, en ekki lögaðila eins og dánarbú, sem enga slíka starfsemi hefur.

Ég tel, að skattyfirvöld séu með túlkun sinni á 53. gr. komin út á mjög svo vafasama braut, sem engin sér fyrir enda á.

Það er því krafa þessa dánarbús að fyrrgreind tekjufærsla skattstjórans verði felld niður og gjöldum breytt í samræmi við það.

Að lokum skal á það bent, að með slíkum starfsháttum skattstjóra sem hér hafa átt sér stað, þá er í rauninni aðeins um eitt kærustig að ræða.“

Með bréfi dags. 15. apríl 1983 gerir ríkisskattstjóri svofelldar kröfur í málinu fyrir hönd gjaldkrefjenda:

„Að hinn kærði úrskurður verði staðfestur.

Kærandi nýtur réttinda og ber skyldur í skattaréttarlegum skilningi sem lögaðili, sbr. ákvæði 5. tl. 2. gr. laga nr. 75/1981 um tekjuskatt og eignarskatt.

Í samræmi við 1. mgr. 53. gr. sömu laga bar kæranda því ótvírætt að taka tillit til þeirra áhrifa sem almennar verðbreytingar hafa á eignir hans og skuldir skv. nánar tilgreindum fyrirmælum greinarinnar og gildir þá einu hvort niðurstaðan varði gjaldfærslu eða tekjufærslu.

Skattframtal kæranda var móttekið hjá skattstjóra í kærufresti og því tekið til meðferðar sem kæra skv. 99. gr. nefndrar laga en við þá meðferð komu ákvæði 95.— 98. gr. laganna ekki til skoðunar. Breytingar skattstjóra verða líka að teljast slíkar að eigi hafi þurft að gera kæranda sérstaka fyrirspurn.

Í kæru mótmælir umboðsmaður kæranda því að 53. gr. skattalaganna eigi við um dánarbú þar sem greininni er fyrst og fremst ætlað að ná til þeirra lögaðila er hafa með höndum atvinnurekstur. Ríkisskattstjóri getur ekki fallist á það sjónarmið umboðsmanns kæranda enda er enginn fyrirvari gerður í ákvæðinu sjálfu. Með lögum nr. 25/1981 var gerð breyting á lögum nr. 40/1978 en til þeirra laga sækja núgildandi skattalög grunn sinn: í 16. gr. breytingalaganna var 1. mgr. 53. gr. skattalaganna breytt þannig að nú skyldi málsgreinin taka til lögaðila en áður var einungis talað um aðila er hafa með höndum atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi. Í greinargerð með breytingunni segir að verið sé að gera ákvæðið skýrara þannig að það skuli ná til eigna og skulda lögaðila án tillits til þess hvort viðkomandi skuldir eða eignir séu beinlínis tengdar atvinnurekstri.

Að virtu framangreindu verður eigi annað séð en að löggjafinn hafi ætlað ákvæði 53. gr. skattalaganna að taka til allra lögaðila án tillits til þess hvort þeir hefðu með höndum atvinnurekstur eða ekki. Eignir og skuldir dánarbúa er 53. gr. fjallar um verða því taldar mynda stofn til verðbreytingarfærslu.

Í kæru talar umboðsmaður kæranda um að þessi víðtæki skilningur á 53. gr. skattalaganna leiði af sér skattlagningu á skuldir þrotabús. Rétt þykir að benda á að skv. 5. mgr. greinarinnar myndi tekjufærslan líklega falla niður.

Ríkisskattstjóri getur eigi fallist á að með beitingu 53. gr. skattalaganna með þessum hætti séu skattyfirvöld komin út á vafasama braut þar sem hér er einungis verið að skattleggja þann hagnað er aðilar dánarbúsins njóta vegna rýrnunar skulda.

Ríkisskattstjóri ítrekar gerðar kröfur í málinu.“

Með vísan til þess sem fram kemur í kröfugerð ríkisskattstjóra er úrskurður skattstjóra staðfestur.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja