Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 779/1983

Gjaldár 1983

Lög nr. 75/1981, 3. gr.  

Takmörkuð skattskylda — Arðberandi eign — Útistandandi skuldir — Skattskylda

Málsatvik eru þau að við álagningu opinberra gjalda gjaldárið 1983 sætti kærandi áætlun skattstjóra með því að skattframtal hefði ekki borist. Af hálfu kæranda, sem ber hér á landi takmarkaða skattskyldu, var álagningin kærð til skattstjóra með bréfi dags. 26. september 1983 og farið fram á að meðfylgjandi skattframtal yrði tekið til greina sem skattkæra. Tekið er fram að þar sem kærandi dveljist erlendis og hafi gert undanfarin ár hefði algjörlega láðst að senda inn framtal. Á kærubréfið hefur skattstjóri skráð að umrætt framtal hafi ekki fylgt með.

Þann 17. október 1983 kvað skattstjóri upp úrskurð í tilefni af framkominni kæru. Vísaði hann kærunni frá af þeirri ástæðu einni að hún hefði borist honum eftir lok kærufrests.

Umboðsmaður kæranda hefur skotið kæruúrskurði skattstjóra til ríkisskattanefndar með kæru dags. 31. október 1983. Er sama kröfugerð höfð uppi og í kærunni til skattstjóra.

Með bréfi, dags. 6. desember 1983, gerir ríkisskattstjóri svofelldar kröfur í málinu fyrir hönd gjaldkrefjenda:

„Að virtum gögnum málsins þykja ekki vera fyrir hendi skilyrði til að fallast á að kæra kæranda sæti efnismeðferð.

Ríkisskattstjóri krefst því staðfestingar á úrskurði skattstjóra.“

Að ábendingu ríkisskattanefndar hefur umboðsmaður kæranda nú lagt fram afrit af skattframtali kæranda árið 1983. Er kæran til ríkisskattanefndar eftir atvikum tekin til efnismeðferðar og er fallist á framkomnar kröfur kæranda. Samkvæmt framtalinu seldi kærandi íbúð þá er hann átti hér á landi 18. janúar 1982. Voru einu eignir hans hérlendis þann 31. desember 1982 fjárkröfur, er ætla verður að stofnast hafi við sölu íbúðarinnar. Engar tekjur eru tilfærðar í framtalinu. Samkvæmt þessu var kærandi eigi skattskyldur aðili hér á landi vegna opinberra gjalda gjaldárið 1983, sbr. 3. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Eru því álögð gjöld það ár felld niður.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja