Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 7/1982

Gjaldárin 1975-1980

Reglugerð nr. 169/1970, 4. tl. 10. gr., 4. mgr. 38. gr.   Lög nr. 10/1960, 2. gr., 1. mgr. 13. gr., 1. mgr. 21. gr.  

Söluskattur — Söluskattsskylda — Sundlaugarekstur — Aðgangseyrir — Kærufrestur — Málsmeðferð áfátt — Viðurlög — Skólahald — Endurákvörðun — Úrskurður skattstjóra

Málavextir eru þeir, að með bréfi dags. 26. nóvember 1980 óskaði skattstjóri eftir því við umboðsmann sinn, að hann upplýsti hver væri rekstraraðili þeirrar sundlaugar sem kynni að vera staðsett í sveitarfélaginu. í svarbréfi umboðsmanns, dags. 24. janúar 1981, kemur fram, að í X-hreppi sé sundlaug við A í eigu skólans er sé notuð við sundkennslu skólabarna á skólatíma en annars ekki. Með bréfi dags. 20. mars 1981 fór skattstjóri þess á leit við skólastjóra A, að hann gerði grein fyrir rekstri sundlaugarinnar, er rekin væri á vegum skólans, þannig að fram kæmi heildarvelta fyrir s. 1. 6 ár (þ. e. söluskattsskyld velta) svo og greiddur söluskattur, ef um það væri að ræða. Benti skattstjóri á, að aðgangseyrir að sundlaugum væri söluskattsskyldur samkvæmt ákvæðum 4. tl. 10. gr. reglugerðar nr. 169/ 1970, um söluskatt, svo og 4. mgr. 38. gr. sömu reglugerðar. Kærandi svaraði með bréfi dags. 8. apríl 1981. Var tekið fram í bréfinu, að nefnd sundlaug væri til sömu nota og önnur skólamannvirki, þ. e. í þarfir kennslu. Ekki hefði verið færður sérstakur rekstrarreikningur fyrir sundlaugina heldur hefði kostnaður vegna hennar verið færður með Öðrum rekstrarútgjöldum á skólareikningi. Var vísað til upplýsinga í rekstrarreikningi skólans sem samþykktur væri af fræðsluyfirvöldum. Með bréfi, dags. 16. júní 1981, ítrekaði skattstjóri kröfu sína um upplýsingar um almennan aðgang að títtnefndri sundlaug, sbr. bréf dags. 20. mars 1981. Gefinn var 10 daga svarfrestur og jafnframt boðað að bærist svar ekki eða teldist ófullnægjandi yrði söluskattur áætlaður. Ekki barst svar frá kæranda og í úrskurði dags. 21. september 1981 áætlaði skattstjóri kæranda söluskatt árin 1975—1980 að báðum árum meðtöldum, alls 844 773 kr., og viðurlög alls 1 176 527 kr.

Úrskurði skattstjóra hefur af hálfu kæranda verið skotíð til ríkisskattanefndar með kæru dags. 30. september 1981. Er þess krafist að álagður söluskattur og viðurlög verði niður felld. Með bréfi dags. 18. október 1981 barst frekari rökstuðningur. Þar segir svo:

„Við frekari eftirgrennslan vil ég leyfa mér að taka eftirfarandi fram:

  1. Í bókhaldi eða öðrum gögnum skólans getur undirritaður ekki fundið neitt það sem bendir til að sundlaug A hafi verið rekin sem almenningslaug eða að þar hefði verið seldur aðgangseyrir.
  2. Sundlaug og búningsklefar eru í því ástandi að tæpast má kalla rekstrarhæft til skólasunds og hefi ég fyrir satt að þannig hafi ástand sundlaugarinnar verið síðustu ár.
  3. Sundlaugin var byggð af fátækt af B-sambandi Snæfells- og Hnappadalssýslu. Er A hóf starfsemi sína gaf sambandið skólanum laugina.

Allt frá skólastofnun 1965 hefur verið reynt að framkvæma sundskyldu skólabarna í lauginni.

Undirritaður væntir þess að skattalög þessa lands og þá um leið ríkisskattanefnd fríi sundlaug A frá þeim úrskurði, sem kveðinn hefur verið upp af skattstjóra Vesturlandsumdæmis, vegna söluskatts tímabilið 1975—1980.“

Af hálfu ríkisskattstjóra eru með bréfum dags. 11. nóvember 1981 og 1. desember 1981 gerð sú krafa aðallega, að kærunni verði vísað frá ríkisskattanefnd sem of seint fram kominni með því að af póststimpli megi ráða að kæran sé ekki póstlögð fyrr en 8. október 1981, en hinn kærði úrskurður sé dagsettur 21. september s. á. I varakröfu er fallist á kröfur kæranda með vísan til yfirlýsinga forsvarsmanna kæranda um, að sundlaugin sé ekki rekin sem almenningssundlaug og ekki seldur þar aðgangseyrir.

Kæran, sem dagsett er þann 30. september 1981, er fram komin þann 1. október 1981. Er frávísunarkröfu ríkisskattstjóra því hrundið. Skattstjóri ákvarðaði hinn umdeilda söluskatt svo og viðurlög fyrst í úrskurði sínum dags. 21. september 1981. Þessi málsmeðferð er andstæð ákvæðum 1. mgr. 13. gr., sbr. 1. mgr. 21. gr. laga nr. 10/1960, um söluskatt, með síðari breytingum. Þá verður eigi séð að tilefni hafi verið til hinnar kærðu álagningar, enda þykir sýnt að eigi hefur verið um sölugjaldsskylda starfsemi að ræða. Með vísan til framanritaðs eru kröfur kæranda teknar til greina.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja