Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 204/1992

Gjaldár 1989

Lög nr. 75/1981 — 2. gr. 1. mgr. 1. tl. — 31. gr. 7. tl. — 56. gr. — 95. gr. 2. mgr. — 99. gr. 1. mgr. 2. ml. — 106. gr. 1. mgr.   Lög nr. 32/1978 — XIV. kafli — 126. gr.  

Síðbúin framtalsskil — Áætlun — Áætlun skattstofna — Skattframtal í stað áætlunar — Skattframtal tekið sem kæra — Álag — Álag vegna síðbúinna framtalsskila — Vítaleysisástæður — Hlutafélag — Lögaðili — Samruni — Samruni hlutafélaga — Sameining félaga — Samrunadagur — Yfirfærsla skattaréttarlegra réttinda og skyldna — Hlutafélagaskrá — Tilkynning til hlutafélagaskrár — Félagsslit — Rekstrartap — Rekstrartap, yfirfæranlegt — Yfirfæranlegt rekstrartap — Samruni, gagngjald — Gagngjald við samruna

Málavextir eru þeir, að kærandi taldi ekki fram innan tilskilins framtalsfrests, en framtal var móttekið af skattstjóra þann 23. júní 1989. Við frumálagningu opinberra gjalda gjaldársins 1989 voru lögð á kæranda opinber gjöld á grundvelli gjaldstofna samkvæmt áður innsendu launaframtali ársins 1989. Skattstjóri tók skattframtal kæranda sem kæru, en áður en hann tók hana til úrlausnar gerði hann kæranda svofellda fyrirspurn með bréfi, dags. 10. apríl:

„Í framtali félagsins 1989 kemur fram að félögin A hf. og B hf. hafi verið sameinuð á árinu 1988.

Til frádráttar tekjum A hf. eru færð ónotuð rekstrartöp frá fyrri árum kr. 6.049.730 en þau töp mynduðust í rekstri B hf.

Til staðfestingar réttmæti nefnds frádráttar óskast skattstjóra send greinargerð þar sem lýst sé með hvaða hætti sameining félaganna átti sér stað.

Leggið fram ljósrit af samningum milli aðila vegna umræddrar sameiningar.

Leggið fram lista yfir nöfn hluthafa í félögunum fyrir og eftir sameiningu og tilgreinið hlutabréfaeign hvers aðila í félögunum fyrir og eftir sameiningu.“

Í ársskýrslu stjórnar með ársreikningi meðfylgjandi skattframtali kæranda var gerð svofelld grein fyrir umræddri sameiningu:

„Í desember voru félögin A hf. og B hf. sameinuð, en enginn rekstur var á B hf. á árinu 1988.

Stjórnin leggur til að tap verði flutt óráðstafað til næsta árs, að frádregnum höfuðstól B.“

Samkvæmt skattframtali kæranda nam rekstrartap ársins 1988 kr. 3.448.037 og að viðbættu tapi yfirteknu vegna sameiningar frá B hf. kr. 5.106.119, sem endurmetið á árinu 1988 nam kr. 6.049.730, nam yfirfæranlegt tap kæranda til næsta árs alls kr. 9.497.767. Ekki barst svar frá kæranda við áðurgreindu bréfi skattstjóra. Með kæruúrskurði, dags. 1. október 1990, féllst skattstjóri á innsent skattframtal kæranda að gerðum nokkrum breytingum þar á meðal þeim, að hann felldi niður ónýtt endurmetið rekstrartap frá B hf. 6.049.730 kr. á þeirri forsendu, að kærandi teldist ekki hafa sýnt fram frádráttarbærni þess með hliðsjón af ákvæðum 56. gr. og 7. tl. 31. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, og að nýtt væri heimild til beitingar 15% álags á gjaldstofna samkvæmt ákvæðum 1. mgr. 106. gr. nefndra laga, þar sem ekki hefði verið sýnt fram á, að þær ástæður hefðu legið fyrir, er leiða ættu til þess, að fella bæri niður álag samkvæmt tilvitnuðu lagaákvæði.

Með kæru, dags. 29. október 1990, skaut umboðsmaður kæranda kæruúrskurði skattstjóra til ríkisskattanefndar og boðaði, að kæruatriði yrðu rakin síðar.

Með bréfi, dags. 10. desember 1990, gerði ríkisskattstjóri fyrir hönd gjaldkrefjenda kröfu um frávísun kærunnar frá ríkisskattanefnd, þar sem boðaður rökstuðningur hefði ekki borist og kæran væri því vanreifuð af hálfu kæranda.

Áður boðaður rökstuðningur í kæru umboðsmanns kæranda barst ríkisskattanefnd þann 12. desember 1990 í bréfi umboðsmanns, dags. 7. desember 1990. Er þess krafist í kæru, að tap B hf. verði viðurkennt og að 15% viðurlög vegna síðbúins framtals verði felld niður. Í kæru er gerð svofelld grein fyrir sameiningu félaganna:

„Í desember 1988 voru hlutafélögin B hf. og A hf. sameinuð. Aðaleigandi A, X, keypti öll hlutabréfin í B hf. og sameinaði félögin, sbr. meðfylgjandi ljósrit af tilkynningu dags. 27. desember 1988, en tilkynningin birtist í lögbirtingarblaði þann 19. apríl 1989.

Sameiningin fór fram með hefðbundnum hætti, þ.e. hlutafé B hf. og óráðstafað eigið fé bættist við sömu liði hjá A, svo og eignir og skuldir voru yfirteknar af hinu síðarnefnda félagi. Enginn rekstur var á B hf. á árinu 1988, eins og tekið er fram í ársskýrslu stjórnar í ársreikningi 1988 fyrir A. Til skýringar þessum lið fylgir hér með ljósrit af ársreikningi B hf. fyrir árið 1987, svo og ljósrit af skattframtali 1988. Einnig fylgir ljósrit úr lögbirtingarblaði þar sem sameiningin er tilkynnt.“

Í rökstuðningi fyrir niðurfellingu álags í kæru er m.a. til þess vísað, að láðst hafi að sækja um frest fyrir kæranda, þar sem það hafi verið fyrsta framtal kæranda, og eigi hann enga sök á þeim mistökum.

Með bréfi, dags. 17. september 1991, gerir ríkisskattstjóri fyrir hönd gjaldkrefjenda þá kröfu, að kærunni verði vísað frá með svofelldum rökstuðningi:

„Í málinu liggur ekki fyrir skjalfest með hvaða hætti hin meinta sameining átti sér stað. Af því sem séð verður af kærugögnum virðist þó einna helst ráðið að öll hlutabréf í hinu niðurlagða félagi hafi komist á eina hendi. Væri samkvæmt því um slit félagsins að ræða og ákvæði skattalaga um samruna félaga ættu því ekki við. Meðan þetta atriði liggur ekki fullkomlega ljóst fyrir verður að telja málið í þeim mæli vanreifað að efnisúrskurður verði ekki lagður á. Frávísunarkrafa ríkisskattstjóra frá 10. desember 1990 í máli þessu er því ítrekuð.“

Eigi verður séð, að með ráðstöfunum þeim, sem í málinu greinir, hafi verið uppfyllt þau skilyrði sem sett eru í 56. gr. laga nr. 75/1981. Er kröfu kæranda því hafnað.

Fallist er á kröfu kæranda um niðurfellingu álags á skattstofna.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja