Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 183/1982

Gjaldár 1981

Lög nr. 75/1981, 1. tl. E-liðs 1. mgr. 30. gr.  

Vaxtagjöld - Frádráttarheimild - Frádráttarbærni - Íbúðarhúsnæði - Lántaka - Sönnun - Sönnunarbyrði - Íbúðarlán - Skuldbreyting - Skuldbreytingarlán

Kærandi stundaði sendibílaakstur og skilaði rekstrarreikningi yfir þá starfsemi með skattframtali sínu árið 1981. í skattframtalinu færði kærandi til frádráttar vaxtagjöld að fjárhæð alls 1 505 619 kr. í reit 60. Voru vaxtagjöld þessi af skuldum við X, C og S. Þá var í dálk skulda og vaxtagjalda tilfærðir vextir að fjárhæð 227 500 kr. af láni frá A og frekari vextir af lánum frá S 73 525 kr. Niðurstöðutölu vaxtagjalda til frádráttar var breytt til samræmis við þetta um 301 025 kr. til hækkunar og námu því alls 1 806 644 kr. Af málsgögnum virðist ráðið, að breyting þessi hafi stafað frá kæranda. Samkvæmt greinargerð um eignabreytingar í skattframtalinu seldi kærandi sendibifreið á árinu 1980 og var söluverð 3 500 000 kr. Bifreið þessi var samkvæmt gögnum málsins keypt árið 1979. Þá keypti kærandi sendibifreið á árinu 1980 og var kaupverð 5 674 504 kr. svo og jeppabifreið fyrir 3 600 000 kr.


Með bréfi dags. 19. júní 1981 tilkynnti skattstjóri kæranda, að vextir af lánum vegna bifreiðakaupa væru ekki frádráttarbærir og þess farið á leit að skattframtalið yrði leiðrétt þannig, að einungis væru tilfærðir þeir vextir í reit 87 sem frádráttarbærir væru skv. 1. tl. E-liðs 1. mgr. 30. gr. laga nr. 40/1978, sbr. 2. gr. laga nr. 2/1981. Ennfremur var kærandi krafinn um efnahagsreikninga vegna 1979 og 1980, þar sem m. a. skyldu koma fram skuldir vegna kaupa á bifreiðum þeim sem notaðar hefðu verið sem atvinnutæki. Þá skyldi útfyllt eyðublað fyrir verðbreytingarfærslu. Leiðréttingar og gögn skyldu send innan 10 daga frá dagsetningu bréfsins. Ekki svaraði kærandi bréfi þessu og með bréfi dags. 22. júlí 1981 tilkynnti skattstjóri kæranda, að honum hefðu verið áætlaðar tekjur 1 000 000 kr. hærri en samkvæmt skattframtali auk 25% álags sem næmi 250 000 kr.


Með kæru dags. 18. ágúst 1981 var tekjuhækkuninni mótmælt af hálfu kæranda. Engin lán hefðu sérstaklega verið tekin til kaupa á bifreið og vaxtagjöld vegna slíks ekki færð til frádráttar. Lán tekið hjá S hefði verið til þess að greiða afborganir og vexti af fyrri lánum, sem hafi verið vegna íbúðarbyggingar.


Með úrskurði dags. 28. október 1981 hafnaði skattstjóri kröfum kæranda. Tók skattstjóri m. a. fram, að í skattframtali kæranda árið 1980 væri getið skuldar við S að fjárhæð 1 600 000 kr. er hefði myndast árið 1979. Kærandi hefði árið 1979 keypt atvinnubifreið fyrir 3 000 000 kr. Ekki hefði þurft lántöku, ef bifreiðin hefði ekki verið keypt. Væri skuldin því ótvírætt til komin vegna bifreiðakaupa. Sama væri að segja um skuld við A, nema hún væri vegna kaupa á einkabifreið. Bæri því að færa skuld við S á efnahagsreikning og vexti af henni til gjalda á rekstrarreikningi. Þá bæri að færa tekjufærslu vegna verðbreytingar sökum þessarar skuldar. Vextir af láni frá A væru færðir í reit 88 í skattframtali og væru ófrádráttarbærir. Felldi skattstjóri niður fyrri tekjuviðbót og hagaði álagningunni í samræmi við ofangreinda niðurstöðu.


Með bréfi dags. 15. febrúar 1982 krefst ríkisskattstjóri þess í málinu, að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans, enda hafi ekki komið fram nein þau gögn eða málsástæður varðandi kæruefnið sem tilefni gætu gefið til breytinga á ákvörðun skattstjóra.


Kærandi ber fyrir sig, að lántaka sú sem málið snýst um og vaxtagjöld þar að lútandi eigi rót sína að rekja til íbúðarbyggingar á fyrri árum og lánsfénu hafi verið varið til greiðslu afborgana og vaxta af lánum sem til þeirra þarfa voru tekin . Með hliðsjón af endurnýjun bifreiðakosts, því sem upplýst er um greiðslu afborgana og vaxta af téðum íbúðarlánum og að virtum gögnum málsins að öðru leyti var tilefni til þess af hálfu kæranda að gera glögga grein fyrir þeim atvikum sem hann byggir staðhæfingar sínar á, en svo sem gögn málsins liggja fyrir verður eigi talið að næg rök hafi af hans hendi verið færð fram. Er úrskurður skattstjóra staðfestur með þessum athugasemdum.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja