Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 207/1982

Gjaldár 1980

Lög nr. 22/1956   Lög nr. 75/1981, 2. mgr. 1. gr.  

Takmörkuð skattskylda — Heimilisfesti — Úrskurðarvald ríkisskattstjóra — Lögheimili — Gildistaka skattalaga — Álagningarmeðferð skattstjóra

Kærð er álagning opinberra gjalda gjaldárið 1980 og þess krafist að við ákvörðun þeirra gjalda verði skattframtal kæranda árið 1980 lagt til grundvallar og við það miðað að hún hafi verið heimilisföst hér á landi allt árið 1979 í skilningi 1. gr. laga nr. 40/1978, um tekjuskatt og eignarskatt og skattlagningu nefnt gjaldár hagað í samræmi við þau lög. í kæru sinni til ríkisskattanefndar getur kærandi þess að hún hafi farið til Danmerkur 12. október 1979 og komið aftur til Íslands 19. febrúar 1980. Skattframtali 1980 hafi verið skilað fyrir sig í framtalsfresti. Við álagningu tekna hér á landi 1979 og eigna í lok þess árs virðist svo sem skattstjóri hafi ýmist farið eftir lögum nr. 22/1956 eða lögum nr. 40/1978 og vitni hann til ályktunar ríkisskattstjóra og margra ára framkvæmdavenju. Þá getur kærandi um eftirfarandi: „Ísland og Danmörk hafa með sér samning til þess að komast hjá tvísköttun þegna þessara landa. Þótt ég dveljist í Danmörku u. þ. b. fjóra mánuði get ég ekki fallist á að þurfa að gjalda þess með langtum hærri skattlagningu tekna minna hér á landi af þessum ástæðum. Einnig vil ég alfarið neita því, að um nokkra slíka framkvæmdavenju sé að ræða, að bornir og barnfæddir íslendingar, sem fara til ekki lengri dvalar erlendis en hér um ræðir, séu skattlagðir eins og útlendingar eða fólk sem er að flytjast búferlum til útlanda. Miklu fremur mun það hafa verið venja í slíkum tilvikum sem þessum að reikna tekjuskattinn út frá samanlögðum tekjum í báðum löndunum og skipta honum síðan í sömu hlutföllum og tekjurnar féllu til hérlendis og erlendis og þá að sjálfsögðu notaðir skatt- og útsvarsstigar er notaðir voru við álagningu árið eftir að teknanna var aflað. Á sama hátt mótmæli ég því, að ég eigi að bera eignaskatt eins og lögaðili eða útlendingur.

Ég vil því treysta því, að ríkisskattanefnd leiðrétti þá óhóflegu skattalagningu, er ég verð fyrir af þeim sökum einum, að ég skila, svo sem mér bar, samnorrænu flutningsvottorði er ég fór til Danmerkur þótt ég dveldist ekki þar nema u. þ. b. hálfan vetur.“

Með bréfi dags. 8. október 1981 gerir ríkisskattstjóri svofelldar kröfur í málinu:

„Með lögum nr. 119/1978, ákvæðum til bráðabirgða, var gildistími laga nr. 22/1956 um skatt- og útsvarsgreiðslur útlendinga og gjaldenda sem eru á förum úr landi, framlengdur um eitt ár eða til ársloka 1979.

Samkvæmt nefndum lögum bar kæranda skylda til að tilkynna viðkomandi skattyfirvöldum um fyrirhugaðan brottflutning þannig að álagningarskylda gæti farið fram. Kærandi fullnægði eigi framangreindri lagaskyldu sinni og fór því álagning gjalda eigi fram fyrr en árið 1980.

Við álagningu gjalda ber að nota skatt- og útsvarsstiga svo og skattprósentu og persónuafslætti er í gildi voru er álagning átti lögum samkvæmt að vera framkvæmd. Er því krafist staðfestingar á úrskurði skattstjóra hvað varðar álagningu tekjuskatts, útsvars og sjúkratryggingagjalds.

Samkvæmt framtali kæranda virðist hann eigi hafa haft tekjur af eignarhluta sínum í fasteigninni að X-stræti og þykir því mega fallast á að álagður eignarskattur falli niður með vísan til 9. töluliðar, 3. greinar laga nr. 75/1981.“

Kærandi gerir þá kröfu að hún verði talin hafa verið heimilisföst hér á landi allt almanaksárið 1979 í skilningi 1. gr. laga um tekjuskatt og eignarskatt og opinber gjöld ákvörðuð í samræmi við það. Samkvæmt 2. mgr. 1. gr. nefndra laga hefur ríkisskattstjóri úrskurðarvald um það hverjir skuli teljast heimilisfastir samkvæmt 1. gr. og úrskurði ríkisskattstjóra má skjóta til dómstóla. í málinu liggur fyrir úrskurður ríkisskattstjóra frá 27. apríl 1981 um það að kærandi teljist ekki hafa átt heimilisfesti hér á landi skv. 1. gr. nefndra laga tímabilið 12. október 1979—19. febrúar 1980. Eigi hefur úrskurði þessum verið hnekkt af bærum aðila og verður hann því lagður til grundvallar við ákvörðun opinberra gjalda á kæranda gjaldárið 1980.

Þar sem kærandi var eigi við brottför sína af landinu á árinu 1979 skattlagður samkvæmt lögum nr. 22/1956, um skatt- og útsvarsgreiðslur gjaldenda sem eru á förum úr landi o. fl., þykir rétt að ákvarða skatta hans vegna nefnds árs eftir þeim skattalögum sem í gildi voru við álagningu opinberra gjalda á árinu 1980.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja