Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 221/1982

Gjaldár 1981

Lög nr. 75/1981, 2. mgr. 1. tl. A-liðs 7. gr., 59. gr., 96. gr.  

Reiknað endurgjald — Kjarasamningur — Viðmiðunarreglur ríkisskattstjóra — Vinnuvélaeigandi — Tímakaupsviðmiðun — Sönnun — Sönnunarbyrði

Málavextir eru þeir, að kærandi, sem hafði með höndum rekstur vinnuvéla, færði sér til tekna í skattframtali sínu árið 1981 reiknað endurgjald vegna starfa sinna við þennan rekstur að fjárhæð 24 350 000 kr. Að teknu tilliti til þessa reiknaða endurgjalds varð hagnaður af rekstri 34 067 kr. Ekki var rekstrarhagnaður þessi færður á skattframtal. Skattstjóri gerði þá breytingu á skattframtalinu, að hann lækkaði tilfært reiknað endurgjald kæranda um 9 350 000 kr. eða í 15 000 000 kr. og færði kæranda sem rekstrarhagnað 9 384 067 kr. Taldi skattstjóri reiknað endurgjald kæranda ekki samrýmast þeim reglum sem farið væri eftir við mat á reiknuðu endurgjaldi, en samkvæmt framkomnum upplýsingum greiddi Vegagerð ríkisins ýtumönnum meira en helmingi lægri laun árið 1980 en kærandi hefði metið sér sem reiknað endurgjald. Hefði skattstjóri stuðst við upplýsingar Vegagerðarinnar um meðaltímakaup og upplýsingar kæranda um vinnutíma. Þá segir svo í úrskurði skattstjóra, dags. 10. nóvemberT981:

„Samkvæmt 2. málsgr. 1. tl, A-liðs 7. gr. laga nr. 75/1981, skal maður sem vinnur við eigin atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi telja sér til tekna sambærilegt endurgjald fyrir starf sitt og hefði hann innt það af hendi fyrir óskyldan eða ótengdan aðila. Í 59. gr. laganna

er ríkisskattstjóra gert að setja viðmiðunarreglur til ákvörðunar þessa endurgjalds. Skal hann miða viðmiðunarreglur sínar við laun fyrir sambærileg störf í venjulegum vinnutíma og hafa hliðsjón af gildandi kjarasamningum og raunverulegum tekjum í viðkomandi starfsgrein. Samkvæmt mati ríkisskattstjóra eru árslaun stjórnanda vinnuvéla talin 4 200 000 gkr. Hámark reiknaðs endurgjalds skal miða við 50% hærri fjárhæð, að öðru jöfnu miðað við venjulegan vinnutíma. Verður þá hámark 6 300 000 gkr. en til viðbótar skal ákvarða tekjur vegna yfirvinnu, álagsgreiðslu o. þ. h., geri framteljandi fullnægjandi grein fyrir þeim sbr. bréf ríkisskattstjóra dags. 25. maí 1981, um viðmiðunarreglur til ákvörðunar endurgjalds gjaldárið 1981. Þessar greiðslur verða því 8 700 000 kr., skv. ákvörðun skattstjóra, eða verulega hærri en dagvinnutekjur í mati ríkisskattstjóra.

Verður því að telja mat skattstjóra á reiknuðum launum kæranda við eigin atvinnurekstur fremur of hátt en hitt, ekki síst ef tekið er tillit til þess að þrjá mánuði ársins 1980 var engin útseld vinna talin á söluskattsskýrslum kæranda.

Kröfu kæranda er því algjörlega hafnað, en fallist á að reiknuð laun standi óbreytt eins og þau voru ákvörðuð í bréfi skattstjóra dags. 14/7 s. 1. 15 000 000 gkr.“

Úrskurði skattstjóra hefur af hálfu kæranda verið skotið til ríkisskattanefndar með kæru dags. 27. nóvember 1981, og er þess krafist að reiknað endurgjald verði látið óbreytt standa svo sem það var tilfært í skattframtali. Miðað við umfang, starfstíma og verkhæfni sé endurgjald þetta ekki fjarri ætluðum launatekjum hjá ótengdum aðila. I gögnum málsins er greinargerð kæranda fyrir starfstíma og útreikningi fjárhæðar reiknaðs endurgjalds og tímakaup miðað við þekkingu og færni í starfi og miðað við launagreiðslur til sambærilegra aðila. Af hálfu kæranda er viðmiðun við laun ýtumanna í þjónustu Vegagerðar ríkisins mótmælt sem óraunhæfri, þar sem allt viðhald, viðgerðir og umsjón með rekstri ýtu sé á hendi kæranda.

Af hálfu ríkisskattstjóra er þess krafist með bréfi dags. 16. mars 1982 að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans.

Kærandi hefur gert glögga grein fyrir vinnuframlagi sínu og reiknað það til verðs miðað við áætlað tímakaup fyrir unnar vinnustundir. Hin háa fjárhæð reiknaðs endurgjalds er af hálfu kæranda rökstudd með mikilli vinnu í þágu rekstrarins. Skattstjóri hefur byggt á vinnustundafjölda, sem kærandi hefur gert grein fyrir, en eigi fallist á tímakaupsviðmiðun kæranda. í því efni byggir skattstjóri á upplýsingum Vegagerðar ríkisins um kaupgreiðslur. Eigi þykir einhlítt til þess að hnekkja mati kæranda sjálfs á verðmæti vinnuframlags síns að miða eingöngu við kaupgreiðslur Vegagerðar ríkisins. Með tillit til þess og að því virtu, að vinnustundafjöldi hefur eigi verið vefengdur, þykja eigi fram komin næg efni til breytinga á því reiknaða endurgjaldi sem kærandi færði sér til tekna. Eru kröfur kæranda því teknar til greina.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja