Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 230/1982

Gjaldár 1980

Lög nr. 75/1981, 1. tl. E-liðs 1. mgr. 30. gr., 51. gr.  

Vaxtagjöld — Verðbætur — Íbúðarhúsnæði — Kaupsamningur — íbúðarlán — Frádráttarheimild — Frádráttarbærni — Vísitölutryggt kaupverð — Vísitöluálag — Byggingarvísitala — Afhendingardagur eignar — Verðtryggingarákvæði kaupsamnings

Málavextir eru þeir, að með kaupsamningi dags. 22. febrúar 1979 keypti kærandi íbúðarhús í smíðum af byggingarfyrirtæki nokkru. í samningnum var tekið fram, að kaupverð hússins væri „fast verð miðað við afhendingardag, en eftir það er verðið vísitölutryggt samkvæmt útreikningi frá Hagstofu Íslands.“ Samkvæmt ákvæðum samningsins skyldi byggingarvísitala reiknast ofan á allar greiðslur frá afhendingardegi til greiðsludags og reiknast sem jafnaðarvísitala. Þá voru nánari ákvæði um vísitöluálag þetta og greiðslu þess. Vísitala reiknaðist ekki eftir að öllum framkvæmdum var lokið samkvæmt samningnum. Eignin skyldi afhent kaupanda á tímabilinu júlí—september 1979 en frágangi af hálfu seljanda ljúka sumarið 1980. Kaupverð, 22 525 000 kr. skyldi greiðast í áföngum frá undirskrift samnings til 15. maí 1980.

Í framtalsskilum sínum eignfærði kærandi sem vísitöluálag 465 058 kr. samkvæmt nefndum samningsákvæðum, reiknað 10. október 1979, fyrir tímabilið frá afhendingardegi 27. ágúst 1979 til 1. október 1979. Með kæru dags. 22. ágúst 1980 krafðist kærandi þess, að nefnt vísitöluálag yrði fært til frádráttar tekjum, enda væri það frádráttarbært sem vaxtagjöld samkvæmt upplýsingum sem hann hefði aflað sér. Hann hefði hins vegar talið vísitöluálagið með kaupverði í skattframtali sínu og húsbyggingarskýrslu. Fylgdi kærunni útreikningur seljanda, dags. 10. október 1979, á vísitöluálaginu. Með úrskurði dags. 31. október 1979 hafnaði skattstjóri kröfu kæranda á þeim forsendum að ekki gæti hér talist vera um vaxtagjöld að ræða.

Úrskurði skattstjóra hefur af hálfu kæranda verið skotið til ríkisskattanefndar með kæru dags 28. nóvember 1980 og ítrekaðar fyrri kröfur.

Af hálfu ríkisskattstjóra eru í málinu gerðar svofelldar kröfur með bréfi dags. 16. mars 1982:

„Að hinn kærði úrskurður verði staðfestur.

Ríkisskattstjóri getur eigi fallist á að vísitöluálag á kaupverð fasteignar skv. kaupsamningi sé vaxtagjöld í skilningi skattalaga er giltu við álagningu gjalda árið 1980.

Verðtryggingarákvæði í kaupsamningi kæranda verður að telja hækkun kaupverðs en ekki fjármagnskostnað vegna kaupanna. Má í því sambandi benda á að ekki er gefið út sérstakt og sjálfstætt skuldabréf vegna greiðslu eftirstöðva kaupverðsins.

Í kaupsamningi er tekið fram að kaupverðið sé fast miðað við afhendingardag en eftir það vísitölutryggt. Vísitöluálaginu er ætlað að verðtryggja kaupverðið meðan á framkvæmdum byggingaraðila stendur, þannig að ljóst má vera að verðtryggingarákvæði kaupsamningsins er einungis hækkun kaupverðs og bar að eignfæra þá hækkun.

Að virtu framangreindu er ítrekuð krafa um staðfestingu á úrskurði skattstjóra.“

Fram kemur í kaupsamningi þeim sem um er að ræða, en afrit hans liggur fyrir í málinu, að kaupverðið sé vísitölutryggt frá afhendingardegi. Af þeim sökum þykir loku fyrir það skotið, að vísitöluálag það sem málið snýst um verði fært til frádráttar sem verðbætur samkvæmt ákvæðum laga um tekjuskatt og eignarskatt, sbr. 1. tl. E-liðs 1. mgr. 30. gr. laga nr. 40/1978 og 1. tl. 1. mgr. 51. gr. sömu laga, svo sem henni var breytt með a-lið 25. gr. laga nr. 7/1980. Með þessum athugasemdum þykir bera að staðfesta úrskurð skattstjóra.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja