Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 247/1982

Gjaldár 1980

Reglugerð nr. 245/1963, 4. tl. 54. gr.   Lög nr. 75/1981, 2. mgr. 1. tl. A-lið 7, gr. 53. gr., 59. gr., 100. gr.   Lög nr. 68/1971  

Reiknað endurgjald — Landbúnaður — Póstflutningar — Landpóstur — Viðmiðunarreglur ríkisskattstjóra — Heybirgðir — Verðbreytingarfærsla — Skattskyld eign — Kærufrestur — Vanreifun kæru

Með bréfi dags. 23. mars 1981 krafði skattstjóri kærendur um skýringar á tilteknum atriðum í skattframtali þeirra árið 1980. Benti skattstjóri á að í skattframtali þeirra hafi þeir ekki reiknað sér til tekna „endurgjald vegna búrekstrar og póstdreifingar skv. ákvæðum 2. mgr. 1. tl. A-liðs 7. gr. laga nr. 40/1978 heldur dreift launagreiðslum á þrjú börn yðar á aldrinum 14—16 ára. Ekki er fallist á að búrekstur og póstdreifing hvíli að öllu leyti á börnum yðar heldur sé hér um tekjudreifingu að ræða.“ Var því skorað á kærendur að upplýsa um vinnuframlag þeirra og barna þeirra á árinu 1979. Þá var óskað eftir tilteknum upplýsingum um sölu á jeppabifreið á árinu 1979. Bréfi skattstjóra svöruðu kærendur með bréfi dags. 29. mars 1981. Gerðu þeir grein fyrir vinnuframlagi barna sinna við búreksturinn svo og því hver annaðist póstdreifingu. Með bréfi dags. 7. maí 1981 tilkynnti skattstjóri kærendum að hann ráðgerði að gera ýmsar breytingar á skattframtali kærenda árið 1980. Var um að ræða m. a. breytingar á gjaldfærðum og reiknuðum launum kærenda og barna þeirra, fyrningu útihúsa, tekjufærslu vegna póstdreifingar, verðbreytingarfærslu, tapi vegna sölu á jeppabifreið, gjaldfærðum kostnaði á móti ökutækjastyrk o. fl. Til viðbótar þessum fyrirhuguðu breytingum tilkynnti skattstjóri með bréfi dags. 25. maí 1981 að fyrirhugað væri að færa kærendum til tekna eignfærðar birgðir fóðurs að fjárhæð 3 600 000 kr., þar sem bréfi skattstjóra frá 7. maí 1981 hefði ekki verið svarað.

Kærendur virðast hvorki hafa svarað bréfi skattstjóra frá 7. maí né 25. maí 1981. Með bréfum dags. 7. júlí 1981 tilkynnti skattstjóri kærendum um breytingar á áður álögðum opinberum gjöldum þeirra til hækkunar og tveggja dætra þeirra til lækkunar. Var kærendum jafnframt tilkynnt að kærufrestur til skattstjóra væri 30 dagar frá og með póstlagningardegi tilkynningarinnar.

Með bréfi til skattstjóra dags. 6. ágúst 1981, póststimpluðu 7. ágúst 1981, að X Kjósarhreppi, gátu kærendur þess að vegna búferlaflutninga hefðu gögn þeirra varðandi málið glatast og fóru því fram á frekari frest til svara uns búið væri að afla gagna að nýju. Með bréfi dags. 11. ágúst 1981 sendi svo kærandi rökstuðning sinn til skattstjóra og er hann svohljóðandi:

„A. Okkur eru færðar til tekna Gkr. 3 600 000.

Þessu mótmælum við sem fráleitu. Bent er á, að með gjörbreyttu formi og kröfum til framtala fyrir landbúnað, er m. a. gerð krafa um uppsetningu efnahagsreiknings svo og fyrir árið 1978. Mitt sjónarmið af þessu tilefni var m. a. að reyna að áætla verðmæti heybirgða á grundvelli 5 1/2 mánaða birgða. Þess vegna virðist mér niðurstaða yðar fráleit, með því (væntanlega) að lækka rekstrargjöld hússins um þessar birgðir í stað þess að leggja til grundvallar þá heldur birgðabreytinguna milli ára. í þessu sambandi vænti ég þess að þér gætið hagsmuna okkar með tilliti til verðstuðuls og niðurfærslukúnsta. B. Varðandi mat vinnu barna minna og hliðsjón yðar af matsreglum um 16 viku vinnu barna að hámarki, þá vil ég geta þessa: Eins og framtal mitt ber með sér, þá eru börn mín innan 16 ára aldurs á árinu 1979 5 að tölu. Þó svo að ég hafi hingað til aðeins metið upphátt vinnu tveggja elstu dætra minna, þá bendi ég á, að A er 13 ára á árinu og vel verkfær, enda tók hann fullan þátt í starfinu við búið enda tiltækastur barna minna til starfa. B tel ég fullfæran kúasmala með meiru. Með þessum skýringum tel ég fullum rökum skotið undir þá staðhæfingu að búreksturinn byggist nær eingöngu á vinnu barnanna. Ég minni á að ég hefi áður bent yður á vinnuframlag barna. Ég ítreka enn að ég vinn fulla vinnu utan búsins. Eiginkonan hefur auk forstöðu heimilis af stærri gerð annast póstdreifinguna.“ Með kæruúrskurðum dags. 13. ágúst 1981 vísaði skattstjóri kærunni frá sem of seint fram kominni. Síðasti dagur kærufrests hefði verið þann 5. ágúst 1981, en kæran sé dagsett 6. ágúst og póststimpluð daginn eftir.

Kærendur hafa skotið kæruúrskurðum skattstjóra til ríkisskattanefndar með kæru dags. 8. september 1981. Gera þeir þar grein fyrir ástæðum síðbúinnar kæru til skattstjóra og gera sömu kröfur og hafðar voru þar uppi.

Með bréfi dags. 11. janúar 1982 krefst ríkisskattstjóri staðfestingar á úrskurðum skattstjóra.

Með bréfi dags. 2. apríl 1982 gera kærendur enn grein fyrir ástæðum þess að dregist hafi að kæra til skattstjóra fyrir lok kærufrests.

Eftir atvikum er kæran til ríkisskattanefndar tekin til efnisúrlausnar. Eru kröfur kærenda annars vegar þær að tekjufærsla skattstjóra á heybirgðum þann 31/12 1979 að fjárhæð 3 600 000 kr. verði felldar niður og hins vegar að gjaldfærð laun á landbúnaðarskýrslu svo og reiknuð og greidd laun kærenda og dætra þeirra verði látin óbreytt standa miðað við skattframtöl þeirra.

Samkvæmt landbúnaðarskýrslum kærenda höfðu þeir með höndum mjólkur- og kjötframleiðslu á árunum 1978 og 1979. Heybirgðir þann 31/12 1978 og 31/12 1979, sem ætlaðar voru til fóðrunar á bústofni kærenda teljast ekki til skattskyldrar eignar hvorki samkvæmt lögum nr. 68/1971, um tekjuskatt og eignarskatt, né lögum nr. 75/1981 um sama efni, sbr. og 4. tl. 54. gr. reglugerðar nr. 245/1963, um tekjuskatt og eignarskatt. Heybirgðir kærenda í ársbyrjun 1979 teljast því ekki til eignar skv. 3. mgr. 53. gr. laga nr. 40/1978, um tekjuskatt og eignarskatt með síðari breytingum, við útreikning verðbreytingarfærslu samkvæmt þeirri lagagrein. Tekjufærsla skattstjóra á heybirgðum þann 31/12 1979 3 600 000 kr., sem byggð var á því að engar heybirgðir hafi verið taldar fram á framtali 1979 er felld niður.

Þegar virt er vinnuframlag kærenda utan búrekstrar þeirra og aðstæður þeirra að öðru leyti telst reiknað endurgjald hæfilega metið 300 000 kr. hjá hvoru. Að öðru leyti standi endurákvörðun skattstjóra óbreytt, m. a. sú breyting hans að fella niður við útreikning á verðbreytingarfærslu eignarliðinn sjóðseign 500 000 kr. og viðskiptakröfur 96 674 kr., enda liggja ekki fyrir í gögnum kæranda upplýsingar um eignir þessar. Yfirfæranlegt rekstrartap til næsta árs verður 1 026 682 kr.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja