Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 297/1981

Gjaldár 1981

Lög nr. 75/1981, 32. gr.  

Fyrnanleg eign — Fyrning — Viðskiptavild — Lögskýring — Lagaheimild

Kærandi gjaldfærði sem fyrningu 33,3% af viðskiptavild að fjárhæð 1 000 000 kr. eða 333 000 kr. Skattstjóri felldi fyrningu þessa niður á þeim forsendum, að svo væri litið á að viðskiptavild væri ekki fyrnanleg eign. Var vísað til úrskurðar ríkisskattanefndar um hliðstæð efni, þar sem fram kæmi að lagaheimild skorti til fyrningar á viðskiptavild. í 4. — 5. tl. 32. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, væru taldar upp ýmsir skyldir flokkar fyrnanlegra eigna, en ekki getið um viðskiptavild. Telja yrði líklegt að sérstaklega væri tilgreint undir þessum liðum ef litið hefði verið á viðskiptavild sem fyrnanlega eign af hálfu löggjafans.

Af hálfu kæranda hefur því verið haldið fram, að viðskiptavild falli undir ákvæði 4. og 5. tl. 32. gr. nefndra laga. Kostnaður vegna keyptrar viðskiptavildar tengist beint rekstri verslunar kæranda og falli þar af leiðandi undir annan rekstrarkostnað viðkomandi versluninni. Með kaupum á viðskipavild samtímis kaupum á verslun og innréttingum sé verið að greiða fyrir kostnað sem sé beint tengdur áframhaldandi rekstri verslunarinnar. Því er mótmælt, að úrskurðir upp kveðnir í tíð eldri laga skipti nú máli um ágreiningsefnið, þar sem með nýjum skattalögum hafi orðið stórfelldar breytingar.

Með bréfi dags. 31. mars 1982 er þess krafist af hálfu ríkisskattstjóra að úrskurður skattstjóra verði staðfestur, enda geti viðskiptavild ekki talist fyrnanleg eign í skilningi 32. gr. laga nr. 75/1981, þar sem ákvæði geti ekki um að svo sé.

Eigi var talin vera fyrir hendi lagaheimild til þess að fyrna viðskiptavild í þeim skattalögum sem áður giltu. Viðskiptavild er eigi talin meðal þeirra eigna sem greinir í 32. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, og af lögskýringargögnum verður ráðið, að eigi hafi verið stefnt að breytingu að því er þetta varðar frá því sem áður gilti. Með þessum athugasemdum þykir bera að staðfesta úrskurð skattstjóra.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja