Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 346/1982

Gjaldár 1980

Lög nr. 75/1981, 1. tl. 1. mgr. 31. gr., 2. tl. 32. gr., 3. mgr. 44. gr.  

Íbúðarhúsnæði — Fyrning — Lögskýring — Atvinnurekstur — Rekstrarkostnaður

Kærð er álagning opinberra gjalda gjaldárið 1980.

Skattstjóri gerði m. a. þá breytingu á framtali kæranda að leyfa ekki til frádráttar 8 757 000 kr. sem var fyrning á útleigðu húsnæði, Breyting þessi var kærð til niðurfellingar og m. a. bent á, að hluti af húsnæðinu væri nýtt sem iðnaðarhúsnæði og geymslur væru í bílskúrum. Skattstjóri synjaði kröfu kæranda og segir m. a. í úrskurði hans, að bílskúra til einkanota skuli farið með sem íbúðarhúsnæði, og fyrning þeirra því ekki heimil. Einnig segir í úrskurði skattstjóra, að ekki komi fram, hve margir bílskúrar séu leigðir út til iðnrekstrar né hverjir séu leigjendur þeirra eða hvaða iðnaður fari þar fram.

Kærandi hefur skotið þessu máli til ríkisskattanefndar með bréfi dags. 23. des. 1980, ásamt nánari greinargerð í bréfi dags. 23. jan. 1981. Eru þar ítrekaðar fyrri kröfur um að fyrning hins útleigða húsnæðis verði leyfð til frádráttar, þar eð hér sé um atvinnurekstur að ræða. Er vísað m. a. til 3. mgr. 44. gr. laga nr. 40/1978, og segir í kærunni að þessi málsgrein undirstriki vilja löggjafans að þessi tegund atvinnurekstrar, þ. e. íbúðarhúsnæði sem notað sé til öflunar tekna, njóti sömu kjara og aðrir gagnvart skattalögum.

Af hálfu ríkisskattstjóra eru með bréfi dags. 2. júní 1981 gerðar þær kröfur, að hinn kærði úrskurður verði staðfestur. Segir í rökstuðningi ríkisskattstjóra að í 1. málslið 32. gr. laga nr. 40/1978 og greinargerð með þeirri frumvarpsgrein sem síðar varð 32. gr. nefndra laga sé afdráttarlaust tekið fram, að fyrning sú, sem kærandi fer fram á að viðurkennd verði sem gjaldaliður, heimilist ekki.

Með bréfi ríkisskattanefndar, dags. 4. júní 1981, var kæranda sent ljósrit af kröfugerð ríkisskattstjóra og honum gefinn kostur á að tjá sig um hana.

Kærandi fór síðan fram á, að leyfður yrði munnlegur málflutningur í kærumáli þessu, en ríkisskattanefnd féllst eigi á þá málaleitan, en féllst hins vegar á, að fram færi sérstakur málflutningur og yrði hann skriflegur. Umboðsmaður kæranda lagði síðan fram sérstaka greinargerð með bréfi dags. 12. janúar 1982, og eru þar ítrekaðar fyrri kröfur um niðurfellingu hinnar kærðu breytingar.

Af hálfu ríkisskattstjóra eru með bréfi dags. 22. febrúar 1982 gerðar kröfur um staðfestingu á úrskurði skattstjóra með vísan til forsendna í fyrri kröfugerð frá 2. júní 1981. Þá gerir ríkisskattstjóri þær athugasemdir, að hugsanlegt sé að viðurkenna heimild til fyrningar á hluta bílskúra, sem kærandi leigi út. En með því að eigi verði séð, hvaða nánar tilgreindar eignir sé um að ræða og hver hugsanlegur fyrningargrunnur gæti verið, verði ekki séð að fallast megi á fyrningu þeirra að svo stöddu. Einnig segir í kröfugerð ríkisskattstjóra, að ákvæði 3. mgr. 44. gr. skattalaga geti eigi átt við í tilviki kæranda, en þar sé um að ræða undanþágureglur mjög sérstæðs eðlis.

Með vísan til 2. tl. 32. gr. laga nr. 75/1981 sbr. 1. tl. 1. málsgr. 31. gr. sömu laga þykir bera að staðfesta úrskurð skattstjóra.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja