Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 476/1982

Gjaldár 1981

Lög nr. 75/1981, 53. gr.  

Verðbreytingarfærsla — Stofn til verðbreytingarfærslu — Atvinnurekstur — Landbúnaður — Sjóðseign — Bankainnistæða — Sönnun

I

Kærð er sú breyting skattstjóra á skattframtali kæranda árið 1981 að strika út sjóðseign og bankainnistæðu að fjárhæð 5 000 000 kr. af efnahagsyfirliti landbúnaðarskýrslu. Byggði skattstjóri þessa ákvörðun sína á því að kærandi gerði ekki grein fyrir hvernig eign þessi hafi myndast eða hvernig hún tengdist atvinnurekstri hans, auk þess sem hún væri tortryggilega há með hliðsjón af umfangi rekstrarins. Kærandi krefst þess í kæru sinni til ríkisskattanefndar að eignaliður þessi verði tekinn til greina eins og hann komi fram á framtali 1981. Því til skýringar tekur hann fram að á framtali árið 1980 sé liður þessi 3 555 000 kr., svo að hækkun milli ára nemi aðeins 1 445 000 kr. Aðaltekjur séu af búrekstri og því ekki óeðlilegt að fjárhæð þessi sé færð undir þann lið, sem gert var. Með kærunni fylgir ljósrit af reikningsyfirliti frá útibúi B-banka á X til staðfestingar á því að fjárhæð þessi hafi verið fyrir hendi í árslok 1980.

II

Með bréfi dags. 14. apríl 1982 gerir ríkisskattstjóri svofelldar kröfur í málinu fyrir hönd gjaldkrefjenda:

„Að úrskurður skattstjóra verði staðfestur.

Téð innstæða kæranda á verðtryggðum sparifjárreikningi hefur á sér það yfirbragð að tengjast kæranda persónulega þar sem telja verður það óeðlilega rekstrarráðstöfun að binda veltufé vegna rekstursins inn á sparifjárreikningi.

Kærandi hefur eigi gert það sennilegt að téð innstæða tengist atvinnurekstri hans, t.d. með framlagningu sjóðbókar er sýni hreyfingar á bankareikningi.

Á landbúnaðarframtali er fylgdi skattframtali kæranda árið 1980 er færð sem bankainnstæða 3 555 000 gkr. og skv. kæru kæranda hefur sú fjárhæð hækkað í 5 000 000 gkr. í árslok 1980.

Ríkisskattstjóri fær eigi séð á hvern hátt framangreind innstæða tengist atvinnurekstri kæranda og er því gerð sú krafa að verðbreytingarfærsla kæranda skv. skattframtali árið 1981 verði leiðrétt þannig að fjárhæð 3 555 000 gkr. verði færð af verðbreytingarfærslublaði.

Fallist ríkisskattanefnd ekki á að breyta verðbreytingarfærslublaði í samræmi við framanritað er á það bent að kærandi færir ekki til tekna vexti vegna téðra innstæðna og sýnist því brostinn grundvöllur til að reikna verðbreytingarfærslu vegna innstæðnanna.“

III

Fyrir álagningu gjalda 1980 féllst skattstjóri á ósk kæranda, sem fram kom í bréfi dags. 14. júlí 1980, um lagfæringu á skattframtali hans árið 1980 vegna þess að innstæða í viðskiptareikningi Kaupfélags A pr. 31. desember 1979 hefði fyrir vankunnáttu verið færð á persónuframtalið en eigi að vera á efnahagsreikningi, þar sem innstæðan sé veltufé í sambandi við búrekstur hans. Færði skattstjóri innstæðu þessa undir eignaliðinn viðskipta-kröfur í efnahagsyfirliti í landbúnaðarskýrslu 1979. Sömu fjárhæð færði skattstjóri undir sama lið í efnahagsyfirliti í landbúnaðarskýrslu 1980 sem eign þann 31. desember 1979. Fjárhæð þessa tilfærir kærandi á verðbreytingarfærslublaði, sem fylgir skattframtali hans 1981. Kemur hún þannig fram við útreikning á færslu vegna verðbreytinga og hefur skattstjóri engar athugasemdir gert við það. Eigi liggur fyrir hvort kærandi hafi hlotið vaxtatekjur af innstæðu sinni á viðskiptareikningi sínum hjá kaupfélagi A á árinu 1980. Bankainnstæða sú, sem um getur í máli þessu og kærandi eignfærði í efnahagsreikningi þann 31. desember 1980, var lögð inn á verðtryggðan sparifjárreikning við B þann 30. desember 1980. Samkvæmt reikningsyfirliti B þann 31. desember 1980, sem er meðal gagna málsins, voru engir vextir greiddir kæranda af innstæðunni á árinu 1980.

Að því virtu sem rakið er hér að framan og þeirra upplýsinga sem fyrir liggja í máli þessu er fallist á kröfur kæranda, en kröfum ríkisskattstjóra synjað.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja