Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 629/1982

Gjaldár 1980

Lög nr. 75/1981, 6. gr., 3. tl. C-liðs 1. mgr. 30. gr., 2. mgr. 65. gr., 2. mgr. 67. gr.  

Sköttun barns — Námsfrádráttur — Kærufrestur — Frádráttarheimild — Skattaðili — Sjálfstæður skattaðili — Barn

Af hálfu kæranda, sem var innan 16 ára aldurs á tekjuárinu 1980 (f. 11.6.1965), voru taldar fram og skattlagðar sérstaklega tekjur samkvæmt 1. tl. A-liðs 7. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, sbr. niðurlagsákvæði 6. gr. og ákvæði 2. mgr. 65. gr. sömu laga. Við frumálagningu gjaldárið 1981 féll niður að skattleggja tekjur kæranda. Með bréfi dags. 8. október 1981 var móður kæranda tilkynnt um, að fyrirhugað væri að leggja á þessar tekjur kæranda, sem og var gert með bréfi til kæranda, dags. 8. desember 1981. Þessi endurákvörðun var kærð með kæru dags. 7. janúar 1982, sbr. greinargerð dags. 19. s. m. Var tekið fram, að kærandi hefði stundað nám við Fjölbrautaskóla X veturinn 1980—1981.

Var þess krafist, að kærandi fengi að fullu skólafrádrátt, þar sem kærandi hefði verið í frjálsu námi í framhaldsdeild og lokið grunnskólanámi ári á undan sínum jafnöldrum.

Með úrskurði dags. 3. mars 1982 vísaði skattstjóri kærunni frá, þar sem hún væri of seint fram komin. Kærufrestur vegna endurákvörðunar, dagsettrar og póstlagðrar þann 8. desember 1981, hefði runnið út þann 6. janúar 1982.

Úrskurði skattstjóra hefur af hálfu kæranda verið skotið til ríkisskattanefndar með kæru dags. 25. mars 1982, og þess krafist að álögð opinber gjöld verði felld niður eða lækkuð verulega. Tekið er fram, að haft hafi verið samband símleiðis við skattstofu þann 6. janúar 1982 og hafi þá verið bent á að leggja fram bráðabirgðakæru, sem gert hafi verið þann 7. s. m.

Af hálfu ríkisskattstjóra er þess krafist með bréfi dags. 11. ágúst 1982 að frávísunarúrskurður skattstjóra verði staðfestur.

Eigi þykja hafa verið efni til þess að vísa kærunni frá sem of seint fram kominni. Eftir atvikum þykir mega taka kæruna til efnisúrlausnar fyrir ríkisskattanefnd.

Í máli þessu er um það að ræða, að tekjur kæranda, sem var innan 16 ára aldurs á tekjuárin, voru skattlagðar sérstaklega, sbr. niðurlagsákvæði 6. gr., 2. mgr. 65. gr. og 2. mgr. 67. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Til frádráttar tekjum barns, sem skattlagðar eru með þessum hætti, eru heimilaðir þeir frádráttarliðir 30. gr. nefndra laga, sem getið er í 2. mgr. 65. gr. þeirra. Eigi er frádráttur samkvæmt 3. tl. C-liðs 1. mgr. 30. gr. þar á meðal (námsfrádráttur). Sá frádráttur er og bundinn við menn 16 ára og eldri. Samkvæmt því, sem hér hefur verið rakið, er eigi fyrir hendi lagaheimild til þess að verða við kröfu kæranda. Verður því að synja kröfunni.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja