Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 766/1982

Gjaldár 1981

Lög nr. 48/1933   Reglugerð nr. 215/1972   Reglugerð nr. 310/1980   Lög nr. 75/1981, 1. tl. C-liðs 1. mgr. 30. gr.  

Sjómannafrádráttur — Skipstjóri — Lögskráning — Hafnsögubátur — Lóðs — Leiðsaga skipa — Sjómaður — Lóðsbátur

Málavextir eru þeir, að kærandi, sem starfaði sem skipstjóri á lóðsbát Akraneshafnar, færði til frádráttar í skattframtali sínu sjómannafrádrátt samkvæmt 1. tl. C-liðs 1. mgr. 30. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Var fjárhæð frádráttarins miðuð við 365 daga árið 1980. Með bréfi dags. 20. nóvember 1981 boðaði skattstjóri kæranda, að frádráttur þessi yrði felldur niður, þar sem ekki yrði séð að hann ætti við rök að styðjast. Með bréfi dags. 30. nóvember 1981 mótmælti kærandi þessari ráðagerð skattstjóra. Var vitnað til þess, að samkvæmt lögum um lögskráningu sjómanna væri ekki skylt að skrá leiðsögumenn skipa, sem yrði að skilja svo, að erfiðleikar við framkvæmd slíks hefðu gert það að verkum að óhjákvæmilegt væri að undanþiggja þá lögskráningu. Þá væru hafnsögumenn, sem ráðnir væru af hlutaðeigandi hafnarstjórnum, með skýra lagalega stöðu til starfa sem sjómenn, sbr. lög nr. 48,19. júní 1933, um leiðsögu skipa, og reglugerð nr. 215/ 1972, um leiðsögu skipa. Yfirleitt væru þeir einir ráðnir hafnsögumenn sem hefðu tilskilin réttindi skipstjórnarmanna, þótt ekki væri það lögbundið. Þá lét kærandi fylgja bréfi sínu ljósrit af bréfi samgönguráðuneytisins, dags. 16. júní 1971, til hafnarstjórans í Reykjavík, þar sem fram komi skýr viðurkenning á störfum hafnsögumanna sem sjómanna. Skattstjórinn í Reykjavík hafi viðurkennt sjómannafrádrátt hafnsögumanna. Þá var vitnað til umfjöllunar Alþjóðasiglingamálastofnunarinnar á starfssviði hafnsögumanna. Með tilvísan til framangreindra raka krafðist kærandi þess, að tilfærður sjómannafrádráttur í skattframtali yrði látinn óhaggaður standa.

Með bréfi dags. 5. maí 1982 endurákvarðaði skattstjóri áður álögð opinber gjöld kæranda gjaldárið 1981 og felldi niður tilfærðan sjómannafrádrátt, enda yrði ekki séð, að vélgæslumaður hafnarinnar eins og starfsheitið væri á launamiða ætti rétt á sjómannafrádrætti. Þá mætti benda á að kærandi væri félagi í Starfsmannafélagi Akranesskaupstaðar, en innan vébanda þess væru engir sjómenn að sögn formanns þess.

Ákvörðun skattstjóra var kærð af hálfu kæranda með bréfi, dags. 7. maí 1982, og framkomin rök ítrekuð. Kærunni fylgdi vottorð Akraneskaupstaðar dags. 7. maí 1982 þess efnis, að kærandi hefði verið skipstjóri á lóðsbát Akraneshafnar allt árið 1980. Með úrskurði dags. 13. september 1982 hafnaði skattstjóri kröfu kæranda.

Úrskurði skattstjóra hefur af hálfu kæranda verið skotið til ríkisskattanefndar með kæru dags. 6. október 1982. Þess er krafist, að breytingu skattstjóra verði hrundið. Fram kemur að kærandi er skipstjóri að mennt og hafi starfað sem skipstjóri megnið af starfsferli sínum. Hins vegar hafi hann ekki próf eða réttindi sem vélstjóri eða vélgæslumaður, enda aldrei stundað slíkt. Ekki sé skráningarskylt á lóðsbátinn vegna smæðar hans. Þá bendir kærandi á, að trillusjómenn, sem óskráðir séu, njóti sjómannafrádráttar.

Af hálfu ríkisskattstjóra er þess krafist með bréfi dags. 5. nóvember 1982 að úrskurður skattstjóra verði staðfestur. Kærandi, sem hafi með höndum stjórn lóðsbáts, verði ekkí talinn stunda sjómannsstörf í venjulegum skilningi þess orðs og séu því ekki fyrir hendi skilyrði til þess að ákvarða honum sjómannafrádrátt samkvæmt 1. tl. C-liðs 1. mgr. 30. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt.

Kærandi í máli þessu fer með skipsstjórn lóðsbáts en er eigi leiðsögumaður skipa, svo sem álíta mætti af bréfi kæranda til skattstjóra dags. 30. nóvember 1981. Eftir gögnum málsins er að nokkru áskilnaður um skipsstjórnarréttindi við stjórn báta þessara. Lögskráning fer eigi fram og er getið um ástæður til þess í málsgögnum. Þegar þetta starf kæranda er virt og ákvæði 1. tl. C-liðs 1. mgr. 30. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, sbr. og reglugerð nr. 310/1980, um sjómannafrádrátt, þykir bera að fallast á, að kærandi hafi stundað sjómannsstörf, sem veiti honum rétt til frádráttar samkvæmt nefndu lagaákvæði. Er því fallist á kröfu kæranda.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja