Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 237/1992

Gjaldár 1991

Lög nr. 75/1981 — 31. gr. 1. tl. — 100. gr. 3. og 5. mgr.   Lög nr. 24/1986  

Félagsgjald — Félag sjálfstætt starfandi manna — Smábátaeigandi — Útgerð fiskiskipa — Trilluútgerð — Rekstrarkostnaður — Lífeyrissjóðsiðgjald — Frádráttarheimild — Lífeyrissjóður — Eigin atvinnurekstur — Kostnaður vegna atvinnurekandans sjálfs — Persónulegur kostnaður — Atvinnugreinafélag — Atvinnurekendafélag — Greiðslumiðlun sjávarútvegsins — Leiðrétting — Leiðrétting ríkisskattanefndar — Leiðrétting ríkisskattanefndar á álagningu — Kröfugerð kæranda — Kröfugerð ríkisskattstjóra

Málavextir eru þeir, að skattframtali kæranda árið 1991 fylgdi ársreikningur fyrir árið 1990 vegna útgerðar X. Gerði kærandi bát þennan út í helmingafélagi við A. Á rekstrarreikningi vegna útgerðar þessarar, er fylgdi skattframtali kæranda árið 1991 voru gjaldfærðar lífeyrissjóðsgreiðslur 54.625 kr. og félagsgjald 14.673 kr. Skattstjóri felldi þessa gjaldaliði báða niður, sbr. kæruúrskurð hans, dags. 21. október 1991. Ekki er ágreiningur um niðurfellingu fyrri gjaldaliðsins, er var eigin lífeyriskaup. Niðurfellingu félagsgjaldanna byggði skattstjóri á því, að ekki væri um frádráttarbæran rekstrarkostnað að ræða í skilningi 1. tl. 31. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, þar sem þau teldust ekki vera til öflunar tekna.

Af hálfu umboðsmanns kæranda hefur kæruúrskurði skattstjóra verið skotið til ríkisskattanefndar með kæru, dags. 31. október 1991. Í kærunni segir svo:

„Í úrskurði skattstjóra, þá er gjaldaliðurinn félagsgjald kr. 14.673,- strikaður út, en samkvæmt meðfylgjandi upplýsingum frá Landssambandi smábátaeigenda, þá hefur umbjóðandi minn greitt sem samsvarar 0,5% af aflaverðmæti sem félagsgjald til Landssambandsins, sem er hagsmunafélag og gætir hag rekstraraðila smábáta, gjaldaliður þessi er því bein rekstrarútgjöld rekstrareiningarinnar og ber því að fást til frádráttar tekjum.

Í úrskurði skattstjóra á framtali umbjóðanda míns, þá breytir skattstjóri gjaldfærðum lífeyrisgreiðslum á þann hátt að gjaldfærslan kr. 54.625,- er strikuð út, en við þá breytingu þá breytist aðstöðugjaldsstofn, sem að skattstjóri hefur ekki leiðrétt, að vísu lág upphæð, en er þó til lækkunar á álögðum gjöldum. Til vara kæri ég þá breytingu á aðstöðugjaldi fáist félagsgjaldaliðurinn ekki til frádráttar.“

Með bréfi, dags. 23. janúar 1992, hefur ríkisskattstjóri gert svofelldar kröfur í málinu f.h. gjaldkrefjenda:

„Í lögum nr. 24/1986, um skiptaverðmæti og greiðslumiðlun innan sjávarútvegsins eru ákvæði um skyldu til að greiða ákv. hlutfall af hráefnisverðmæti (aflaverðmæti) inn á sérstaka greiðslumiðlunarreikninga. Í 8. gr. eru reglur um skiptingu þeirra fjármuna sem safnast hafa á greiðslumiðlunarreikning smábáta. Þar kemur fram að 5% skuli greiðast til Landssambands smábátaeigenda. Greiðsla félagsgjaldsins er því skylda skv. lögunum. Með vísan til þessa er fallist á kröfu kæranda.“

Að virtum málsgögnum og með vísan til þess, sem fram kemur í kröfugerð ríkisskattstjóra, þykir bera að taka kröfu kæranda til greina um gjaldfærslu 14.673 kr. Þrátt fyrir kröfugerð kæranda þykir bera að leiðrétta aðstöðugjaldsstofn til lækkunar í það horf sem hann réttilega á að vera.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja