Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 838/1982

Gjaldár 1979

Lög nr. 75/1981, 100. gr., 112. gr., 99. gr.   Reglugerð nr. 257/1974, 2. gr.   Reglugerð nr. 245/1963, 25. gr.   Lög nr. 68/1971, 11. gr., 37. gr., 38. gr.  

Íbúðarhúsnæði — Viðhaldskostnaður — Frádráttarheimild — Frádráttarbærni — Viðhaldsfrádráttur — Andmælareglan — Sérstakur málflutningur — Dráttarvextir — Málskostnaður — Dómvextir — Valdsvið ríkisskattanefndar — Lögskýring — Sönnun — Hæstaréttardómur, ár 1931, bls. 217 — Frávísun — Lagaheimild — Innheimta opinberra gjalda — Kaupsamningur — Fasteignakaup

Kærandi skilaði staðfestu og undirrituðu skattframtali árið 1979 í framtalsfresti það ár. Var skattframtalið óbreytt lagt til grundvallar álagningu samkvæmt skattskrá það ár. í skattframtalinu var færður til frádráttar viðhaldskostnaður við íbúðarhúsnæði kæranda að X, Reykjavík, samtals að fjárhæð 1 510 260 kr. Með bréfi dags. 27. júlí 1979 fór skattstjóri þess á leit við kæranda, að hann legði fram reikninga yfir framtalinn viðhaldskostnað húseignarinnar og gerði grein fyrir því í hverju viðhaldið væri fólgið. Svarbréf kæranda er dagsett 23. október 1979. Fylgdu bréfinu reikningar vegna viðhaldsframkvæmdanna. Þá var gerð grein fyrir því í hverju viðhaldið hefði verið fólgið og fjallað um einstaka þætti þess. Einnig var vísað til greinargerðar um viðhaldsframkvæmdir á árinu 1977, er fylgdi skattframtali kæranda árið 1978. Næst gerist það í málinu, að skattstjóri tilkynnir kæranda, að tekjur á skattframtali árið 1979 hafi verið hækkaðar um 1 359 234 kr. vegna svofelldra breytinga: „viðhaldskostnaður hefur verið lækkaður um 1 359 234 kr. Með tilliti til þess að þér hafið aðeins átt húsið í rúmt ár, er aðeins hægt að líta svo á að lítill hluti þess kostnaðar sé viðhald heldur sem hluti af kaupverði samkvæmt ákvæðum 6. mgr. 25. gr. reglugerðar nr. 245/1963 svo og ákvæði 1. mgr. 25. gr. sömu reglugerðar.“ Ódagsett afrit þessarar tilkynningar liggur fyrir í málinu. Með skattbreytingaseðli dags. 27. desember 1979 tilkynnti skattstjóri kæranda um þá hækkun áður álagðra opinberra gjalda, sem af tekjuhækkun þessari leiddi.

Kærandi vildi ekki una fyrrgreindri breytingu skattstjóra á skattframtalinu og kærði hana til skattstjóra í framlengdum kærufresti. í kærunni, sem dagsett er þann 7. maí 1980, krafðist kærandi þess að tilfærður viðhaldskostnaður í skattframtali árið 1979, alls að fjárhæð 1 510 260 kr., yrði að fullu tekinn til greina. Taldi kærandi ákvæði 25. gr. reglugerðar nr. 245/1963, um tekjuskatt og eignarskatt, ekki geta leitt til breytingar skattstjóra. Bein ákvæði um lengd eignarhaldstíma væru ekki í skattalögum og öll vafaatriði um hann bæri að skýra kæranda í hag, þ. e. þröngri lögskýringu. Ákvæði 6. mgr. 25. gr. nefndrar reglugerðar tækju samkvæmt þröngri lögskýringu aðeins til þess árs, þegar eigendaskipti verða. Nefnd húseign hefði verið keypt á árinu 1977 og samkvæmt því hefði verið unnt á grundvelli ákvæðisins að lækka tilfærðan viðhaldskostnað á skattframtali 1978. Það hefði ekki verið gert þrátt fyrir, að ítarleg greinargerð hefði legið fyrir um viðhaldskostnaðinn það ár. Þegar af þeirri ástæðu væru engin haldbær rök til niðurskurðar frádráttarbærs viðhaldskostnaðar á framtali 1979, skattalega tveimur árum síðar. Viðhaldskostnaðurinn væri eðlilegur og venjulegur eins og á stóð og ítarleg grein gerð fyrir honum. Eignarhaldstíminn væri skattalega tvö ár og yrði því viðhaldskostnaður framtalinn 1979 ekki talinn hluti af kaupverði eignarinnar á grundvelli 6. mgr. 25. gr. nefndra reglugerðar. Þá studdi kærandi kröfu sína með vísun til ákvæðis í kaupsamningi, dags. 15. mars 1977, þar sem hann sem kaupandi sætti sig við það, að húseignin þarfnist verulegra lagfæringa. Hefði hann tekið á sig skv. þessu samningsákvæði brýn viðhaldsverkefni og undirgengist, að hann ætti ekki kröfu á seljanda vegna slæms ástands eignarinnar, en seljandi hefði ekki haft aðstöðu til þess að halda henni við árum saman. Yrði því ekkert af viðhaldskostnaði talið endurgoldið með söluverði hennar eða hluti í kaupverði. Þá gerði kærandi grein fyrir tilgreindum liðum viðhaldskostnaðarins.

Með úrskurði dags. 31. október 1980 hafnaði skattstjóri kröfu kæranda. Vísaði skattstjóri enn í 1. og 6. mgr. 25. gr. reglugerðar nr. 245/1963. Taldi skattstjóri upplýsingar kæranda og ákvæði kaupsamnings fremur staðfesta ófrádráttarbærni viðhaldskostnaðarins en hitt. Byggja yrði á því, að hinn umdeildi kostnaður hefði komið fram í verði húseignarinnar, annað væri andstætt öllum venjum í viðskiptum af þessu tagi. Kærandi ætti rétt á frádrætti samkvæmt 1. mgr. 25. gr. reglugerðar nr. 245/1963, og bæri skv. henni enginn frádráttur vegna þeirra viðhaldsframkvæmda, sem breytt hefðu ástandi eignarinnar frá því sem það var við kaup hennar. Á skattframtölum árin 1978 og 1979 hefði kærandi fengið sem viðhaldsfrádrátt alls 345 484 kr., er yrði að telja ríflegt miðað við u. þ. b. 17 mánaða eignarhaldstíma. Það, sem gengið hefði til framkvæmdanna umfram þessar fjárhæðir, teldist hluti kostnaðarverðs eignarinnar, sbr. 6. mgr. 25. gr. nefndrar reglugerðar.

Úrskurði skattstjóra hefur af hálfu kæranda verið skotið til ríkisskattanefndar með kæru dags. 30. nóvember 1980 og þess krafist, að tekjuhækkun skattstjóra verði með öllu felld niður og tilfærður viðhaldsfrádráttur í skattframtali látinn óbreyttur standa. Þá er krafist, að fjármálaráðherra f. h. ríkissjóðs verði úrskurðað að endurgreiða tekjuskatt að fjárhæð 596 021 kr., er stafar af hinni kærðu tekjuviðbót, með hæstu lögleyfðu dráttarvöxtum frá 1. mars 1980 til greiðsludags. Einnig krefst kærandi þess, að fjármálaráðherra f. h. ríkissjóðs verði úrskurðað að greiða fullan og óskertan málskostnað, m. a. skv. gjaldskrá Lögmannafélags Íslands, svo sem nánar er rakið skv. sundurliðuðum málskostnaðarreikningi, sem síðar yrði sendur. í kærunni krafðist kærandi þess, að hann fengi að flytja kærumálið munnlega eða skriflega fyrir ríkisskattanefnd með vísan til 6. mgr. 100. gr. laga um tekjuskatt og eignarskatt, eftir því hvort hann kysi og teldi þörf á, þegar þar að kæmi.

Með bréf dags. 11. maí 1981 krafðist ríkisskattstjóri þess, að úrskurður skattstjóra yrði staðfestur með vísan til þess, að telja yrði að þæf framkvæmdir, sem kærandi hafi ráðist í, hafi að langmestu leyti verið til þess að bæta úr rýrnun, sem fyrir hendi hafi verið þegar hann eignaðist húsið. Leiddi skammur eignarhaldstími og aðrar upplýsingar í gögnum málsins til þessarar niðurstöðu, sbr. og 1, mgr. 25. gr. reglugerðar nr. 245/1963, um tekjuskatt og eignarskatt. Kröfu kæranda um ákvörðun dráttarvaxta af ofteknu skattgjaldi krefst ríkisskattstjóri að verði vísað frá, þar sem ákvörðun um slíkt sé ekki í höndum ríkisskattanefndar. Þá telur ríkisskattstjóri, að lagaheimild skorti til ákvörðunar málflutningslauna og málskostnaðar.

Á fundi sínum þann 11. júní 1981 tók ríkisskattanefnd fyrir beiðni kæranda um að fá að flytja málið munnlega fyrir nefndinni. Var eigi fallist á þá kröfu kæranda. í tilefni af beiðni þessari var þá ákveðinn skriflegur málflutningur, sbr. 1. málsl. 6. mgr. 100. gr. laga nr. 40/ 1978, um tekjuskatt og eignarskatt, sbr. nú lög nr. 75/1981. Til þess að skila sókn sinni í málinu var kæranda veittur frestur til 13. júlí 1981. Að beiðni kæranda var frestur þessi tvívegis framlengdur. Þann 30. mars 1982 barst greinargerð kæranda ásamt fylgiskjölum, þ. á m. yfirlýsing seljanda fasteignarinnar við X, Reykjavík, þess efnis, að eigi hafi verið tekið tillit til þess í söluverði eignarinnar, að eignin þarfnast verulegs viðhalds. Staðfestir seljandi þann skilning, sem fram hefur komið af hálfu kaupanda á fyrrnefndu kaupsamningsákvæði.

Í greinargerð kæranda segir, að úrskurðarkröfur séu þær sömu og í kæru til ríkisskattanefndar, dags. 30. nóvember 1980, þó þannig að dráttarvaxtakröfu er breytt í samræmi við breytingar á opinberum vaxtaákvörðunum, málskostnaðarkrafa er lögð fram samkvæmt sérstökum reikningi og til vara er gerð krafa um dómvexti í stað dráttarvaxta. Um málsatvik er vísað til framlagðra gagna og um málsástæður einkum til skattkæru, dags. 7. maí 1980. Kærandi reifar fyrrnefnda yfirlýsingu seljanda sem hann kveður staðfesta málsástæður sínar varðandi umræddan þátt málsins. Forsendur og niðurstöður skattstjóra hafi verið rangar. Vísað er til meðferðar skattstjóra á sambærilegum lið í skattframtali árið 1978. Bent er á, að framkvæmdir hafi verið fólgnar í málun húss og endurnýjun gólfdúks. Þessar framkvæmdir hafi miðast við það að halda húseigninni í svipuðu ástandi og hún var í þegar kærendur eignuðust hana. Ekki standist því sú fullyrðing ríkisskattstjóra, að verið hafi um að að ræða að bæta úr rýrnun. Kærandi telur, að það sé á valdsviði ríkisskattanefndar að ákveða vexti af ofteknu skattgjaldi. Ríkisskattanefnd sé stjórnsýsludómstóll eða ígildi hans. Slík atriði megi bera undir dómstóla. Á sama hátt og á kæranda hafi fallið dráttarvextir vegna hinnar umdeildu skattbreytinga sé eðlilegt að gjaldendur eigi kröfu til vaxta af ofteknu skattgjaldi. Þá gerir kærandi grein fyrir málskostnaðarkröfu sinni, sem byggist á gjaldskrá Lögmannafélags Íslands. Kærandi færir fram ýmis rök fyrir nauðsyn þess að skattgreiðendur fái sér úrskurðaðan málskostnað vegna kærumála sinna fyrir ríkisskattanefnd. Réttaröryggi krefjist þess, að til greiðslu málskostnaðar geti komið. Ella megi búast við að skattaðilar skirrist við að leita réttar síns,

Sóknarskjal kæranda ásamt fylgiskjölum og öðrum málsgögnum var sent ríkisskattstjóra. Af hálfu ríkisskattstjóra hefur fram komið svohljóðandi kröfugerð, dags. 15. desember 1982:

„Ríkisskattstjóri ítrekar áður gerðar kröfur er fram voru settar í máli þessu með kröfugerð, dags. 11. maí 1981.

Við álagningu opinberra gjalda árið 1979 var heimild í gildandi skattalogum fyrir gjaldendur að draga frá skattskyldum tekjum sínum, áður en tekjuskattsstofn var ákvarðaður, nauðsynlegan viðhaldskostnað.

Í 25. gr. reglugerðar nr. 245/1963 er að finna skilgreiningu á því hvað teljist frádráttarbær viðhaldskostnaður.

Kærandi eignaðist fasteign sína að X á árinu 1977, sbr. framlagðan kaupsamning, dags. 15. mars 1977. Afhending fór fram á miðju því ári.

Samkvæmt skattframtali kæranda árið 1979 nam viðhaldskostnaður vegna téðrar húseignar samtals gkr. 1 510 260 á árinu 1978, er verður að telja óeðlilega háa fjárhæð sé litið til hins stutta eignarhaldstíma kæranda sem var eitt og hálft ár, í skattarétti gildir sú meginregla að þegar eign skiptir hendi verður það viðhald er taldist frádráttarbært hjá seljanda ekki frádráttarbært hjá kaupanda og með vísan til 6. mgr. 25. gr. áður nefndrar reglugerðar verður eigi fallist á að kæranda sé heimilt að telja til frádráttar viðhaldskostnað að fullu, þ, e. umfram það er meta má eðlilegan og venjulegan viðhaldskostnað, sbr. og 1. mgr. nefndrar greinar.

Í áminnstri greinargerð kæranda, dags. 23. október 1979, kemur fram að meginhluti hins umkrafða viðhalds er fólgið í málningu samtals gkr. 602 148 og viðgerðum á gólfum samtals gkr. 828 173. Þá er þess látið getið að vinna við lagningu gólfdúks hafi ekki farið fram fyrr en árin 1979 og 1980. Sýnist því einungis hafa verið um að ræða efniskaup en þau geta ekki talist til frádráttarbærs viðhaldskostnaðar, sbr. úrskurð ríkisskattanefndar nr. 460, 26. maí 1978.

Kærandi hefur nú lagt fram nýtt málsskjal er hefur að geyma yfirlýsingu fyrrverandi eiganda að nefndri húseign þar sem staðfest er að eignin hafi á söludegi þarfnast verulegrar lagfæringar. En við ákvörðun á söluverði hafi það ekki verið látið hafa áhrif.

Ríkisskattstjóri fellst ekki á að téð yfirlýsing geti breytt því á hvern hátt meta eigi frádráttarbæran viðhaldskostnað í skattalegum skilningi þar sem í áður nefndu reglugerðarákvæði eru skýr fyrirmæli um að við eigendaskipti skuli telja það viðhald sem umfram er venjulegt, hluta af kaupverði eða endurgoldið í söluverði.

Viðhald það er kærandi framkvæmdi á húseign sinni á árinu 1978 var umfram það að halda eigninni í svipuðu ástandi og hún var í er hann eignaðist hana og er því um að ræða kostnað vegna endurbóta sem í skattalegum skilningi er eigi frádráttarbær frá skattskyldum tekjum. Fyrirvari í kaupsamningi verður á engan hátt talinn breyta þeirri meginreglu skattaréttarins enda þykir bera að skýra téðan fyrirvara á þann hátt að seljandi sé að tryggja sig gagnvart endurkröfurétti kaupanda vegna nauðsynlegs viðhalds og endurbóta.

Rétt þykir að taka fram að meðferð skattstjóra á framtöldum viðhaldskostnaði gjaldárið 1978 verður ekki talin takmarka rétt hans við efnislega meðferð á framtali kæranda 1979.

Hvað varðar Önnur atriði í kæru kæranda vísast til fyrri kröfugerðar ríkisskattstjóra er fram hefur verið sett í málinu. Málið er lagt til úrskurðar.“

Álit og niðurstöður

  1. Frádráttarbœrni viðhaldskostnaðar

Með bréfi dags. 27. júlí 1979 krafði skattstjóri kæranda um reikninga og greinargerð um framtalinn viðhaldskostnað fasteignar á árinu 1978 svo sem fyrr greinir. Þessu svaraði kærandi með bréfi dags. 23. október 1979, gerði grein fyrri viðhaldsframkvæmdum og lét reikninga í té. Að svo búnu tilkynnti skattstjóri kæranda þann 27. desember 1979 um hækkun áður álagðra opinberra gjalda gjaldárið 1979 í tilefni af lækkun gjaldfærðs viðhaldsfrádráttar svo sem að framan er nánar lýst. Eigi verður það ráðið af framangreindu fyrirspurnarbréfi skattstjóra, að hann hafi þá þegar haft í hyggju að taka áður álögð opinber gjöld kæranda gjaldárið 1979 til nýrrar meðferðar. Átti kærandi þess því eigi kost að koma að athugasemdum sínum, bera fram ný gögn eftir atvikum og gæta hagsmuna sinna að öðru leyti, áður en skattframtali hans var breytt honum í óhag og tekjur hækkaðar. Þessi málsmeðferð skattstjóra fær því eigi samrýmst 38. gr., sbr. 37. gr., laga nr. 68/1971, um tekjuskatt og eignarskatt.

Viðhaldsfrádráttur, slíkur sem í þessu máli greinir, átti sér stoð í 2. gr. reglugerðar nr. 257 frá 1974, sbr. þau meginsjónarmið sem fram komu í 25. gr. reglugerðar nr. 245/ 1963, um tekjuskatt og eignarskatt. í 1. mgr. þeirrar greinar er frádráttarbær viðhaldskostnaður m. a. skýrður svo: „Viðhald telst það, sem gera þarf til þess að halda eignunum eða einstökum hlutum þeirra í svipuðu ástandi og þær voru í, þegar aðili eignaðist þær, hvort heldur þær voru þá gamlar eða nýjar.“ Þá segir svo í 6. mgr. 25. gr. nefndrar reglugerðar: „Ef eigendaskipti verða að húsi eða öðrum eignum má eigi leyfa til frádráttar hærri fjárhæðir til viðhalds en teljast mega eðlilegar og venjulegar, hvorki hjá seljanda né kaupanda. Það sem í slíkum tilfellum er umfram venjulegt viðhald, skal talið endurgoldið með söluverði eignarinnar ellegar hluti af kaupverði, þ. e. kostnaðarverði hennar.“ Kærandi hefur lagt fram gögn til stuðnings þeirri fullyrðingu, að eigi hafi verið tekið tillit til viðhaldsþarfar eignarinnar í kaupverði hennar. Verð eignarinnar hafi verið ákveðið svo sem eignin væri í venjulegu ásigkomulagi. Kærandi eignaðist umrædda eign þann 15. mars 1977, sbr. ljósrit kaupsamnings sem fyrir liggur í málinu. Af hans hálfu hefur verið gerð skilmerkileg grein fyrir hinum umþrættu viðhaldsframkvæmdum, sem að mestu eru fólgnar í málun húseignarinnar og lagfæringar á gólfi, aðallega gólfdúk. Telja verður þessa liði báða til venjulegra viðhaldsverka við íbúðarhúsnæði. Þá þykir fjárhæð viðhaldskostnaðar á árinu 1978 eigi vera úr hófi fram. Þegar litið er til alls þess, sem að framan greinir, og þ. á m. haft í huga, að kærandi þykir hafa fært á það sönnur, að ekki hafi verið tekið tillit til viðhaldsnauðsynja í kaupverði, en það þykir að nokkru styðja kröfu kæranda með hliðsjón af þeim sjónarmiðum sem ráða má af 6. mgr. 25. gr. nefndra reglugerðar, sbr. og dóm Hæstaréttar í dómasafni árið 1931, bls. 213, þá verður niðurstaðan sú að krafa kæranda um, að tilfærður viðhaldskostnaður í skattframtali árið 1979 verði látinn óhaggaður standa, er tekin til greina.

  1. Vaxtakröfur

Um vexti af ofgreiddu skattfé er fjallað í 112. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, í XIII. kafla þeirra laga um innheimtu og ábyrgð. Kærumeðferð sú, sem kveðið er á um í 99. og 100. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, tekur eigi til ágreiningsefna varðandi innheimtu álagðra, opinberra gjalda, þ. m. t. vextir. Er það því eigi á valdsviði ríkisskattanefndar að fjalla um þennan þátt kærunnar og er honum því vísað frá.

  1. Málskostnaður

Lagaheimild þykir skorta til þess að ákvarða kæranda málskostnað. Er þessum kærulið því synjað.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja