Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 54/1981

Gjaldár 1979

Lög nr. 68/1971, 11. gr., 48. gr.   Lög nr. 40/1978, 7. mgr. 100. gr.  

Viðhaldskostnaður — íbúðarhúsnæði — Ábyrgð á galla — Fasteign — Frádráttarbærni vinnulauna til skyldmennis — Skýrslutaka — Bókhaldsathugun — Vitnaframburður — Sönnunargögn — Sönnun — Galli — Gagnaöflun ríkisskattanefndar

Kærð er álagning opinberra gjalda gjaldárið 1979. Kæruatriði eru sem hér segir:

1. Kærð er sú breyting skattstjóra á skattframtali kæranda árið 1979 að lækka gjaldfærðan viðhaldskostnað við íbúðarhúsnæði að A, Reykjavík, um 318 000 kr. eða úr kr. 418 000 kr. í 100 000 kr. Á fylgiskjali með skattframtali sínu árið 1979 gerði kærandi grein fyrir því að tilfært viðhald væri vegna íbúðarhúsnæðis er hann hefði selt á árinu 1976. Gler í gluggum hefði þá þegar verið ónýtt en ekki haft áhrif á verð hússins þar sem framleiðandi, C, hefði verið í ábyrgð. Þegar í ljós hefði komið að framleiðandi gæti ekki staðið við ábyrgðina hefði það lent á kæranda að takast á hendur ábyrgð á galla þessum. Með skattframtali fylgdi kvittaður reikningur glersala, D, dags. 14. 9. 1978, að fjárhæð 418 000 kr. Með bréfi dags. 22. maí 1979 boðaði skattstjóri kæranda að fyrirhugað væri að fella niður tilgreindan frádrátt vegna kostnaðar við A þar sem hann teldist ekki frádráttarbær. Svarfrestur var gefinn til 1. júní 1979. Með því að hvorki barst svar kæranda við þessu né öðrum þeim atriðum er greind eru í bréfi skattstjóra frá 22. maí 1979, sbr. kærulið 2, tilkynnti skattstjóri kæranda með bréfi dags. 20. júlí 1979 að skattskyldar tekjur hefðu verið áætlaðar 2 250 000 kr. hærri en skv. innsendu skattframtali. Með kæru dags. 8. ágúst 1979 krafðist kærandi þess að allur tilfærður viðhaldskostnaður nefnds íbúðarhúsnæðis yrði að fullu tekinn til greina. í úrskurði sínum dags. 23. nóvember 1979 tekur skattstjóri fram, að á árinu 1972 hafi kærandi hafið byggingu íbúðarhúsnæðis að A og sett gler í glugga þess árið eftir. Hafi glerið verið keypt af C fyrir 112 383 kr. Fasteign þessa hafi kærandi látið í makaskiptum fyrir fasteign að T. Skv. skattframtali kæranda hafi skiptin farið fram á árinu 1977. Svo sem málavöxtum sé háttað varðandi kostnað kæranda við glerkaup í A sé ljóst að einungis að litlu leyti sé um frádráttarbæran kostnað að ræða. Taldi skattstjóri frádráttarbæran hluta kostnaðarins hæfilega metinn 100 000 kr.

Í kæru til ríkisskattanefndar, dags. 11. desember 1980, ítrekar kærandi fyrri kröfur um að tilfærður viðhaldskostnaður á skattframtali verði látinn óbreyttur standa.

2. Kærð er sú ákvörðun skattstjóra að fella brott af rekstrarreikningi kæranda fyrir árið 1978 gjaldfærð vinnulaun til G að fjárhæð 1 254 000 kr. Með bréfi dags. 22. maí 1979 óskaði skattstjóri eftir því við kæranda að hann gerði nákvæma grein fyrir þessari launagreiðslu, þar sem m. a. kæmi fram vinnutími og launakjör. Jafnframt var þess óskað að lögð yrðu fram gögn er sýndu á hverju einstakar greiðslur til nefnds launþega byggðust. Ekki svaraði kærandi bréfi þessu og greip skattstjóri þá til áætlunar þeirrar er greinir í 1. tl. hér að framan. í kæru, dags. 8. ágúst 1979, gerði kærandi þá grein fyrir launagreiðslu þessari, að um hefði verið að ræða „íhlaupavinnu á ýmsum tímum, greiðslur óreglulegar og ekki skv. launakvittunum er sýni nákvæmlega á hverju einstakar greiðslur byggðust.“ Launafjárhæðin, 1 254 000 kr., hefði verið það sem endanlega hefði verið samið um eftir árið 1978.

Í úrskurði skattstjóra dags. 23. 11.1979 er þess getið, að sakir þess að takmörkuð grein hefði verið gerð fyrir umræddri launagreiðslu í kæru hefði verið brugðið á það ráð að kveðja kæranda og launamóttakanda, G, til skýrslutöku fyrir skattstjóra. Er frá því greint að kærandi hafi mætt til skýrslutöku 6. 11. 1979 og G 13. 11. 1979. Þá er í úrskurðinum rakið, hvað komið hefði fram við skýrslutöku af kæranda og í vitnisburði G, svo sem hér segir:

„Við töku skýrslu af kæranda kom m. a. eftirfarandi fram:

a. Ekki var um að ræða ákveðinn vinnutíma hjá G, heldur unnið óreglubundið allt árið.

b. Eigi var samið um ákveðið kaup né kaupgreiðslur inntar af hendi reglulega, jafnvel ekki í hverjum mánuði.

c. Vinnustundir voru ekki skráðar og engin gögn sögð til grundvallar greiðslunum nema kvittanir.

d. G er sögð vinna við að sendast eftir málningu, slípun, ýmis handverk við málningu, taka til í bílskúr kæranda og aðstoða við heimilisstörf hjá honum. Aðspurður sagði kærandi launagreiðsluna ekki vera vegna heimilisstarfanna.

e. Kærandi kvaðst aðspurður hafa unnið fullan vinnudag allt árið 1978 og ekki tekið sér sumarfrí.

Í vitnisburði G kemur m. a. fram eftirfarandi:

a. Hún sagðist vinna við ýmsa snúninga, blanda málningu, sendast með málningu, taka til á starfsstöð og skrapa málningu. Aðspurð um hvort hún málaði fyrir kæranda kvað hún það mjög lítið en hefði komið fyrir. Aðspurð um hvort hluti launanna væri fyrir þau störf var svarið: „Ég hef aldrei litið á það þannig.“

b. Aðspurð um vinnustað kvað hún hann aðallega hafa verið að T og sendiferðir til þeirra staða þar sem verið var að mála. Aðspurð um hvort hún gæti nefnt þá staði var svarið: „Eini staðurinn sem ég man eftir er E eða ES í Breiðholti.“

c. Varðandi ákvörðun launagreiðslna svaraði hún: „Í lok ársins gerðum við upp. Ég held að talað hafi verið um að kaupið yrði um 100 000 kr. á mánuði, í upphafi.“ Aðspurð um hversu reglulega hún hafi fengið launin greidd var svarið: „Ég held að ég hafi fengið mánaðarlega um 100 000.“ Aðspurð um hvort hún hafi kvittað fyrir laununum í hvert sinn sem þau voru greidd var svarið: „Já“. Aðspurð um hvort við lokagreiðslu hafi verið ógreitt meira en síðasti mánuðurinn var svarið: „Já, það var ekki mikið en vantaði samt.“

d. Aðspurð um vinnutímann svaraði hún: „Hann var mjög óákveðinn, ekki unnið í öllum mánuðum vegna slyss sem ég varð fyrir. „ Nánar aðspurð um hvað hún teldi sig hafa unnið að meðaltali á dag kvaðst hún ekki geta svarað því. „Fór allt eftir því hve mikið lá fyrir í söngnáminu. Söngnámið var númer eitt.

Þá segir frá því í úrskurðinum, að sá er kvað hann upp og tilgreindur lögfræðingur við embætti skattstjóra Reykjanesumdæmis hafi þann 14. nóvember 1979 farið heim til kæranda til athugunar á því hvernig launagreiðslur væru færðar í sjóðbók og könnunar á fylgiskjölum þeim tilheyrandi. Greinir frá því, að kærandi hafi sagst hvorki færa sjóðbók né aðrar bókhaldsbækur, Kvittanir, fimm að tölu, hafi kærandi hinsvegar afhent ofangreindum mönnum vegna greiddra launa til G. Séu kvittanirnar frá 20. febrúar 1978 200 000 kr., 27. mars 1978 100 000 kr., 5. maí 1978 300 000 kr., 1. júlí 1978 100 000 kr. og 10. desember 1978 554 000 kr.

Í forsendum úrskurðar skattstjóra segir svo:

„Þegar litið er til útseldrar vinnu kæranda á árinu 1978, kr. 6 437 668, greiddra launa til M og fullrar vinnu kæranda við rekstur sinn allt árið 1978 án nokkurs sumarfrís, verður ekki \ séð, að þörf hafi verið fyrir meira vinnuafl en þeirra tveggja.

Þá er framburður G um vinnu sína mjög óviss og eigi samhljóða framburði kæranda. G telur að aðalvinnustaður hennar hafi verið heima hjá kæranda að T. Vart fær þá staðist að þar hafi verið nokkur verkefni að ráði viðkomandi atvinnurekstri hans. Kærandi telur að G hafi unnið ákveðin handverk á hinum ýmsu stöðum, þar sem hann var að mála, svo og að sendast til þeirra staða og frá. G man samt ekki eftir neinum þessara staða en taldi þó að einn þeirra hafi verið í Breiðholti. Þá stangast framburður G um það, hvenær laun hafi verið greidd verulega á við fyrirliggjandi launakvittanir, en aðspurð sagðist hún hafa kvittað fyrir launum í hvert sinn sem þau voru greidd. Þá kemur fram að G hafi orðið fyrir slysi og fær samkvæmt skattframtali greidda sjúkradagpeninga. í umsókn sinni um þá tekur hún fram að vinnuveitandi sé J og vinnustaður sé „heimili hans.“ Ennfremur tekur hún þar fram að mánaðarkaup hennar hafi verið 209 000 kr. í umsókninni staðfestir kærandi að þessar upplýsingar séu réttar. Þarna stangast tilgreint kaup á við það sem áður hefur komið fram. Þá er vinnustaður G sagður heimili kæranda. Það hefur einnig komið fram hjá kæranda og G að hún hafi unnið að heimilisstörfum hjá honum.

Með vísan til afar tortryggilegs framburðar um meinta vinnu G, vinnutíma, ákvörðun vinnulauna og greiðslumáta svo og þess, sem ráða má af þörf kæranda fyrir aðkeypt vinnuafl, er það niðurstaða úrskurðar þessa, að kæranda beri eigi til frádráttar hin umdeilda launagreiðsla. Niðurstaða þessi styðst og við það, að sú vinna, sem hugsanlega var um að ræða, hafi fremur tengst heimili kæranda en atvinnurekstri hans. Þó þykir ekki útilokað, að G hafi unnið lítils háttar í þágu atvinnustarfsemi kæranda og eru því heimilaðar til frádráttar 400 000 kr. af hinni umdeildu launagreiðslu. Þá er 15% viðurlögum beitt á hinn offærða launakostnað,“

Af hálfu ríkisskattstjóra eru í málinu gerðar svofelldar kröfur með bréfi dags. 24. nóvember 1980:

„Með vísan til ítarlegs rökstuðnings í hinum kærða úrskurði er gerð krafa um staðfestingu hinnar kærðu álagningar.“

Með bréfi dags. 7. janúar 1981 óskaði ríkisskattanefnd eftir því við ríkisskattstjóra, sbr. 7. mgr. 100. gr. laga nr. 40/1978, að aflað yrði endurrita úr gerðabók embættis skattstjóra Reykjanesumdæmis varðandi skýrslutöku af kæranda í máli þessu og G, svo og skýrslu starfsmanna nefnds skattstjóraembættis um athugun á bókhaldsgögnum kæranda er fór fram 14. 11. 1979. Þann 13. janúar 1981 barst ríkisskattanefnd bréf skattstjórans í Reykjanesumdæmi, dags. 9. janúar 1981, en því fylgdu endurrit af ofangreindum skýrslutökum. í bréfinu er tekið fram að ekki hafi verið samin skýrsla vegna ofannefndrar athugunar á bókhaldsgögnum kæranda. Þá greinir í bréfinu að gögnin séu send skv. beiðni ríkisskattanefndar í bréfi til ríkisskattstjóra dags. 7. janúar s. 1., sbr. símtal hans við embætti skattstjóra þ. 8. s. m.

Um 1. tl. Svo sem málavöxtum er lýst af hálfu kæranda er hinn umdeildi kostnaður þannig tilkominn, að kærandi réð bót á galla á fasteign þeirri er hann lét í makaskiptum fyrir aðra, með því að ábyrgð framleiðanda á hinum gallaða hluta fasteignarinnar er sögð hafa brugðist. Við eigendaskiptin var galli þessi ekki látinn valda lækkun á verði eignarinnar vegna nefndrar ábyrgðar. Svo sem atvikum er háttað þykir verða að lita svo á að um hafi verið að ræða lækkun söluverðs þeirrar fasteignar er kærandi lét af hendi. Með tilliti til þessa þykja eigi efni til að verða við kröfu kæranda.

Um 2. tl. Skattstjóri reisir niðurstöðu sína varðandi þetta kæruatriði einkum á framburði kæranda og G við skýrslutökur þær er fram fóru 6. og 13. nóvember 1979. Vísar skattstjóri til þess að framburðir þessir séu afar tortryggilegir vegna misræmis um mikilvæg atriði. Með tilliti til þess hvert gildi framburður nefndrar G hefur fengið við úrlausn skattstjóra í máli þessu og ennfremur umsókn um sjúkradagpeninga, dags. 16. janúar, verður að telja að skattstjóra hafi borið að veita kæranda færi á að tjá sig um gögn þessi, áður en hann kvað upp kæruúrskurð sinn. Af þessum ástæðum eru kröfur kæranda teknar til greina.

Það athugast, að eigi var rétt við skýrslutöku af G að vísa til 3. mgr. 48. gr. laga nr. 68/ 1971, þegar litið er til tilgangs skýrslutökunnar svo sem hann er tilgreindur í framlögðu endurriti úr gerðabók, en þar er skráð: „Mættu er tjáð að hún sé kvödd til skýrslutöku vegna skattframtals hennar 1979, þ. e. a. s. vegna framtalinna launa. Mætta er áminnt um sannsögli og henni kynnt ákvæði 3. mgr. 48. gr. laga nr. 68/1971 um tekjuskatt og eignarskatt.“ Þá athugast að eigi liggur fyrir fullnægjandi og staðfest frásögn um bókhaldsathugun þá er fór fram á heimili kæranda.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja