Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 60/1981

Gjaldár 1979

Lög nr. 112/1978, 4. gr.  

Sérstakur eignarskattur — Fasteignamat — Lyfjaverslun — Fasteignamatsskrá — Iðnaður — Lyfjagerð — Notkun húnæðis

Kærð er álagning sérstaks eignarskatts gjaldárið 1979 skv. lögum nr. 112/1978, um sérstakan skatt á skrifstofu- og verslunarhúsnæði.

Málavextir eru þeir, að með skattframtali sínu árið 1979 lét kærandi fylgja skrá yfir eignir vegna álagningar sérstaks skatts á skrifstofu- og verslunarhúsnæði skv. 5. gr. laga nr. 112/1978. Skv. skrá þessari tilgreindi kærandi eignarhluta sína í tveimur fasteignum, annars vegar að A, og hins vegar að B. Rúmmál fasteignar að A var sagt 1175m3 og hluti skrifstofu-og verslunarhúsnæðis í heildarrúmmáli 217m3, en notkun húsnæðis, önnur en fyrir skrifstofu- og verslunarrekstur, var sögð lyfjagerð og íbúð. Rúmmál fasteignar að B var talið 226m3 og hluti skrifstofu- og verslunarhúsnæðis í heildarrúmmáli tilgreindur 38nr\ Notkun önnur en fyrir skrifstofu- og verslunarrekstur var sögð íbúðarhúsnæði. Þá var getið fasteignamatsverðs. Stofn til hins sérstaka skatts var enginn talinn.

Með bréfi dags. 29. maí 1979, skoraði skattstjóri á kæranda að láta í té upplýsingar, m. a. um eftirfarandi:

„3. Miðað við skráningu Fasteignamats ríkisins fær ekkí staðist, að hlutdeild skrifstofu-og verslunarhúsnæðis í yðar eignarhluta B sé sú, sem tilgreind er á skrá yðar vegna sérstaks skatts á skrifstofu- og verslunarhúsnæði. Líta verður svo á, að fasteignamat þess eignarhluta yðar í A, sem nýttur er í þágu lyfjaverslunar — og þá jafnframt húsnæði fyrir vörulager og lyfjagerð — myndi skattstofn fyrir sérstakan skatt á skrifstofu — og verslunarhúsnæði.

Með vísan til framanritaðs eruð þér því beðinn að útfylla að nýju skrá vegna sérstaks skatts á skrifstofu- og verslunarhúsnæði og láta hana fylgja svari yðar.“

Með bréfi dags. 7. júní 1979 sendi kærandi nýja skrá um eignir til hins sérstaka skatts og tók fram að mistök hefðu orðið varðandi tilgreiningu eignarhluta hans í fasteigninni að B. Þá mótmælti kærandi því í bréfinu að húsnæði það að A er nýtt væri undir lyfjagerð og lyfjageymslu myndaði stofn til hins sérstaka skatts. Væri hér frekast um iðnað að ræða. í skránni var getið um eignarhlutdeild kæranda í nefndum fasteignum, 50% í A og 68,4% í B. Önnur notkun fasteignarinnar að B en fyrir íbúðarhúsnæði var sögð verkstæði (bólstrun). Rúmmál eignarhluta kæranda í B var talið 489m3 og rúmmál skattskylds hluta 81m3. Þá var fasteignamatsverð eignarhluta kæranda í B leiðrétt. Enginn stofn var talinn til hins sérstaka skatts fremur en áður.

Með bréfi dags. 20. júlí 1979 tilkynnti skattstjóri kæranda að stofn fyrir sérstakan skatt á skrifstofu- og verslunarhúsnæði hefði verið áætlaður 50 000 000 kr., þar sem ekki hefði verið gerð grein fyrir húsnæði að A og B.

Áætlun þessi var af hálfu kæranda kærð til skattstjóra með bréfi dags. 31. júlí 1979 og þess krafist aðallega, að álagning hins sérstaka skatts yrði felld niður en til vara lækkuð verulega. Var á það bent að af heildarmati fasteignarinnar að A væru 35,6% íbúðarhúsnæði, en að öðru leyti færi þar fram lyfjagerð og lyfjaverslun. Væri verslunaraðstaða apóteksins 217m3 af heildarrúmmáli, er væri 1175m\ eða 18,47%. Fasteignamatsverð þess eignarhluta kæranda, er lyfjareksturinn færi fram í, væri 27 196 917 kr. Af heildarhúsnæði að B næmi íbúðarhúsnæði 83,44%. Fasteignamat atvinnuhúnæðis næmi því 16,56%.

Með úrskurði dags. 30. október 1979 lækkaði skattstjóri stofn fyrir sérstakan skatt á skrifstofu- og verslunarhúsnæði í 27 196 000 kr. með hliðsjón af upplýsingum í kæru. Var hér um að ræða 65,4% af fasteignamatsverði eignarhluta kæranda í A, nýttum í þágu lyfjagerðar og lyfjaverslunar. Taldi skattstjóri í úrskurði sínum að kærandi hefði ekki gert fullnægjandi grein fyrir því, á hverju skipting hans á milli lyfjagerðar og lyfjaverslunar byggðist.

Kærandi hefur skotið úrskurði skattstjóra til ríkisskattanefndar með kæru, dags. 19. nóvember 1979, og krefst þess að sérstakur eignarskattur, 320 000 kr. álagður á 65,4% fasteignamatsverðs eignarhluta hans í A, verði felldur niður með svofelldum rökum:

„Hér með er sérstakur skattur þessa umbjóðanda míns af skrifstofu- og verslunarhúsnæði 320 000 kr. kærður til niðurfellingar. Samkvæmt meðfylgjandi teikningum af húsnæði umbjóðanda míns að A liggur ljóst fyrir, að nýting húsnæðisins fyrir skrifstofu og verslun er innan við 25% af heildarhúsnæðinu og getur því ekki verið grundvöllur álagningar skattsins. Leigutaki húsnæðisins KG apótekari hefur skráð inn á teikningarnar raunnýtingu húsnæðisins. Samkvæmt því kemur í ljós, að skrifstofu- og verslunarhúsnæði er sem hér segir:

Kjallari ..................

I. hæð, verslun .. 127m3
II. hæð, skrifstofur 90m3
½ bakhús................. 263m3

480m3

Heildarrúmmetramál húsnæðisins er 2 173m3 og er skrifstofu- og verslunarhúsnæðið því 22% þar af.

Helmingur bakhússins er talið til verslunarhúsnæðis hér að ofan, þar sem það er að nokkru geymsla á fullgerðum vörum, en þó aðallega geymsla á hráefni. Að mati undirritaðs fellur þetta húsnæði ekki undir verslunarhúsnæði, í skilningi laga um skrifstofu- og verslunarhúsnæði, þar sem þar eru einungis geymdar þær vörur sem ekki eru notaðar í daglegum rekstri enda fer þar ekki fram nein verslun eða afgreiðsla til viðskiptavina. Raunveruleg nýting húsnæðisins er því til geymslu á ýmsum vörum og hráefni. Hins vegar eru vörur til daglegrar sölu geymdar í verslun apóteksins.

Með tilliti til ofangreinds ítrekast því krafa okkar um niðurfellingu hins sérstaka skatts á skrifstofu- og verslunarhúsnæði.“

Af hálfu ríkisskattstjóra er þess krafist með bréfi dags. 7. nóvember 1980 að úrskurður skattstjóra verði staðfestur.

Skattstjóri sýnist að því er snertir B, Reykjavík, hafa byggt á upplýsingum kæranda um nýtingu fasteignarinnar í árslok 1978, er breyst hafði frá því sem greint er í fasteignamatsskrá, og fellt þann hluta eignarinnar, er nýttur var til verslunarrekstrar, undan skattlagningu á grundvelli 2. mgr. 4. gr. laga nr. 112/1978.

Samkvæmt fasteignamatsskrá er fasteigninni að A Reykjavík, í árslok 1978, skipt í tvo hluta til fasteignamats, annars vegar verslunar- og íbúðarhús að fasteignamatsverði 62 013 000 kr. og hins vegar vörugeymsla 21 158 000 kr. Eru nefndir hlutar fasteignarinnar því teknir til sjálfstæðs mats sem sérstakar eindir.

Eigi hefur íbúðarhúsnæði það, er sagt er vera í aðalhúsi, verið tekið til sjálfstæðs mats sem sérstök eind. Þá verður að virtri skráningu leigutaka fasteignarinnar að A, en gögn þar að lútandi fylgdu kæru, eigi séð að fasteignin hafi verið nýtt sem íbúðarhúsnæði í árslok 1978, heldur alfarið notuð í þágu lyfsölu og lyfjagerðar. Með tilliti til þessa þykir mega taka mið af hlutfalli rúmmáls skattskylds hluta aðalhúss af heildarrúmmáli þess, Með því að rúmmál skattskylds hluta eignarinnar skv. upplýsingum í kæru sem eigi eru efni til að vefengja, er ótvírætt undir þeim mörkum er greinir í 2. mgr. 4. gr. laga nr. 112/1978, eru kröfur kæranda teknar til greina að því er aðalhús snertir. Samkvæmt skiptingu leigutaka kæranda er helmingur bakhúss talinn notaður í þágu verslunarrekstrarins. Hús þetta er svo sem að framan greinir tekið til sjálfstæðs mats sem sérstök eind í fasteignamatsskrá og talið vörugeymsla. Fasteignamatsverð var í árslok 1978 21 158 000 kr. Með því að hús þetta ásamt tilheyrandi lóð liggur þannig fyrir í Fasteignamatsskrá sérmetin sem sjálfstæð eind þykir eigi koma til álita að haga álagningu hins sérstaka eignarskatts að því er það varðar, sem þætti í ákvörðun álagningar varðandi aðalhús, þ. e. a. s. fara með hina tvo sérmetnu hluta sem eina heild í þessu tilliti. Með því að helmingur bakhúss þessa er nýttur til verslunarrekstrar skv. mati notanda, en á skIptingu hans þykir rétt að byggja, koma ákvæði 2. mgr. 4. gr. laga nr. 112/1978, um undanþágu frá skattskyldu, eigi til álita hér. Stofn til hins sérstaka eignarskatts vegna eignarhluta kæranda í eign þessari verður því 5 289 500 kr. og hinn sérstaki eignarskattur því 74 000 kr.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja