Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 148/1981

Gjaldár 1979

Lög nr. 68/1971, 5. mgr. B-liðs 25. gr.  

Samsköttun — Lögskilnaður — Sambýlisfólk — Kröfugerð

Kærð er álagning opinberra gjalda gjaldárið 1979.

Málavextir eru þeir, að með bréfi dags. 12. febrúar 1979 óskaði kærandi eftir því við skattstjóra, að tekjur og eignir hans og sambýliskonu hans skyldu taldar saman til skatts þar sem skilnaður þeirra á milli hefði ekki komið til framkvæmda. Með bréfi dags. 20. júlí 1979 tilkynnti skattstjóri kæranda að ekki yrði fallist á fyrrnefnd tilmæli þar sem lögskilnaður hefði farið fram þann 28. ágúst 1978 skv. upplýsingum Hagstofu Íslands. Þá hefði frádráttur vegna vaxtagjalda sambýliskonu að fjárhæð 1 318 939 kr. verið færður á skattframtal hennar. Af hálfu kæranda var beiðni um samsköttun ítrekuð með bréfi til skattstjóra, dags. 28. júlí 1979. Með úrskurði dags. 17. september 1979 féllst skattstjóri á samsköttun eftir reglum um sambýlisfólk, sbr. 5. mgr. B-liðs 25. gr. skattalaga, en ekki sem hjón, með vísan til þess að lögskilnaður hafði farið fram.

Af hálfu kæranda er þess krafist að álagningu opinberra gjalda verði hagað í samræmi við framtal hans, þ. á m. tilfærðs vaxtafrádráttar í samræmi við samkomulag í framhaldi af skiptasamningi vegna skilnaðarins, þar sem kveðið sé á um greiðslu kæranda á vöxtum af öllum skuldum.

Af hálfu ríkisskattstjóra eru gerðar svofelldar kröfur:

„Svo virðist sem að vaxtagjöld þau er kærandi krefst að færð verði til frádráttar tekjum hafi að fullu verið leyfð af skattstjóra.

Virðist því sem kæran sé tilefnislaus að því leyti og þykir bera að krefjast frávísunar kærunnar sem slíkri frá ríkisskattanefnd.“

Á það er fallist með skattstjóra, að eigi sé heimild til skattlagningar kæranda og sambýliskonu hans sem hjón væru, sökum áður gengins lögskilnaðar þeirra í milli, enda fella síðar uppteknar samvistir ekki niður réttaráhrif slíks skilnaðar. Skattstjóri neytti heimildar 5. mgr. B-liðs 25. gr. laga nr. 68/1971, um tekjuskatt og eignarskatt, sbr. 9. gr. laga nr. 11/ 1975, til sameiningar skattgjaldstekna og skattgjaldseignar sambýlisfólk með þar nánar tilgreindum skilyrðum að óbreyttum framtölum. Á það ber að líta, að slík samsköttun veitir ekki rétt til 50% frádráttar frá tekjum konunnar.

Með tilliti til þess að beiðni kæranda og sambýliskonu hans sýnist ekki hafa lotið að samsköttun eftir sérreglum um sambýlisfólk, heldur sem um hjón væri að ræða, svo og með hliðsjón af því að ætla má að samsköttunarbeiðni sé sett fram í því augnamiði, að heildarskattálagning lækki, þykir eftir atvikum rétt að færa álagningu á kæranda í upphaflegt horf, þó að teknu tilliti til fram kominna gagna um greiðslu vaxtagjalda.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja