Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 240/1981

Gjaldár 1980

Lög nr. 40/1978, 3. mgr. 63. gr., 81. gr.  

Óvígð sambúð — Sambýlisfólk — Lögheimili — Sönnun — Skattlagning sambýlisfólks — Sönnunargögn — Sönnunarbyrði — íbúaskrá

Kærð er álagning opinberra gjalda gjaldárið 1980.

Málavextir eru þeir, að kærandi og sambýliskona hans töldu fram til skatts árið 1980 í framtalsfresti og höguðu framtalsgerð sinni eftir ákvæðum 63. gr. laga nr. 40/1978, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum, þ. e. eftir þeim reglum er um hjón gilda á grundvelli heimildar í 3. mgr. téðrar lagagreinar, sbr. og ákvæði 81. gr. laganna. Við álagningu árið 1980 byggði skattstjóri hins vegar á því að um einstaklinga væri að ræða. Hagaði hann álagningunni í samræmi við það og áætlaði jafnframt sambýliskonu kæranda gjaldstofna til álagningar opinberra gjalda.

Með kæru, dags. 25. ágúst 1980, kærðu kærandi og sambýliskona hans álagninguna til skattstjóra. Krafðist kærandi þess, að farið yrði með álagningu eftir þeim reglum, sem um hjón giltu, og yfirfærður yrði til hans persónuafsláttur sambýliskonu hans, er var ónotaður sökum tekjuleysis hennar, svo sem gerð var grein fyrir í kæru sambýliskonunnar. Gerði kærandi grein fyrir því, að um óslitna sambúð hefði verið að ræða í 10 ár að X-götu 20 C, Reykjavík. Honum hefði láðst að tilkynna um aðsetursskipti. Kæru sambýliskonu fylgdi skattframtal hennar, dags. 25. ágúst 1980.

Með úrskurði, dags. 24. október 1980, hafnaði skattstjóri þeirri kröfu kæranda að með skattlagningu yrði farið svo sem að ofan er greint. Getur skattstjóri þess, að skilyrði slíkrar skattlagningar séu að sambýlisfólk hafi átt sama lögheimili í tvö ár eða eigi saman barn, er ekki væri í tilfelli kæranda. Með úrskurði, dags. 16. október 1980, hafði skattstjóri tekið innsent skattframtal sambýliskonu kæranda til greina og fellt niður áður álögð opinber gjöld.

Af hálfu kæranda hefur úrskurði skattstjóra frá 24. október 1980 verið skotið til ríkisskattanefndar með kæru, dags. 20. nóvember 1980, og ítrekar fyrri kröfur með vísan til áður framkomins rökstuðnings. Þá er og vísað til sameiginlegrar beiðni kæranda og sambýliskonu hans, dags. 30. janúar 1979, um að þau verði framvegis skattlögð sem hjón og gerð grein fyrir 10 ára sambúð þeirra að X-götu 20 C.

Af hálfu ríkisskattstjóra eru í málinu gerðar svofelldar kröfur með bréfi, dags. 15. janúar 1981:

„Að úrskurður skattstjóra verði staðfestur þar sem eigi er að sjá að þau skilyrði fyrir samsköttun er fram koma í 81. gr. laga nr. 40/1978 séu uppfyllt.“

Samkvæmt 3. mgr. 63. gr. og 81. gr. laga nr. 40/1978, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum, eiga karl og kona, sem búa saman í óvígðri sambúð og eiga sameiginlegt lögheimili, rétt á því að telja fram og vera skattlögð sem hjón, sem samvistum eru, ef þau hafa átt barn saman eða konan er þunguð eða sambúðin hefur varað samfleytt í a. m. k. tvö ár, enda óski þau þess bæði skriflega við skattyfirvöld. Skilyrðum fyrir þessari meðferð skattlagningar sambýlisfólks er því eigi réttilega lýst í úrskurði skattstjóra. Engin efni eru til annars en að taka til greina staðhæfingar kæranda um sambúð og lengd sambúðartíma svo og búsetu að X-götu 20 C, Reykjavík, enda verður ekki séð að skýringar hans hér að lútandi hafi að neinu leyti verið vefengdar. Samkvæmt íbúaskrá Reykjavíkur eru kærandi og sambýliskona hans skráð til heimilis að X-götu 20 C, Reykjavík, þann 1. desember 1979. Samkvæmt því er að framan greinir, verður eigi annað séð en að kærandi og sambýliskona hans uppfylli þau skilyrði sem greinir í 3. mgr. 63. gr. og 81. gr. skattalaga og sett eru fyrir rétti sambýlisfólks til skattlagningar eftir þeim reglum sem um hjón gilda. Eru því kröfur kæranda teknar til greina.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja