Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 306/1981

Gjaldár 1980

Lög nr. 7/1980, 58. gr.   Lög nr. 40/1978, 63. gr., 81. gr., 1. mgr. 76. gr., 99. gr., 100. gr., 78. gr.,  

Hjón — Sköttun hjóna — Verðtryggð spariskírteini ríkissjóðs — Innheimta opinberra gjalda — Valdsvið ríkisskattanefndar — Kæruheimild — Frávísun — Framtalsskylda

Kærð er álagning opinberra gjalda gjaldárið 1980. Kæruatriði eru sem hér segir:

1. Kærandi skipti tekjum sínum til helminga í skattframtali árið 1980. Helming færði hann sem launatekjur sínar, en helmingur var færður sem launatekjur eiginkonu. Sami háttur var á hafður varðandi eignatekjur. í bréfi, er fylgdi skattframtali kæranda, dags. 6. mars 1980, kemur fram sú skoðun kæranda að ákvæði laga nr. 40/1978, um tekjuskatt og eignarskatt, um skattlagningu hjóna fái ekki staðist með hliðsjón af ákvæðum íslensks réttar um fjármálaskipulag hjóna samkvæmt lögum nr. 20/1923, um réttindi og skyldur hjóna. í þeim lögum sé gert ráð fyrir fullkomnu félagsbúi og helmingaskiptum. Samkvæmt meginreglu þeirra laga hafi tekjum og eignum verið skipt til helminga til skatts á skattframtali 1980. Skattstjóri féllst ekki á sjónarmið kæranda og taldi þau andstæð ákvæðum skattalaga um skattlagningu hjóna.

2. Kærandi krefst þess að eignarskattur eiginkonu verði reiknaður að nýju og til frádráttar komi helmingur álagðra opinberra gjalda 1980, þ. e. a. s. skuld félagsbús í árslok 1979 vegna óálagðra opinberra gjalda. Þessari kröfu hafði skattstjóri hafnað með sömu rökum og greinir í 1. tl. hér að framan.

3. Kærandi krefst þess, að uppfærsla andvirðis verðtryggðra spariskírteina ríkissjóðs 1972, 1. flokkur, verði færð út af skattframtali hans árið 1980, enda sé svo um samið milli eigenda slíkra bréfa og fjármálaráðherra samkvæmt skilmálum bréfanna, að þau skuli ekki vera framtalsskyld. Skattstjóri hefði hafnað þessari kröfu kæranda með þeim rökum að um umrædd bréf gilti sú regla samkvæmt 6. tl. skilmála þeirra, að þau væru framtalsskyld á sama hátt og sparifé. Samkvæmt því voru bréfin framtalsskyld. Við álagningu 1980 hefðu bréfin verið dregin frá eignum samkvæmt ákvæðum 78. gr. laga nr. 40/1978, um tekjuskatt og eignarskatt, og 58. gr. laga nr. 7/1980, um breyting á þeim lögum. Væri kæruatriðið því tilefnislaust.

4. Þá er þess krafist, að hætt verði innheimtu af launum kæranda hjá X hf. vegna eignarskatts eiginkonu. Skattstjóri vísaði til þess að því er þetta kæruefni snertir, að það heyrði undir innheimtuaðila samkvæmt 109. gr. laga nr. 40/1978, sbr. 49. gr. laga nr. II 1980.

Af hálfu ríkisskattstjóra eru í málinu gerðar svofelldar kröfur með bréfi dags. 26. janúar 1981:

„1. Þess er krafist að kærunni verði vísað frá ríkisskattanefnd að því leyti sem hún varðar innheimtu og fyrirkomulag hennar, sbr. 4. tl. í lokamgr. kærunnar, þar með slík atriði sæta ekki úrskurðun, sbr. 99. og 100. gr. laga nr. 40/1978.

2. Um önnur atriði er gerð sú krafa að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans.“

Um 1. tl. í kæru. Með vísan til 63. og 81. gr. laga nr. 40/1978, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum, þykir bera að staðfesta úrskurð skattstjóra.

Um 2. tl. Með vísan til 81. gr. og4. málsl. 1. mgr. 76. gr. laga nr. 40/1978, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum, er úrskurður skattstjóra staðfestur.

Um 3. tl. Úrskurður skattstjóra þykir bera að staðfesta með vísan til forsendna hans.

Um 4. tl. Með skírskotun til kröfugerðar ríkisskattstjóra er þessu kæruatriði vísað frá.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja