Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 313/1981

Gjaldár 1980

Lög nr. 68/1971, 1. og 2. mgr. 14. gr.   Reglugerð nr. 310/1980   Lög nr. 40/1978, 1. og 2. mgr. 1. tl. C-liðar 1. mgr. 30. gr.  

Sjómaður — Sjómannafrádráttur — Skip — Sjómannastörf — Lögskráning — Lögskýring — Lögskýringargögn — Sönnun — Sönnunargögn

Málavextir eru þeir, að kærandi færði til frádráttar í skattframtali sínu árið 1980 615 600 kr. sem sjómannafrádrátt samkvæmt heimild í 1. tl. C-liðar 1. mgr. 30. gr. laga nr. 40/1978, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum. Var fjárhæðin reiknuð 2 700 kr. á dag miðað við 228 daga, er var sá dagafjöldi, sem kærandi var lögskráður á X samkvæmt fyrirliggjandi upplýsingum útgerðar, H hf., Suðureyri. Með bréfi dags. 15. júlí 1980 til skattstjóra fór kærandi þess á leit að ofannefndur frádráttur yrði reiknaður miðað við 365 daga og tilfærður sjómannafrádráttur á skattframtali yrði hækkaður sem þessu næmi. Færði kærandi fram þau rök að hann hefði verið ráðinn í þágu útgerðarinnar allt árið 1979. Með bréfi dags. 20. ágúst 1980 lagði skattstjóri fyrir kæranda að leggja fram gögn til stuðnings kröfu sinni um sjómannafrádrátt umfram lögskráningartíma. Vísaði skattstjóri til 3. gr. reglugerðar nr. 310, 27. júní 1980, um sjómannafrádrátt. Með því að gögn bárust ekki synjaði skattstjóri kröfu kæranda með úrskurði dags. 15. október 1980.

Úrskurði skattstjóra hefur umboðsmaður kæranda skotið til ríkisskattanefndar með kæru dags. 2. nóvember 1980. Er þess krafist að sjómannafrádráttur kæranda verði miðaður við 365 daga þannig að heildarfjárhæð hans verði 985 500 kr. Vísað er til bréfs ríkisskattstjóra, dags. 11. janúar 1980, varðandi skráningu dagafjölda á launamiða, er sjómenn hafa verið ráðnir í þjónustu útgerðar, en í bréfinu komi fram að hér geti verið um lengra tímabil að ræða en lögskráningartíma. Þá er vísað til 3. gr. reglugerðar nr. 310/1980, um sjómannafrádrátt. Ennfremur er vitnað til framlagðs bréfs útgerðarinnar H hf., dags 20. september 1980, þar sem vottað er að kærandi hafi verið ráðinn hjá útgerðinni frá 20. maí 1977 og þeirri ráðningu hafi ekki verið slitið. Einnig er tekið fram í bréfinu að kærandi hafi árin 1978 og 1979 verið á launum allt árið og verið bundinn við skipið, auk lögskráningardaga, í slippferðum, stöðvunum sökum bilana, stöðvunum vegna aflatakmarkana, vegna aðstöðuleysis skips í höfn o. fl. Orlof hafi verið tekið á árinu 1979, 24 dagar.

Af hálfu ríkisskattstjóra eru í málinu gerðar svofelldar kröfur með bréfi dags. 29. desember 1980:

„Skv. 3. gr. reglugerðar nr. 310/1980 getur sjómaður, sem lögskráður var, farið fram á að fá sjómannafrádrátt til lengri tíma en þeirra daga sem hann var lögskráður. Skilyrði er að tiltekin gögn fylgi framtali, s. s. uppgjör útgerðar. Þar sem kærandi hefur ekki enn lagt fram nein þau gögn sem stutt gætu beiðni hans verður að krefjast staðfestingar á úrskurði skattstjóra,“

Með ákvæði 1. mgr. 1. tl. C-liðar 1. mgr. 30. gr. laga nr. 40/1978, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum, voru þær frádráttarheimildir sjómanna, er voru í 1. og 2, mgr. 14. gr. laga nr. 68/1971, um tekjuskatt og eignarskatt, sbr. 1. gr. laga nr. 60/1973, um breyting á þeim lögum, og miðuðust við þann vikufjölda er sjómenn voru háðir greiðslu slysatryggingariðgjalda hjá útgerð, sameinaðar í einn frádrátt, sjómannafrádrátt. Sjómanna-frádráttur ákveðst fyrir hvern dag sem lögskráður maður á íslensku skipi telst stunda sjómannsstörf. Gildir sama regla um hlutaráðna sjómenn og landmenn, þótt ekki séu þeir lögskráðir. I 2. mgr. 1. tl. C-liðar 1. mgr. 30. gr. nefndra laga er tekið fram, að fjármálaráðherra ákveði í reglugerð, hvernig dagafjöldi í þessu sambandi skuli ákveðinn. Um þetta efni var sett reglugerð nr. 310, 27. júní 1980, af hálfu fjármálaráðherra.

Samkvæmt nefndu lagaákvæði getur sjómaður notið sjómannafrádráttar í lengri tíma en þann sem hann er lögskráður á skip og er eigi um það deilt í máli þessu að svo sé. Snýst ágreiningurinn um, hvort kærandi hafi lagt fram fullnægjandi gögn fyrir þeirri kröfu sinni að honum verði reiknaður sjómannafrádráttur umfram lögskráningartíma, sem var 228 dagar, eða í tilviki kæranda allt árið 1979. Þegar litið er til vottorðs útgerðar, sem kærandi hefur lagt fram í málinu, og virt eru önnur gögn málsins svo og skýringar kæranda, þykir kærandi hafa sýnt nægilega fram á, að telja beri hann hafa stundað sjómannsstörf allt árið 1979 í skilningi ofannefnds lagaákvæðis. Er því fallist á kröfur kæranda.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja