Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 339/1981

Gjaldár 1979

Lög nr. 40/1978, 96. gr., 94. gr.   Lög nr. 68/1971, 7. gr.  

Einkanot — Bifreiðahlunnindi — Málsmeðferð áfátt — Andmælareglan — Hlutafélag

Málavextir eru þeir að með bréfi dags. 18. janúar 1980 tilkynnti skattstjóri Reykjanesumdæmis kæranda að fyrirhugað væri að taka skattframtali hans árið 1979 til endurálagningar. í bréfi skattstjóra segir m. a.: „Með tilvísun í 7. gr. laga um tekjuskatt og eignarskatt, svo og upplýsingar vinnuveitanda yðar, hafa einkaafnot yðar árið 1978 (skattframtal 1979) af bifreið í eigu í hf. verið metin til hlunninda, sem samsvarar 520 000 kr.“ Var kæranda gefinn 10 daga frestur til að gæta réttar síns. Með bréfi dags. 25. janúar 1980 var þessari breytingu skattstjóra mótmælt og í bréfi dags. 28. janúar 1980 óskaði umboðsmaður kæranda þess, að hann fengi vitneskju um, hvaða upplýsingar skattstjóri hefði undir höndum til þess að unnt væri að koma að athugasemdum, en umboðsmaður kæranda taldi að hér væri um mistök að ræða af hálfu skattstjóra. Þann 26. febrúar 1980 var skattframtal kæranda tekið til endurálagningar. Var þar fallist á að lækka hlunnindamat í 364 000 kr. Þessi ákvörðun var kærð til skattstjóra til niðurfellingar og ítrekað, að eigi hefði verið látið uppi af hálfu skattstjóra, hvaða upplýsingar hann hefði undir höndum og byggði mat sitt á. Með úrskurði dags. 22. apríl 1980 hafnaði skattstjóri kröfu kæranda. Í úrskurðinum segir m. a. að kærandi eigi 94% hlutafjár í í hf. Félag þetta reki litla heildverslun í Reykjavík. í eigu félagsins árið 1978 hefði verið Chevrolet Nova fólksbifr. árg. 1978 og hefði rekstrarkostnaður bifreiðar verið 1 174 997 kr. að meðtalinni fyrningu. Rekstrarkostnaður bifreiðarinnar gæfi tilefni til að ætla, að hún væri notuð til annars aksturs en í þágu félagsins og væri líklegt, að kærandi sem væri aðaleigandi félagsins hefði haft afnot af bifreiðinni til eigin nota.

Í kæru til ríkisskattanefndar er málsmeðferð skattstjóra mótmælt sem verulega gallaðri, þar eð ekki hafi legið fyrir á hverju skattstjóri byggði mat sitt, auk þess sem upplýsingar hans réttlæti tæpast slíka álagningu. Þess er krafist að breyting skattstjóra á álögðum gjöldum gjaldárið 1979 verði felld úr gildi.

Af hálfu ríkisskattstjóra er með bréfi dags. 2. apríl 1981 gerð svofelld krafa:

„Að úrskurður skattstjóra verði staðfestur þar sem mat hans á hlunnindum kæranda af afnotum af bifreið vinnuveitanda virðist hóflegt.“

Hvorki í bréfi skattstjóra, dags. 18. janúar 1980, né í tilkynningu hans, dags. 26. febrúar 1980, um endurákvörðun opinberra gjalda kæranda gjaldárið 1979 kemur fram, á hvaða forsendum skattstjóri byggði ákvörðun sína um skattskyld bifreiðahlunnindi kæranda og fjárhæð hennar. Er það fyrst í úrskurði skattstjóra, dags. 22. apríl 1980, að greint er frá forsendum skattstjóra, þ. á m. bréfi nefnds hlutafélags, dags. 23. maí 1979, til skattstjórans í Reykjavík, um notkun bifreiðar þeirrar er um ræðir í málinu. Skattstjóra bar að gera kæranda grein fyrir þeirri vitneskju er hann kann að hafa aflað sér um ætluð einkanot kæranda af bifreið í eigu félagsins, ef ákvörðun hans styðst við slíka vitneskju að einhverju leyti. Eigi verður annað séð en skattstjóri hafi á slíkri vitneskju byggt og hefur þá eigi gætt þess að gera kæranda grein fyrir henni og gefa honum færi á að tjá sig þar um þrátt fyrir ítrekaðar kröfur kæranda. Eigi var rétt hjá skattstjóra að skrá í bréfi sínu til kæranda frá 18. janúar 1980 væntanlega tekjuáætlun án þess að hafa áður leitað eftir upplýsingum og gögnum frá kæranda sjálfum. Þá verður eigi séð á hverju skattstjóri byggir mat sitt á fjölda ekinna kílómetra í eigin þágu, en mati þessu breytir skattstjóri við meðferð málsins og verður eigi heldur ráðið á hverju breytingin er byggð. Með vísan til alls framanritaðs þykir bera að fella hina kærðu tekjuhækkun úr gildi.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja