Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 463/1981

Gjaldár 1980

Lög nr. 40/1978, 95. gr., 99. gr.  

Leiðrétting skattstjóra — Ökutækjakostnaður — Kæra — Tilefnislaus kæra — Breytingarheimild skattstjóra — Fastur frádráttur

Kærð er álagning opinberra gjalda gjaldárið 1980.

Málavextir eru þeir, að kærandi skilaði undirrituðu og staðfestu skattframtali í viðbótarframtalsfresti árið 1980. Samkvæmt skattframtalinu var tekjuskattsstofn kæranda tilgreindur 18 013 309 kr. Stofninn var þannig fenginn: Frá tekjum kæranda samtals að fjárhæð 19 356 194 kr. frá X-spítala og A-skóla var dreginn fastur frádráttur samkvæmt 2. mgr. 30. gr. laga nr. 40/1978, um tekjuskatt og eignarskatt, 2 033 496 kr. Við bættust tekjur að fjárhæð 690 611 kr. færðar í reit 59 í skattframtalinu, þ. e. færðar sem eignatekjur og fluttar af lið T 17. Tekjufjárhæð þessi var mynduð þannig samkvæmt skattframtalinu: Vaxtatekjur 334 169 kr. og rekstrarhagnaður af lækningastofu 978 762 kr. færður í reit 77, eða alls 1 312 931 kr. Fyrir liggur rekstrarreikningur fyrir síðastnefndri starfsemi. Frá nefndum tekjufjárhæðum var síðan dreginn í reit 83 á skattframtalinu bifreiðakostnaður í þágu atvinnu, 622 320 kr. Komu þá út í T 17 690 611 kr. er færðist í reit 59. Nú sýnist það hafa gerst í meðförum skattstjóra á skattframtalinu fyrir álagningu, að fastur frádráttur, 2 033 496 kr., hefur verið leiðréttur miðað við 10% af tekjufjárhæðum þeim sem greindar eru hér að framan og nema 19 356 194 kr. Varð frádrátturinn samkvæmt þessu 1 935 619 kr. og lækkaði því um 97 877 kr. Þá hefur fjárhæð þeirri, sem færð var sem eignatekjur í reit 59, 690 611 kr. verið skipt þannig, að í þeim reit voru látnar standa skattskyldar vaxtatekjur 334 169 kr., en sem hreinar tekjur af atvinnurekstri eða sjálfstæðri starfsemi í reit 62 voru færðar 356 442 kr. Breyttist heildarfjárhæð því eigi sökum þessa. Síðastnefnd fjárhæðin voru hreinar tekjur samkvæmt rekstrarreikningi, 978 762 kr., að frádregnum bifreiðakostnaði að fjárhæð 622 320 kr., er færður hafði verið í reit 83. Við þetta hefði stofn til tekjuskatts átt að nema 18 111 186 kr. þ. e. hækkað um 97 877 kr., er næmi leiðréttingu fasts frádráttar, sbr. að framan. Þá hefur það gerst, að fjárhæð bifreiðakostnaðar, 622 320 kr. hefur aftur komið til frádráttar og varð því tekjuskattsstofn kæranda 17 488 876 kr. Þess er og rétt að geta, að tekjur kæranda frá spítala, 19 244 663 kr., sem tilgreindar eru sem verktakagreiðslur af hendi greiðanda, færði skattstjóri úr samtölu launagreiðslna í reit 21 í T1 í reit 24 í T1, þ. e. sem reiknuð laun við eigin atvinnurekstur.

Ekki vildi kærandi sætta sig við álagninguna og lagði umboðsmaður hans fram kæru, dags. 29. ágúst 1980, þar sem þess var krafist að álagningin yrði gerð í samræmi við innsent skattframtal. Með úrskurði dags. 28. nóvember 1980 ákvað skattstjóri tekjuskattsstofn 18 111 186 kr. og stofn til álagningar útsvars og sjúkratryggingagjalds 20 046 805 kr., þ. e. a. s. leiðrétti fyrri stofna með því að bæta við bifreiðakostnaði, 622 320 kr., er hafði verið tvíreiknaður. Þá gerði skattstjóri í úrskurðinum grein fyrir þeim leiðréttingum sem gerðar höfðu verið og að framan eru greindar.

Úrskurði skattstjóra hefur umboðsmaður kæranda skotið til ríkisskattanefndar með kæru dags. 23. desember 1980 og er meðferð skattstjóra og breytingum bæði af formlegum og efnislegum sökum mótmælt. Rangt sé, að bifreiðakostnaður hafi verið tvífærður til gjalda. Þá er talið „að svo ranglega sé farið með tölur bæði í forsendum úrskurðar skattstofunnar og í úrskurðarorði miðað við framtal og álagningu“ að bent er á þá leið að skattstjóri „athugi málið að nýju og fari þá rétt með.“

Af hálfu ríkisskattstjóra eru í málinu gerðar svofelldar kröfur með bréfi dags. 19. maí 1981;

„Að úrskurður skattstjóra verði staðfestur.

Í úrskurði skattstjóra er einungis verið að leiðrétta að bifreiðakostnaður hafi verið færður tvívegis til frádráttar. Álagning skattstjóra er þannig í samræmi við innsent framtal kæranda.“

Skattframtali kæranda var að ýmsu leyti ábótavant svo sem ljóst má vera af því sem að framan er rakið. Skattstjóri lagfærði þá annmarka skattframtalsins og varð sú breyting á tekjuskattsstofni við meðferð skattstjóra, að fastur frádráttur samkvæmt 2. mgr. 30, gr. laga nr. 40/1978 var lækkaður um 97 877 kr. Verður að telja, að leiðréttingu þessa hafi verið heimilt að gera með stoð í 2. ml. 1. mgr. 95. gr. laga nr. 40/1978, um tekjuskatt og eignarskatt. Auk þessarar breytingar til hækkunar stofns urðu þau mistök við álagningu, að skattstjóri tvítók bifreiðakostnað til frádráttar þannig að stofnar urðu 622 320 kr. lægri en vera bar. Þessi mistök leiðrétti skattstjóri í úrskurði sínum, og verður eigi annað séð en skýrlega komi fram í úrskurðinum að um tvíreikning hafi verið að ræða af hendi skattstjóra, og því eigi átt að geta orðið kæranda tilefni til þess misskilnings sem kemur fram í kæru. Svo sem tilefni kærunnar er vaxið þykir bera að vísa henni frá.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja