Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 252/1992

Gjaldár 1989

Lög nr. 75/1981 — 32. gr. — 38. gr. 4. tl. b. liður — 41. gr. — 95. gr. 1. mgr. 3. ml. — 96. gr. 1. og. 3. mgr. — 99. gr. 1. mgr. 1. ml. — 100. gr. 1. mgr. — 101. gr. 3. mgr.  

Gjaldfærsla kostnaðarverðs eigna- og eignasamstæðna á kaupári án tillits til endingartíma — Fyrning — Fyrning, almenn — Almenn fyrning — Fyrnanleg eign — Fyrnanlegt lausafé — Gjaldfærsla kostnaðarverðs einstakra eigna og eignasamstæðna á kaupári, hámarksfjárhæð — Eignasamstæða — Fyrningarhlutfall — Breytingarheimild skattstjóra — Fyrirspurnarskylda skattstjóra — Kæruheimild — Kæruúrskurður — Kæranleiki — Kæranleg skattákvörðun — Endurákvörðun — Endurákvörðun ríkisskattstjóra — Endurákvörðunarheimild ríkisskattstjóra — Sönnun — Skrifstofubúnaður

I.

Málavextir eru þeir, að í rekstrarreikningi sínum fyrir árið 1988 vegna læknisstarfa gjaldfærði kærandi búnað vegna læknastofu samtals 223.839 kr. Með bréfi, dags. 26. júlí 1989, tilkynnti skattstjóri kæranda, að gjaldaliður þessi hafði verið felldur niður og umrædd fjárhæð búnaðar færð á fyrningaskýrslu og fyrnd 15% almennri fyrningu 33.576 kr. Leiðrétti skattstjóri skattskil kæranda í samræmi við þessa breytingu. Ekki var breyting þessi kærð til skattstjóra af hálfu kæranda.

Næst gerðist það í málinu, að kærandi sneri sér til ríkisskattstjóra með bréfi mótteknu 9. október 1989. Fór kærandi fram á, að álögð opinber gjöld gjaldárið 1989 yrðu endurákvörðuð og lagt á framtalið óbreytt. Tók ríkisskattstjóri erindið til úrlausnar hinn 9. apríl 1990 og féllst á endurákvörðun opinberra gjalda kæranda gjaldárið 1989 á svofelldum forsendum:

„Fram kemur í bréfinu að rekstrarliðurinn: „búnaður v/læknastofu“ hafi verið gjaldfærður af gjaldanda í rekstursreikningi í samræmi við 41. gr. laga nr. 75/1981 um tekjuskatt og eignarskatt. Hafi verið um að ræða húsgögn og innréttingar sem ekki séu ein eining eða eignasamstæða. Í bréfinu er þessi liður svo sundurliðaður eins og eftirfarandi:

Teppi kr. 20.250, stóll kr. 23.488, hillur kr. 30.590, taska kr. 3.950, skúffustandur kr. 7.695, skrifborð, borð, skilrúm (laus), skjalaröðunarskápar, skjalaröð, pokar og pennabakkar kr. 167.866. Samtalan er kr. 223.839.

Greint er frá því í bréfinu að skattstjóri hafi ekki viljað fallast á að um rekstrargjöld væri að ræða og hafi því eignfært þessi kaup.

Athugun á framtalsgögnum vegna gjaldársins 1989 leiðir í ljós að skattstjóri hefur eignfært umrædda fjárhæð kr. 223.839, en síðan gjaldfært 15% fyrningu af henni eða kr. 33.576, sem tilkynnt var í úrskurði skattstjóra, dagsettum 26. júlí sl., og var gjaldanda gefinn kostur á að gera athugasemdir fyrir lok auglýsts kærufrests, en gjaldandi virðist hafa látið undir höfuð leggjast að nýta sér þær kæruleiðir sem lög leyfa, sbr. 99. gr. og 100. gr. framangreindra laga.

Eftir atvikum þykir þó mega fallast á að taka ákvörðun skattstjóra til endurskoðunar hvað varðar gjaldfærslu á teppi kr. 20.250, sbr. 3. mgr. 101. gr. laga nr. 75/1981 um tekjuskatt og eignarskatt, en ekki þykir hafa verið sýnt nægilega fram á að aðrir liðir samkvæmt sundurliðun í bréfi umboðsmanns gjaldanda geti ekki skoðast sem heild og síðast nefndi liðurinn í sundurliðuninni að upphæð kr. 137.866 er einn og sér hærri en leyfð gjaldfærsla á grundvelli ákvæða 41. gr. tilgreindra laga.

Eftirfarandi breytingar verða á álagningu opinberra gjalda gjaldárið 1989:

Á rekstursreikning færist til gjalda kr. 20.250 vegna teppis og fyrningar verða kr. 30.538 í stað kr. 33.576. Í reit 62 á skattframtali færist sem tekjur af rekstri kr. 473.409 í stað kr. 490.621. Eignfærð skrifstofuhúsgögn á efnahagsreikningi verða kr. 173.051 í stað kr. 190.263. Í reit 01 á skattframtali færist því sem hrein eign í atvinnurekstri kr. 97.819 í stað kr. 115.031.“

Í framhaldi af kæru kæranda, er barst 8. maí 1990, þar sem fyrri kröfur varðandi gjaldfærslu umræddra eigna voru ítrekaðar, kvað ríkisskattstjóri upp kæruúrskurð hinn 3. september 1990, þar sem hann synjaði kröfu kæranda og ákvað, að fyrri ákvörðun skyldi óhögguð standa.

II.

Af hálfu umboðsmanns kæranda hefur kæruúrskurði ríkisskattstjóra verið skotið til ríkisskattanefndar með kæru, dags. 27. september 1990. Í kærunni segir svo:

„Um er að ræða ágreining á meðferð skattstjórans á gjaldfærslu fjárfestinga, vegna starfsemi kæranda, X, árið 1988 (framtal 1989). Undirritaður telur að málið sé þannig vaxið að meðferð þess hefði átt að vera samkvæmt 96. gr., en ekki 95. gr. laga nr. 75/1981, eins og reyndin var. Að öðru leyti er vísað til bréfaskrifta undirritaðs til ríkisskattstjóra dags. 3. okt. 1989 og 6. maí 1990.

Ennfremur er meðferðis ljósrit af reikningi, sem er að hálfu v/X og myndar þá upphæð (kr. 137.866,-), sem kemur fram sem óskipt í fyrri bréfum. Ekki var gerð athugasemd hjá félaga X, sem gjaldfærði í heilu lagi helming meðf. reiknings í sínum rekstrarreikningi (eins og reyndar var gert hjá X). Ein af þeim eignum, sem er upptalin í bréfi undirritaðs, dags. 3. okt. 1989, er taska (kr. 3.950,-). Ekki fæst séð í fljótu bragði hvernig ríkisskattstjóri kemur henni í þessa eignasamstæðu, sem hann álítur svo.“

Reikningur sá, sem um getur í kærunni og fylgdi henni, er frá A hf., dags. 28. desember 1988, stílaður á Læknastöðina v/kæranda og Y og hefur kærandi gjaldfært helming keyptra eigna samkvæmt reikningi þessum, en reikningsfjárhæð er samtals 267.633 kr. auk helmings reikningsfjárhæðar alls 8.100 kr. v/aksturs og uppsetningar, en ljósrit þess reiknings fylgdi og kærunni. Hlutdeild kæranda er samkvæmt reikningum þessum 137.866 kr. eða sú fjárhæð gjaldfærðra eigna, er ríkisskattstjóri taldi ósundurgreinda.

III.

Með bréfi, dags. 29. apríl 1991, hefur ríkisskattstjóri gert svofelldar kröfur í málinu f.h. gjaldkrefjenda:

„Hinn kærði úrskurður ríkisskattstjóra lýtur að endurákvörðun á álögðum gjöldum 1989. Kærandi sinnti ekki um að nýta sér kæruleiðir þær sem honum eru veittar í 99. og 100. gr. laga nr. 75/1981 vegna ákvörðunar skattstjórans, dags. 26. júlí 1989. Skattstjórinn hefur því ekki kveðið upp úrskurð í þessu máli sem kæranlegur er til ríkisskattanefndar á grundvelli 100. gr. laga nr. 75/1981.

Í beiðni sinni um endurupptöku og í kærubréfi til ríkisskattstjóra, fékk kærandi möguleika til að koma fram sínum skýringum. Á það verður því ekki fallist að kærandi geti á síðari stigum málsins borið það fyrir sig að skattstjóri hafi átt að fara með málið eftir 96. gr. í stað 95. gr. laga nr. 75/1981.

Ekki verður annað séð af þeim reikningi sem kærandi hefur lagt fram, en að það sem þar er talið, myndi ákv. eignaheild, þ.e. skrifstofubúnaður sem rétt er að meðhöndla á þann hátt sem skattstjóri gerði og ríkisskattstjóri féllst á. Er því gerð krafa um að sá þáttur kæruefnisins verði staðfestur.

Hins vegar þykir mega fallast á það að taska að verðmæti kr. 3.950 geti talist til rekstrargjalda.“

IV.

Engin kæranleg ákvörðun liggur fyrir af hendi skattstjóra í máli þessu, enda neytti kærandi ekki kæruréttar síns út af þeirri breytingu, sem skattstjóri gerði hinn 26. júlí 1989, og kærandi er ósáttur við. Í tilefni af beiðni kæranda endurákvarðaði ríkisskattstjóri áður álögð opinber gjöld kæranda gjaldárið 1989 hinn 9. apríl 1990. Með kæruúrskurði, dags. 3. september 1990, ákvað ríkisskattstjóri, að endurákvörðunin skyldi óhögguð standa. Endurákvörðun sína framkvæmdi ríkisskattstjóri á grundvelli 3. mgr. 101. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Um kærurétt vegna breytinga ríkisskattstjóra fer eftir ákvæðum 99. og 100. gr. nefndra laga, sbr. niðurlagsákvæði 3. mgr. 101. gr. þeirra. Kemur því ekki til skoðunar í máli þessu, hversu málsmeðferð skattstjóra hefur verið háttað við framkvæmd fyrrnefndrar breytingar og málsástæðum kæranda, sem á slíku eru byggðar verður ekki sinnt. Samkvæmt 41. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, er heimilt að færa kostnaðarverð einstaka eigna eða eignasamstæðna að fullu til gjalda á því ári, þegar þeirra er aflað, þótt endingartími sé lengri en þrjú ár, enda sé kostnaðarverð einstakra eigna eða eignasamstæðna undir lögmæltri hámarksfjárhæð, er var 82.600 kr. gjaldárið 1989. Á grundvelli þessa heimildarákvæðis gjaldfærði kærandi búnað vegna læknastofu samtals 223.839 kr. Hefur kærandi gert nokkra grein fyrir einstökum liðum hinnar umdeildu gjaldfærslu. Hefur ríkisskattstjóri fallist á gjaldfærslu teppis 20.250 kr. í þessu sambandi en synjað kröfu kæranda að öðru leyti á þeim forsendum, að ekki hefði verið sýnt fram á það að aðrir liðir gætu ekki skoðast sem heild og ósundurgreindur hluti eða 137.866 kr. væri einn og sér hærri en hámark gjaldfærslu samkvæmt 41. gr. laga nr. 75/1981. Af hálfu kæranda hefur nú verið gerð sú grein fyrir síðastnefndum þætti umkrafinnar fjárhæðar til gjaldfærslu að lögð hafa verið fram ljósrit reikninga. Af þeim gögnum verður nokkuð ráðið um einstaka þætti þessa liðs og kaupverð þeirra. Sérstök grein hefur ekki verið gerð fyrir þessum þætti í kærunni. Hins vegar kom fram við meðferð málsins hjá ríkisskattstjóra, að um var að ræða skrifborð, borð, skilrúm (laus), skjalaröðunarskápa, skjalaraðir, poka og pennabakka. Þegar litið er til þess, sem upplýst er um eignakaup þau, sem í málinu greinir og jafnframt haft í huga varðandi hámarksfjárhæð skv. 41. gr. laga nr. 75/1981 að líta ber til heildarkaupverðs einstakra eigna en ekki hlutdeildar kæranda í því, þá þykir nægjanlega leitt í ljós, að kæranda sé heimil hin umkrafða gjaldfærsla að öllu leyti. Er krafa kæranda því tekin til greina.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja