Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 526/1981

Gjaldár 1980

Lög nr. 40/1978, 2. mgr. 70. gr., 2. mgr. 30. gr., C-liður 30. gr.   Lög nr. 7/1980   Lög nr. 20/1980  

Námsfrádráttur — Heimilisfesti — Dvalartími — Fastur frádráttur — Einhleypingur — Nám erlendis — Sönnun

Kærð er álagning opinberra gjalda 1980. í kæru sinni til ríkisskattanefndar gerir kærandi svofellda grein fyrir kröfum sínum:

„Ég kom til Íslands frá Svíþjóð seint á árinu 1979 og fékk vinnu hér heima og vann alls fyrir g. kr. 773 152. — nú er mér gert að greiða í skatta og útsvar g. kr. 136 403. — þessu vil ég ekki una og tel með öllu útilokað að slíkt ranglæti geti verið rétt eða löglegt af svo lítilli upphæð, sem hér um ræðir. Ég var í skóla í Svíþjóð og jafnframt vann ég fyrir mér samtímis og sá mér þannig farborða. Ferðakostnaðurinn hingað heim var mjög mikill og með naumindum, að ég gæti flutt heim án fjárhagsaðstoðar, en ég hefi ekkí tekið námslán eins og margir aðrir gera við sömu aðstæður.

Í þessu sambandi ber ég fram kröfu um, að ég fái fjárdrátt viðurkenndan vegna skólans. Þá ber ég fram kröfu um persónufrádrátt og tekinn verði til greina flutningskostnaður hingað heim.

Ég vil taka það fram, að ég greiddi jafnóðum skatta af launum mínum fyrir það, sem ég vann í Svíþjóð og hefi auk þess fengið eftirkröfu vegna skattauppgjörs frá Svíþjóð, sem enn er ógreidd.

Þessi skattheimta af mér hér heima nú er mér nærri óbærileg og hefi ég ekki komist af án lántöku, en slíkt getur ekki átt að vera svo.“

Ríkisskattstjóri krefst þess í bréfi dags. 12. júní 1981 að úrskurður skattstjóra verði staðfestur.

Við ákvörðun tekjuskattsstofns skv. 2. mgr. 70. gr. laga nr. 40/1978 um tekjuskatt og eignarskatt tók skattstjóri tillit til lágmarksfjárhæðar á föstum frádrætti, 550 000 kr. sem um getur í 2. mgr. 30. gr. sömu laga, sbr. 2. gr. laga nr. 20/1980 um breyting á þeim lögum. Eigi var við þá ákvörðun tekið tillit til námsfrádráttar skv. 3. tl. C-liðs 30. gr., sbr. E-og F-lið 14. gr. laga nr. 7/1980 og 1. gr. laga nr. 20/1980. Kærandi þykir eiga rétt á nefndum námsfrádrætti miðað við að nám hafi verið stundað erlendis í 5 mánuði á árinu 1979, svo sem faðir kæranda virðist hafa upplýst skattstjóra um í síma og skráð er í gögnum málsins.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja