Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 629/1981

Gjaldár 1980

Reglugerð nr. 245/1963, 2. mgr. 93. gr.   Lög nr. 29/1980, 4. gr., 5. gr., 7. gr.   Lög nr. 40/1978, 106. gr.  

Sérstakur eignarskattur — Afgjaldskvaðarverðmæti — Verslunarrekstur — Úrskurður Fasteignamats ríkisins — Álag — Leiðréttingarskylda skattstjóra — Kærufrestur

Kærð er álagning sérstaks skatts á verslunar- og skrifstofuhúsnæði árið 1980. Þá er þess krafist, að leiðrétt verði álagning opinberra gjalda árið 1979 sem leiðir af lækkun fasteignamatsverðs húseignar kæranda að X-braut 41 samkvæmt úrskurði Fasteignamats ríkisins, dags. 8. febrúar 1980.

Málavextir eru þeir, að kærandi skilaði staðfestu og undirrituðu skattframtali í framtalsfresti árið 1980. Ekki fylgdi skattframtalinu skrá sú sem um getur í 5. gr. laga nr. 29/ 1980, um sérstakan skatt á verslunar- og skrifstofuhúsnæði, yfir eignir þær er þau lög taka til. Við álagningu áætlaði skattstjóri stofn til hins sérstaka eignarskatts 41 720 000 kr. Skattstjóri bætti 25% álagi eða 10 430 000 kr. við stofninn samkvæmt heimild í 106. gr. laga nr. 40/1978, um tekjuskatt og eignarskatt, sbr. 7. gr. laga nr. 29/1980. Samkvæmt þessu var sérstakur skattur á skrifstofu- og verslunarhúsnæði kæranda við álagningu ákveðinn 730 000 kr.

Með bréfi dags. 4. september 1980 var álagningin kærð af hálfu kæranda. Kærunni fylgdi nefnd skrá samkvæmt 5. gr. laga nr. 29/1980, dags. 31. ágúst 1980. í skránni var tilgreind fasteignin X-braut 41. Tilfært var húsmat eignarinnar, 27 711 000 kr., er hafði verið lækkað í þá fjárhæð samkvæmt úrskurði Fasteignamats ríkisins, dags. 8. febrúar 1980, er fyrir liggur í málinu, til að gilda frá 1. desember 1979. Fyrir lækkun þessa var matsfjárhæð 32 468 000 kr. Kærandi færði afgjaldskvaðarverðmæti til frádráttar 559 800 kr. Þá dró kærandi frá verðmæti þann hluta húsnæðisins er hann taldi notað til annars en verslunarstarfsemi. Nam fjárhæð þess 16 894 080 kr. Í athugasemdum var tekið fram að nýtanlegt gólfpláss væri alls 180 m2 en undir verslun væru einungis 68 m2. Annar hluti hússins væri notaður fyrir kjötvinnslu, frysti, mjólkurkæli, kjötkæli, vörugeymslu, salerni og kaffistofu starfsfólks. Eftir þessu taldi kærandi 37,78% húsnæðisins vera nýtt til verslunarrekstrar. Þá færði kærandi til lækkunar 6 410 700 kr. á þeim forsendum að húsnæðið hafði staðið autt og ónotað tímabilið 1.1. 1979 — 15.8. 1979. Samkvæmt þessu færði kærandi sem stofn til hins sérstaka skatts 3 846 420 kr. Þá krafðist kærandi þess í kærunni að eignarskattur álagður 1979 yrði lækkaður sökum þeirrar lækkunar á fasteignamati húseignarinnar að X-braut 41 er ákveðin var í nefndum úrskurði Fasteignamats ríkisins. Þar var mat húseignarinnar þann 1.12.1978 lækkað úr 21 863 000 kr. í l9 316 000 kr. eða um 2 547 000kr., þ. e. gildandi mat 1.12. 1978— 1.12. 1979.

Skattstjóri féllst eigi á að leggja innsenda skrá kæranda til grundvallar álagningu hins sérstaka eignarskatts. í forsendum úrskurðar skattstjóra, dags. 5. desember 1980, er vísað til 4. gr. laga nr. 29/1980, þar sem mælt sé fyrir um, að við ákvörðun þess, hvaða eignir myndi stofn til sérstaks eignarskatts skuli miða við raunverulega notkun eignanna í árslok 1979. Skipti því ekki máli þótt notkunartími væri ekki allt árið. Þá tekur skattstjóri fram, að líta yrði svo á að þeir þættir rekstrarins, er kærandi hafði talið undanþegna, væru það tengdir verslunarstarfseminni að húsnæðið félli allt undir skattlagningu samkvæmt lögum nr. 29/ 1980. Einnig benti skattstjóri á að leigulóð væri vanframtalin til hins sérstaka eignarskatts. Skattstjóri ákvarðaði skattstofn þannig:

Fasteignamatsverð húss............. 27 711 000 kr.
Fasteignamatsverð leigulóðar 9 252 000 kr.
-afgjaldskvaðarverðmæti .. 559 800 kr.
Samtals 36 403 200 kr.

Þá bætti skattstjóri við stofninn 20% álagi vegna vanskila á framtali til hins sérstaka skatts eða 7 280 640 kr. Samkvæmt þessu var hinn sérstaki eignarskattur ákvarðaður 611 000 kr. Kröfu kæranda um leiðréttingu gjalda fyrra árs vísaði skattstjóri frá sem of seint fram kominni þar eð úrskurður Fasteignamats ríkisins væri dagsettur í febrúar 1980.

Úrskurði skattstjóra hefur kærandi skotið til ríkisskattanefndar með kæru dags. 30. desember 1980 og ítrekar fyrri kröfur. Kærandi krefst þess sérstaklega að 20% álag verði fellt niður, þótt svo fari að kröfur hans nái ekki fram að ganga varðandi stofn til hins sérstaka eignarskatts. Um leiðréttingu gjalda gjaldárið 1979 segir svo í kæru: „Þess er krafist að skattstjóra beri að leiðrétta skatt vegna verslunarhúsnæðis f. f. ári, eftir að Fasteignamat ríkisins hefur lækkað fasteignamat húss þess, sem er grundvöllur álagningarinnar og að skattstjóri geti ekki borið fyrir sig að kærandi þurfi að fara fram á leiðréttingu innan einhvers tilskilins frests.“

Af hálfu ríkisskattstjóra er þess krafist í málinu með bréfi dags. 21. apríl 1981 að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans.

Að því er varðar álagningu sérstaks skatts á verslunarhúsnæði kæranda samkvæmt logum nr. 29/1980 þykir bera að staðfesta úrskurð skattstjóra með vísan til forsendna hans að öðru leyti en því, að varakrafa kæranda um niðurfellingu 20% álags á skattstofn er tekin til greina.

Með því að eigi liggur fyrir kæranlegur úrskurður vegna álagðra opinberra gjalda gjaldárið 1979 verður eigi hjá því komist að vísa þeim þætti í kæru frá, sem að þeirri álagningu lýtur. A hitt er að líta, að eigi var rétt af skattstjóra að vísa frá kröfu kæranda um endurskoðun álagðra opinberra gjalda gjaldárið 1979, er studd var úrskurði Fasteignamats ríkisins dags. 8. febrúar 1980, m. a. um lækkun fasteignamatsverðs þann 1.12. 1978. Samrit þess úrskurðar var sent skattstjóra. Efni sínu samkvæmt bar úrskurður þessi með sér, að heimildir þær er skattstjóri fór eftir við álagningu voru eigi lengur réttar. Bar honum því að annast um leiðréttingu af sjálfsdáðum eða við kæru, þótt eigi kæmi fram fyrr en að liðnum kærufresti, sbr. 2. mgr. 93. gr. reglugerðar nr. 245/1963, um tekjuskatt og eignarskatt.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja