Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 260/1992

Gjaldár 1991

Lög nr. 75/1981 — 95. gr. 2. mgr. — 99. gr. 1 . mgr. 1. ml. — 100. gr. 5. mgr. — 106. gr. 1. mgr.   Lög nr. 90/1990 — 36. gr.  

Síðbúin framtalsskil — Áætlun — Áætlun skattstofna — Skattframtal í stað áætlunar — Álag — Álag vegna síðbúinna framtalsskila — Álagsútreikningur — Reglur ríkisskattstjóra um útreikning álags vegna síðbúinna framtalsskila m.t.t. innheimtu í staðgreiðslu — Staðgreiðsla opinberra gjalda — Aðstöðugjald — Aðstöðugjaldsstig — Aðstöðugjald, ákvörðun sveitarfélags um gjaldflokka — Flugvélarekstur — Kröfugerð ríkisskattstjóra

Málavextir eru þeir, að af hálfu kærenda var ekki talið fram til skatts innan tilskilins framtalsfrests árið 1991 og sættu kærendur því áætlun á skattstofnum við álagningu opinberra gjalda gjaldárið 1991.

Í framhaldi af kæru til skattstjóra, dags. 29. ágúst 1991 barst skattframtal kærenda árið 1991 með bréfi, dags. 17. september 1991. Með kæruúrskurði, dags. 25. nóvember 1991, lagði skattstjóri framtalið til grundvallar álagningu opinberra gjalda gjaldárið 1991. Skattstjóri beitti álagi vegna síðbúinna framtalsskila. Varðar kæruefni máls þessa álagsbeitinguna og aðstöðugjaldsstig. Í kæru til ríkisskattanefndar, dags. 18. desember 1991, segir svo:

„Samkvæmt bréfi frá skattstjóranum í Reykjavík dags. 25. nóv. 1991 var boðað að framtal umbjóðanda okkar skyldi lagt til grundvallar álagningu með 15% álagi sbr. 1. mgr. 106. gr. laga nr. 75/1981. Álag þetta var lagt að fullu á tekjuskatts- og útsvarsstofn en ekki einungis á þann hluta sem er umfram 95% af þeim stofni sem staðgreiðslu var skilað af, sbr. auglýsingu ríkisskattsstjóra dags. 30. maí 1991 og sagt var í bréfi skattstjóra að miðað hefði verið við, við útreikning á álagi. Okkur reiknast því til að álagið sé ofreiknað um kr. 192.989, og að stofninn eigi að vera kr. 2.024.603 með álagi.

Í sama bréfi var tilgreindur aðstöðugjaldsstofn með álagi.

Ennfremur fylgdi skattbreytingarseðill, en af honum má ráða að aðstöðugjaldsprósentan sem notuð er sé 1,3%. Samkvæmt auglýsingu frá skattstjóranum í Reykjavík, dags. 25. mars 1991, ber að reikna 0,33% aðstöðugjald af rekstri flugvéla. Aðstöðugjaldið á því að vera kr. 26.020.

Samkvæmt ofanrituðu förum við því fram á að tekjuskattur verði lækkaður um kr. 60.916 eða í kr. 406.286 og útsvar um kr. 12.931 eða í kr. 135.648 og að verðbætur á tekjuskatt og útsvar verði lækkaðar samsvarandi.

Ennfremur förum við fram á að aðstöðugjald verði lækkað um kr. 76.520 eða í kr. 26.020 og að kirkjugarðsgjald verði lækkað í kr. 390 og gjald til Útflutningsráðs verði lækkað í kr. 789.“

Með bréfi, dags. 6. mars 1992, hefur ríkisskattstjóri fallist á kröfu kærenda.

Með vísan til þess, sem fram kemur í kæru og kröfugerð ríkisskattstjóra er krafa kærenda í máli þessu tekin til greina.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja