Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 700/1981

Gjaldár 1980

Lög nr. 57/1973, 2. mgr. 4. gr.  

Atvinnuleysistryggingagjald — Gjaldskyldar vinnuvikur — Hlutafélag — Vinna hluthafa — Kjarasamningur — Byggingarstarfsemi

Kærð er álagning atvinnuleysistryggingagjalds gjaldárið 1980.

Málavextir eru þeir, að við frumálagningu opinberra gjalda á kæranda, sem er hlutafélag, gjaldárið 1980 var vikufjöldi til ákvörðunar atvinnuleysistryggingagjalds ákveðinn 63 og álagt atvinnuleysistryggingagjald 26 523 kr. eða 421 kr. á viku. Þessi álagning var kærð af hálfu kæranda með bréfi dags. 5. september 1980 og þar tekið fram, að fram taldar vinnuvikur væru aðeins 3. Önnur laun væru laun tveggja byggingarmeistara er ynnu við eigið fyrirtæki. Þeir væru ekki í stéttarfélagi og hefðu því enga möguleika á því að öðlast rétt til atvinnuleysisbóta. Ætti því vinna þeirra ekki að teljast gjaldskyld til atvinnuleysistryggingagjalds.

Með úrskurði dags. 14. janúar 1981 lækkaði skattstjóri áður álagt atvinnuleysistryggingagjald úr 26 523 kr. í 10 100 kr. í forsendum sínum tekur skattstjóri fram, að kærandi sé byggingarverktaki og starfsemin sé í smáum stíl. Á árinu 1979 hafi greidd laun vegna byggingarstarfsemi aðeins verið til tveggja manna, er báðir séu eigendur og stjórnarmenn. Vinnuframlag annars hafi verið 39 vikur en hins 22 vikur. Þá vísaði skattstjóri til úrskurðar síns, dags. 17. október 1979, varðandi sambærilegt ágreiningsefni gjaldárið 1979. Kæmi þar fram sú starfsvenja, að laun eins manns hjá hlutafélagi, er teljast mætti forstöðumaður, væru undanþegin álagningu atvinnuleysistryggingagjalds. í því tilfelli, sem nú væri fjallað um, þætti rétt að undanþiggja vinnuframlag þess hluthafans sem meiri vinnu hefði lagt fram við fyrirtækið, eða 39 vikur, álagningu gjaldsins.

Úrskurði skattstjóra hefur kærandi skotið til ríkisskattanefndar með kæru dags. 23. janúar 1981, og gerir þær kröfur, að atvinnuleysistryggingagjald, sem lagt var á 63 vikur upphaflega, verði fellt niður af 61 viku. Þessar vikur séu vinnuframlag tveggja byggingar-meistara og eigenda að kæranda. Annar sé í Meistarafélagi byggingarmanna á X, en hinn ófélagsbundinn. Með vísan til 2. mgr. 4. gr. laga um atvinnuleysistryggingar heldur kærandi því fram a) að vinna manna í meistarafélögum sé ekki gjaldskyld, b) að vinna manna við eigið fyrirtæki sé ekki gjaldskyld með því að þeir ákveði laun sín sjálfir og séu taldir atvinnurekendur og fái ekki inngöngu í verkalýðsfélög, c) að vinna manna, sem útilokaðir séu frá bótarétti, þ. e. a. s. fái ekki inngöngu í verkalýðsfélög, sé ekki gjaldskyld. Styðjist hið síðastnefnda við það, að vinna unglinga innan 16 ára sé ekki gjaldskyld sakir þess að þeir fái ekki inngöngu í verkalýðsfélög fyrr en við 16 ára aldur og njóti ekki bótaréttar fyrr.

Með bréfi dags. 12. júní 1981 er þess krafist af hálfu ríkisskattstjóra að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans.

Í máli þessu sýnist eigi ágreiningur um, að kærandi sé gjaldskyldur atvinnurekandi samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 57/1973, um atvinnuleysistryggingar, sbr. nú lög 64/1981 um sama efni, heldur um ákvörðun á fjölda gjaldskyldra vinnuvikna til álagningar atvinnuleysistryggingagjalds. Kærandi er hlutafélag og er aðkeypt vinna í þágu félagsins að mestu leyti innt af höndum af hluthöfum sem launþegum þess. Af framtalsgögnum verður eigi annað ráðið en laun séu tekin eftir kjarasamningi verkalýðsfélaga. Með tilvísan til þessa þykir ákvörðun skattstjóra á fjölda tryggingarskyldra vinnuvikna til álagningar atvinnuleysistryggingagjalds síst of há. Er krafa kæranda því eigi tekin til greina.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja