Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 717/1981

Gjaldár 1980

Reglugerð nr. 119/1965, 1. U. 10. gr.   Lög nr. 14/1965, 1. gr., 2. gr.,  

Launaskattur — Landbúnaður — Veiðitekjur — Undanþága frá launaskattsskyldu — Rekstur veiðihúss — Hlunnindatekjur

Kærð er álagning launaskatts gjaldárið 1980.

Kærandi greiddi laun vegna leiðsagnar og aksturs veiðimanna að fjárhæð 1 495 000 kr. svo og laun til starfsfólks í veiðihúsi að fjárhæð 1 600 000 kr. Kærandi rekur bú á jörð sinni, X í A-hreppi, og hefur að auki tekjur af veiðihlunnindum þeim er jörðinni fylgja. Nefnd laun voru meðal gjaldfærðs kostnaðar á móti veiðitekjum annars vegar og tekjum af rekstri veiðihúss hins vegar.

Í kæru til skattstjóra, dags, 7. janúar 1981, krafðist kærandi þess að niður yrði felldur launaskattur á ofangreindum launagreiðslum með þeim rökum að þessi laun væru nauðsynlegur þáttur í því að nytja hlunnindi bújarðarinnar og því undanþegin launaskatti skv. 1, og 2. gr. laga nr. 14/1965, um launaskatt. í 2. gr. laganna væri svo kveðið á um, að laun eða þóknanir fyrir störf við landbúnað, jafnt vinna bóndans sjálfs og þeirra sem hann greiðir laun, væri undanþegin launaskattsskyldu. Þá vísaði kærandi til 1. tl. 10. gr. reglugerðar nr. 119/1965 um launaskatt.

Með úrskurði dags. 20. mars 1981 hafnaði skattstjóri kröfu kæranda á þeim forsendum, að ekki væri unnt að líta svo á að um væri að ræða laun vegna vinnu við hlunnindanytjar bújarðar heldur vegna þjónustu við veiðimenn í því veiðihúsi sem kærandi ræki.

Úrskurði skattstjóra hefur kærandi skotið til ríkisskattanefndar með kæru dags. 27. mars 1981 og ítrekar fyrri kröfur. í kæru er svofelldur rökstuðningur:

„Gjaldandi nýtir veiðihlunnindi jarðarinnar með því að leigja veiðimönnum veiðileyfi og gerir hann það sjálfur. Hefur hann ýmsan kostnað við öflun þessara hlunnindatekna, m. a. þarf hann að hafa í vinnu leiðsögumenn sem aka veiðimönnum til og frá veiðistað, leiðbeina þeim til veiðisvæða og aðstoða þá á annan hátt. Eins þarf hann að reka veiðihús svo hægt sé að nýta hlunnindi jarðarinnar á þennan hátt, því þessum flestum langt að komnu mönnum þarf að veita húsaskjól og fæði. Greidd laun á árinu 1979 vegna þessarar starfsemi voru vegna leiðsögumanna 1 495 000 kr. og vegna starfsfólks í veiðihúsi 1 600 000 kr. Á þessi laun leggur skattstjóri launaskatt að upphæð 145 923 kr. skv. úrskurðum dags. 29/12 1980 og 20/3 1981.

Gerðar eru þær kröfur í þessu máli að álagður launaskattur verði felldur niður þar sem þau laun sem hann greiðir séu undanþegin launaskattsskyldu og er vísað til eftirfarandi til frekari rökstuðnings:

Í lögum um launaskatt nr. 14/1965 m/áorðnum breytingum er í 1. gr. tekjur af landbúnaði undanþegnar launaskattsskyldu. í 2. grein sömu laga segir: „Undanþegin skattskyldu eru laun eða þóknanir fyrir störf við landbúnað, jafnt vinna bóndans sjálfs og þeirra sem hann greiðir laun.“ í reglugerð um launaskatt nr. 119/1965 eru laun og þóknanir fyrir störf við landbúnað nánar tilgreind í 1. tölulið 10. gr. reglugerðarinnar. Er þar nefnd „vinna við að nytja hlunnindi jarðarinnar“ sem venjuleg sveitastörf og undanþegin launaskatti.“

Þegar litið er til þeirrar starfsemi kæranda sem um er deilt í máli þessu, svo sem henni er lýst í gögnum þess, verður eigi talið að undanþáguákvæði 3. mgr. 2. gr. laga nr. 14/1965. um launaskatt, sbr. og skýrgreiningu hinna undanþegnu starfa sem fram kemur í 1. tl. 10. gr. reglugerðar nr. 119/1965, um launaskatt, taki til greiddra launa kæranda vegna reksturs veiðihúss. Með skírskotun til 1. mgr. 1. gr. og 3. mgr. 2. gr. laga nr. 14/1965, um launaskatt, og nefnds töluliðar 10. gr. reglugerðar nr. 119/165 er krafa kæranda tekin til greina vegna greiddra launa á móti veiðitekjum.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja