Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 10/1980

Gjaldár 1979

Reglugerð nr. 245/1963, 36. gr.   Lög nr. 68/1971, 12. gr.  

Frádráttarbærni — Gjafir til menningar- og líknarmála — Félagsgjöld — Sönnunargögn

Kærð er sú breyting skattstjóra á skattframtali kæranda gjaldárið 1979 að fella brott úr frádráttarhlið framtals gjafir samtals að fjárhæð 29 000 kr., annars vegar gjöf til Söngskólans í Reykjavík að fjárhæð 25 000 kr. og hins vegar til Samtaka psoriasis- og exemsjúklinga að fjárhæð 4 000 kr. Ákvörðun sína reisti skattstjóri á því, að kvittanir hefðu ekki verið lagðar fram fyrir greiðslum þessum.

Með kæru til ríkisskattanefndar fylgdu nefndar kvittanir og þess krafist, að ofangreindir frádráttarliðir verði teknir til greina.

Af hálfu ríkisskattstjóra eru í málinu gerðar svofelldar kröfur:

„Fallist er á að kærandi fái frádrátt sem svarar til gjafar til Söngskólans í Reykjavík en að öðru leyti er krafist staðfestingar á úrskurði skattstjóra.“

Með vísan til ákvæða 36. gr. reglugerðar nr. 245/1963, um tekjuskatt og eignarskatt, sbr. D-lið 12. gr. laga nr. 68/1971, um tekjuskatt og eignarskatt, svo og bréfs ríkisskattstjóra, dags. 14.11.1978, er fallist á kröfu kæranda að því er snertir frádráttarbærni gjafar til Söngskólans í Reykjavík. Samtökum psoriasis- og exemsjúklinga hefur eigi verið veitt viðurkenning til móttöku gjafa með þeim áhrifum, að þær verði frádráttarbærar frá tekjum gefanda. Þá er á það að líta, að samkvæmt framlagðri kvittun sýnist hér um félagsgjald kæranda að ræða til nefndra samtaka. Með þessum athugasemdum er úrskurður skattstjóra staðfestur að niðurstöðu til að því er snertir þetta kæruatriði.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja