Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 444/1980

Gjaldár 1979

Lög nr. 68/1971, 37., 38., 40. og 41. gr.  

Málsmeðferð áfátt — Ófullnægjandi skattframtal — Endurupptaka ríkisskattanefndar — Kæruúrskurður — Kæruheimild

Kærð eru álögð opinber gjöld gjaldárið 1979. Þess er krafist, að ýmsar breytingar, sem skattstjóri hefur gert á skattframtali kæranda árið 1979, verði felldar úr gildi.

Kærandi taldi fram til skatts í framtalsfresti árið 1979 og skilaði undirrituðu og staðfestu skattframtali vegna álagningar opinberra gjalda það ár. Með bréfi skattstjóra, dags. 26. júlí 1979, var kæranda tilkynnt um nokkrar breytingar á skattframtalinu og var það þannig breytt lagt til grundvallar álagningu gjalda í skattskrá sem lögð var fram þann sama dag. Með bréfi skattstjóra, dags. 30. júlí 1979, var kærandi krafinn um gögn og skýringar varðandi nokkra liði skattframtalsins. Með bréfi, dags. 9. ágúst 1979, kærði kærandi álögð opinber gjöld gjaldárið 1979. í því bréfi tekur hann fram, að hann muni innan skamms senda greinargerð og umbeðin gögn. Með bréfi, dags. 16. ágúst 1979, til skattstjóra gerði kærandi grein fyrir kröfum sínum, gaf skýringar og lét í té gögn. Lætur kærandi þess getið að um sé að ræða „framhald bráðabirgðakæru frá 9. ágúst 1979 — svör við bréfum 26. júlí og 30. júlí 1979.“ Þann 10. október 1979 kvað skattstjóri upp kæruúrskurð í málinu og er þar vitnað til kæru kæranda frá 9. ágúst 1979. í úrskurði þessum segir, að kærunni sé synjað þar sem rökstuðningur sé ekki tilgreindur. Þann 16. nóvember 1979 kvað skattstjóri upp kæruúrskurð og er þar einnig vísað til kæru kæranda frá 9. ágúst 1979. Er í þeim úrskurði tekin til úrlausnar nefnd kæra og bréf kæranda frá 16. ágúst 1979.

Með órökstuddri kæru, dags. 30. október 1979, skaut kærandi kæruúrskurði skattstjóra frá 16. október 1979 til ríkisskattanefndar. Gat hann þess í þeirri kæru að greinargerð yrði send innan skamms. Kæran var send ríkisskattstjóra og barst ríkisskattanefnd kröfugerð hans í bréfi dags. 17. mars 1980. Gerði ríkisskattstjóri þar kröfu um það, að kæruúrskurður skattstjóra frá 16. nóvember 1979 yrði staðfestur.

Með úrskurði ríkisskattanefndar nr. 6 árið 1980, dags. 4. júní 1980, var kæru kæranda, dags. 30. október 1979, vísað frá vegna vanreifunar, þar eð hún „hefur hvorki að geyma glögga kröfugerð né hefur boðaður rökstuðningur borist.“

Þann 5. júní 1980 barst ríkisskattanefnd greinargerð, dags. 30. maí 1980, frá kæranda vegna kærunnar frá 30. október 1979. Var greinargerð þessi send ríkisskattstjóra og barst ríkisskattanefnd kröfugerð hans í bréfi dags. 9. júní 1980. Vísar ríkisskattstjóri þar til kæruúrskurðar skattstjóra frá 10. október 1979. Er kröfugerð hans svohljóðandi:

„Telja verður kæru þessa fela í sér ósk um upptöku ríkisskattanefndarinnar á úrskurði sínum nr. 6 frá 1980.

Eins og framtal það sem kærandi lagði fram, að því er virðist um mitt ár 1979, varðandi tekjur og eign 1978, ber með sér, vantaði töluvert á að það fullnægði skilyrðum skattalaga og reglugerðar að því er form og efni varðar. Með vísan til þessa hefði skattstjóra, að réttu lagi, borið að hafna framtalinu og áætla stofna til skattgjalds með viðurlögum. Þá leið fór skattstjóri ekki. í þess stað gerði hann nokkrar breytingar á framtalinu áður en lögð voru gjöld á kæranda í skattskrá og tilkynnti þær með bréfi í júlílok 1979. Jafnframt gerði skattstjóri kæranda fyrirspurn um nokkur tortryggileg og óljós atriði framtalsins eftir útkomu skattskrár.

Greinargerð umboðsmanns kæranda um breytingaatriðin er í raun hvorki fugl né fiskur. T. d. eru ekki lögð fram nein gögn til stuðnings henni, sbr. fyrirspurn skattstjóra, né verður af svörum ráðið að breytingar skattstjóra hafi verið óréttmætar.

Með vísan til þessa svo og allra gagna málsins, fyrri úrskurðar ríkisskattanefndar í málum kæranda og eðli máls er því gerð krafa um að skattar kæranda gjaldárið 1979 verði látnir standa óbreyttir.“

Með úrskurði ríkisskattanefndar nr. 6 frá árinu 1980 var kæru kæranda, dags. 30. október 1979, vísað frá, þar eð engin grein var gerð fyrir henni, hvorki kröfum né rökstuðningi. Kærandi bætti úr þeirri frávísunarástæðu með bréfi sínu, dags. 30. maí 1980, sem barst ríkisskattanefnd 5. júní 1980. Kæran er því tekin til úrlausnar að nýju.

Þegar skattstjóri kvað upp kæruúrskurð sinn, dags. 10. október 1979, hafði honum þegar borist kröfugerð frá kæranda vegna skattakærunnar frá 9. ágúst 1979. Úrskurðurinn var því byggður á rangri forsendu. Þegar svo skattstjóri kvað upp kæruúrskurð sinn, dags. 16. nóvember 1979, hafði hann þegar lokið við að úrskurða kæru kæranda frá 9. ágúst 1979. Eigi var þá reynt að afturkalla kæruúrskurðinn frá 10. október 1979 eins og rétt hefði verið að gera. Í kæruúrskurði skattstjóra frá 16. nóvember 1979 er að finna efnislega afstöðu til atriða í bréfi kæranda frá 16. ágúst 1979. Eru þar staðfestar þær breytingar, sem skattstjóri hafði tilkynnt kæranda í bréfi, dags. 26. júlí 1979, og jafnframt eru þar ákveðnar breytingar í framhaldi af fyrirspurnarbréfi skattstjóra frá 30. júlí 1979. Þessum kæruúrskurði skattstjóra var eigi sérstaklega skotið til ríkisskattanefndar. Eins og málsmeðferð skattstjóra í máli þessu hefur verið háttað þykir þrátt fyrir það mega taka kæruúrskurð hans frá 16. nóvember 1979 einnig til úrlausnar hér.

Breytingar þær sem skattstjóri framkvæmdi á skattframtali kæranda árið 1979 og meðferð hans á skattakæru kæranda stríða gegn ákvæðum 37. gr., 38. gr. og 40. gr. laga nr. 68/1971, um tekjuskatt og eignarskatt með síðari breytingum. Eru því allar breytingar skattstjóra á nefndu framtali og kæruúrskurði hans úr gildi felldar, þrátt fyrir að skattframtali og ársreikningi þeim er því fylgir sé að ýmsu leyti áfátt.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja