Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 467/1980

Gjaldár 1979

Lög nr. 68/1971, 11. gr.  

Rekstrarkostnaður — Meistaraábyrgð — Viðurlög — Leiðrétting skattframtals

Kærð er álagning opinberra gjalda gjaldárið 1979.

Kærandi taldi ekki fram til skatts gjaldárið 1979. Skattstjóri áætlaði honum því gjaldstofna til álagningar opinberra gjalda það ár. Í framhaldi af bráðabirgðakæru til ríkisskattanefndar sendi umboðsmaður kæranda skattframtal hans fyrir árið 1979 með kröfu um að það verði lagt til grundvallar álagningu í stað áætlunar skattstjóra.

Af hálfu ríkisskattstjóra eru í málinu gerðar svofelldar kröfur með bréfi, dags. 16. júní 1980:

„Að kærunni verði að sinni vísað frá í ríkisskattanefnd. Rökstuðningur:

1. Kærandi gjaldfærir kostnað við þátt í rekstri sínum er hann nefnir „Áætlaður kostn. meistaraábyrgð“. Nemur gjaldfærslan 7 150 000 kr. Sama fjárhæð er skuldfærð. Er hún ósundurliðuð. Ekki verður séð hvort eða hvernig þessi kostnaður tengist íbúðasölustarfsemi eða á hvern hátt hann er grundaður.

2. Kærandi kveðst skulda skuldheimtumönnum 7 789 515 kr. Sundurliðun þeirrar fjárhæðar skortir.

3. Samkvæmt framkomnum launamiða virðist Hitaveita Reykjavíkur greiða kæranda 500 000 kr. á árinu 1978. Þeirrar fjárhæðar virðist ekki sjá stað í ársreikningum kæranda.

4. Ekki verður séð að kærandi hafi enn skilað inn launamiðum í lögskipuðu formi vegna greiðslna til launþega og verktaka.

5. Dráttur framtalsskila bendir til bókhaldsóreiðu en engar skýringar honum aðlútandi er að finna í málsgögnum.“

Kæranda var með bréfi, dags. 30. júlí 1980, sent ljósrit af kröfugerð ríkisskattstjóra og gefinn 30 daga frestur til þess að tjá sig um þau atriði, er hann teldi ástæðu til.

Svar barst frá kæranda, dags. 29. ágúst 1980. í svarbréfi sínu gerir kærandi svofellda grein fyrir þeim atriðum, er getur um í kröfugerð ríkisskattstjóra:

„1. Nokkur undanfarin ár störfuðu X (kærandi) og Y saman við hitaveituframkvæmdir. Á þeim tíma fékk X, sem er byggingameistari, byggingarleyfi hjá Bæjarsjóði Hafnarf jarðar fyrir einu stigahúsi í fjölbýlishúsinu ...vangur, Hafnarfirði. Vegna samstarfs þeirra félaga féll bygging þessi inn í sameiginlegan rekstur þeirra. Á árinu 1978 kom upp ágreiningur milli þeirra, sem reyndist ósættanlegur og leiddi til samstarfsslita. Þegar til endanlegs uppgjörs á byggingakostnaði við ...vang kom og ljóst varð að þeir myndu ekki bera sameiginlega ábyrgð í framtíðinni á þeim göllum og öðrum kröfum sem hugsanlega gætu komið fram og hvíla á byggingameistara hússins, fór X fram á að sú áhætta yrði metin við uppgjör þeirra Y. Á fundi sem haldinn var í september 1979 á skrifstofu undirritaðs og mættir voru á auk deiluaðila, lögfræðingar þeirra, náðist samkomulag um að meta þennan ófyrirséða kostnað á 7 150 000 kr.

Þar sem skil á skattframtali 1979 hafði dregist úr hömlu af ofangreindum ástæðum og árið 1978 lokauppgjörsár ...vangs var sú leið valin að færa umræddan áætlaðan kostnað sem sérstakan lið í byggingarkostnaði hússins og færa jafnframt til skuldar, þar sem samkomulagið var gert seint á árinu 1979.

Hugmyndin var því sú að færa X téða upphæð til tekna til jöfnunar höfuðstólanna og jafnframt að tekjufæra 7 150 000 kr. hjá X á næstu 5 árum, eða þeim tíma sem mestar líkur væru á að gallar og annar kostnaður vegna ...vangs kæmu fram á. Þessi leið er síðan farin í skattframtali 1980, eins og meðfylgjandi ljósrit úr framtali X sýna, umrædd upphæð er endurmetin og 1/5 tekjufærður 1980.

2. Undirritaður er undrandi yfir því að ekki skuli vera viðskiptamannalisti í framtalinu, þar sem hann er í afriti, staðsettur fyrir aftan „Skipting tekjuafgangs“. Ef svo er ekki hafa orðið mistök við samsetningu framtals og er beðist velvirðingar á því. Hjálagt ljósrit af viðskiptamannalista.

3. 500 000 kr. greiðsla frá Hitaveitu Reykjavíkur tilheyrir ekki sameign X og Y heldur X og Y h.f., Reykjavík. Fór greiðslan fram 13/1 1978, og er bókuð skv. fylgiskjali 187 í bókhaldi hlutafélagsins. Fyrir greiðslunni kvittar Y. Mistök hafa því orðið í útgáfu launamiða hjá Hitaveitu Rvíkur.

4. Því miður hefur láðst að senda umrædda launamiða v. verktaka og fylgja hjálagt launamiðar að upphæð 4 596 582 kr.

Vinnulaun verkamanna 279 100 kr. voru viðskiptafærð frá X og Y h.f. og voru þau gefin upp hjá félaginu og dregin frá gjaldfærðum launum þess.

5. Dráttur á framtalsskilum stafar af ósætti milli þeirra félaga, eins og fram kemur hér að framan. Varðandi bókhald þeirra félaga þá lauk því að verulegu leyti á árinu 1977. Þegar þeir stofnuðu hlutafélagið X og Y h.f. 1978 er aðeins um að ræða fáar lokafærslur sem að verulegu leyti fóru í gegnum viðskiptareikning hlutafélagsins.“

Með vísan til framkominna skýringa kæranda þykir mega fallast á þá kröfu hans að innsent framtal verði lagt til grundvallar álagningu í stað áætlunar skattstjóra. Eftir atvikum þykir mega falla frá beitingu viðurlaga. Þá breytingu þykir bera að gera á framtalinu, að áætlaður, óáfallinn og ógreiddur kostnaður vegna meistaraábyrgðar 7 150 000 kr. er eigi leyfður til frádráttar tekjum með því að lagaheimild skortir til slíks frádráttar. Svo sem gögn málsins liggja fyrir, þ.m.t. lokauppgjör kæranda og sameiganda hans, þykir bera að færa kæranda umrædda fjárhæð til tekna og eignar. Þá er frádráttarliðurinn „Fasteignagjöld ...hólum 16 300 kr.“ felldur niður, enda kemur ekki fram í gögnum málsins að um arðberandi eign sé að ræða.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja