Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 515/1980

Gjaldár 1979

Lög nr. 68/1971, 37. gr.   Lög nr. 112/1978, 5. gr., 7. gr.  

Skattframtal — Vefenging skattframtals — Málsmeðferð áfátt

Kærð er álagning sérstaks skatts á skrifstofu- og verslunarhúsnæði gjaldárið 1979. Þess er krafist, að skattur þessi verði álagður í samræmi við óbreytta skrá vegna þessa skatts sem fylgdi skattframtali kæranda árið 1979.

Ríkisskattstjóri krefst þess í bréfi, dags. 9. september 1980, að úrskurður skattstjóra verði staðfestur.

Hinn kærði skattur er álagður samkvæmt lögum nr. 112/1978, um sérstakan skatt á skrifstofu- og verslunarhúsnæði. Kærandi gerði grein fyrir stofni til þessa skatts í sérstakri skrá og lét hana fylgja skattframtali sínu árið 1979, sbr. 1. mgr. 5. gr. nefndra laga. Við ákvörðun skattsins í skattskrá árið 1979 byggði skattstjóri þó ekki á þessari skrá heldur á skráningu Fasteignamats ríkisins án þess að hann vefengdi réttmæti skrár kæranda. Meðferð skattstjóra var því andstæð ákvæðum 37. gr. laga nr. 68/1971, um tekjuskatt og eignarskatt, sbr. 7. laga nr. 112/1978. Er því krafa kæranda þegar af þeirri ástæðu tekin til greina.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja