Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 640/1980

Gjaldár 1979

Reglugerð nr. 245/1963, 20. gr., sbr. reglugerð nr. 74/1969, 1. gr.   Lög nr. 68/1971, 10. gr. E-liður.  

Vinna við eigin íbúð — Frávísun — Sönnun — Vanreifun

Kærð er sú ákvörðun skattstjóra að færa kæranda, sem var pípulagningameistari, til tekna eigin aukavinnu 250 000 kr. við byggingu íbúðarhúsnæðis til eigin afnota. Vinnu þessa hafði kærandi tilgreint á húsbyggingarskýrslu fyrir árið 1978. Skattstjóri taldi, að skilyrðum 2. mgr. 10. tl. 20. gr. reglugerðar nr. 245/1963, um tekjuskatt og eignarskatt, sbr. 1. gr. reglugerðar nr. 74/1969, um breyting á þeirri reglugerð, fyrir skattfrelsi hefði ekki verið fullnægt, þar sem telja yrði, að kærandi hefði ekki skilað eðlilegum árstekjum af eiginlegu starfi sínu. Kærandi krefst þess að ákvörðun skattstjóra verði hrundið, enda hafi brúttó-tekjur hans verið eðlilegar og aukist eðlilega milli áranna 1977 og 1978. Hins vegar hafi tilkostnaður aukist meir og nettótekjur því verið rýrari en árið áður.

Af hálfu ríkisskattstjóra eru með bréfi, dags 24. október 1980, þær kröfur gerðar, að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans.

Eftir framtalsgögnum kæranda hafa brúttótekjur hans milli áranna 1977 og 1978 hækkað um sem næst 45%, en kostnaður í heild um rúmlega 100% og nam hækkun gjaldfærðra launa þeim hundraðshluta. Með vísan til þessa og að virtum gögnum málsins að öðru leyti þykir kærandi eigi hafa sýnt fram á, að undanþáguákvæði E-liðar 10. gr. laga nr. 68/1971, sbr. 1. gr. reglugerðar nr. 74/1969, um breyting á reglugerð nr. 245/1963, taki til þeirrar vinnu hans við eigið íbúðarhúsnæði, er í máli þessu greinir. Þykir eftir atvikum rétt að vísa þessu kæruatriði frá.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja