Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 650/1980

Gjaldár 1979

Lög nr. 68/1971, 11. gr., 37. gr.  

Landbúnaður — Rekstrarkostnaður — Skattskyldar tekjur — Málsmeðferð áfátt — Viðhaldskostnaður — Ferðakostnaður — Skattmat ríkisskattstjóra

Kærð er álagning opinberra gjalda gjaldárið 1979. Kæruatriði eru sem hér segir:

1. Skattstjóri lækkaði gjaldfærðan olíu- og bensínkostnað á búvélar samkvæmt landbúnaðarskýrslu um 208 200 kr. eða úr 588 200 kr. í 380 000 kr. með vísan til A-liðs 11. gr. laga nr. 68/1971, um tekjuskatt og eignarskatt, með því að líta yrði svo á, að hluti hins gjaldfærða eldsneytiskostnaðar væri tilkominn vegna einkanota til heimilis og á fólksbifreið kæranda.

Af hálfu kæranda eru þær skýringar gefnar á skiptingu eldsneytisnotkunar, að hann noti stóran súgþurrkunarmótor, er brenni dísilolíu og keyrður sé frá sláttarbyrjun fram á haust og noti þrjár dísildráttarvélar og eina bensíndráttarvél við búskapinn. Þá bendir kærandi á, að hann nytji tvær eyðijarðir og sé önnur þeirra í öðru sveitarfélagi. Valdi þetta mun meiri olíunotkun en ella. Kærandi tekur fram að fólksbifreið hans hafi aðeins verið á skrá í fimm mánuði á árinu 1978 og mjög lítið notuð þann tíma. Með framangreindum rökum krefst kærandi þess aðallega, að gjaldfærður olíu- og bensínkostnaður vegna búvéla samkvæmt landbúnaðarskýrslu verði látinn óbreyttur standa og til vara að kostnaðurinn verði ekki lækkaður um meira en 50 000 kr. vegna hækkunar á olíunotkun íbúðar.

2. Kærð er sú breyting skattstjóra að lækka gjaldfærðan viðhaldskostnað íbúðarhúsnæðis kæranda um 228 378 kr. eða úr 452 131 kr. 223 753 kr.

Leit skattstjóri svo á að lokinni athugun á framlögðum reikningum vegna kostnaðar þessa, að verulegur hluti hins gjaldfærða kostnaðar væri tilkominn vegna endurbóta á húsinu, s.s. endurnýjun hreinlætistækja og útihurða. Af hálfu kæranda er þess krafist,

að allur gjaldfærður viðhaldskostnaður íbúðarhúsnæðis verði að fullu tekinn til greina, enda hafi verið lagðar fram allar nótur vegna hans, er og sýni að einvörðungu hafi verið um frádráttarbæran viðhaldskostnað að ræða, en engin endurnýjun.

1. Skattstjóri strikaði út ferðakostnað 90 000 kr., er kærandi hafði fært til frádráttar í framtali sínu vegna starfa sinna í þágu S-hrepps og félagsheimilisins M, en tekjufærð laun kæranda frá þessum aðilum námu 190 000 kr. Breytingu þessa gerði skattstjóri með vísan til C-liðs 32. gr. reglugerðar nr. 245/1963, þar sem ekki væri unnt að líta svo á, að hér væri um langferðir að ræða. Kærandi krefst þess að þessi frádráttarliður verði að fullu tekinn til greina. Hann hafi verulegan aksturskostnað vegna starfa sinna í þágu S-hrepps, þ. e. forðagæslu og bólusetningu ásetningslamba. Með kæru til ríkisskattanefndar fylgdi yfirlýsing oddvita S-hrepps, dags. 3. nóvember 1979, þar sem staðfestar eru akstursnauðsynjar kæranda í þágu S-hrepps. Í yfirlýsingunni kemur fram, að ekki hafi þótt nauðsynlegt, að skipta greiðslu til kæranda í laun og bifreiðaafnot, þar sem talið hefði verið, að skattstjóri myndi eins og áður vegna kunnugleika taka tillit til aksturskostnaðar.

2. Kærð er sú ákvörðun skattstjóra að fella niður gjaldfærð sláturlaun á landbúnaðarskýrslu 19 500 kr. til Kaupfélags ... svo og sjóðagjöld 1 619 kr. vegna heimtekinna afurða. Rök skattstjóra voru þau, að sláturlaun og sjóðagjöld af heimteknum afurðum væru ekki frádráttarbær, þar sem mat ríkisskattstjóra á heimanotuðum afurðum miðaðist við nettótekjur af dilk, þ. e. a. s. að frádregnum sláturlaunum og sjóðagjöldum.

3. Skattstjóri færði kæranda til tekna einn heimanotaðan dilk á matsverði ríkisskattstjóra á búfé til frálags samkvæmt teknamati framtalsárið 1979 eða á 16 000 kr. í samræmi við upplýsingar á afurðamiða. Samkvæmt afurðamiða þessum voru fjórir dilkar heimteknir, en á landbúnaðarskýrslu færði kærandi þrjá. Krefst kærandi þess, að breytingu þessari verði hrundið. Hér hafi verið um gallaðan dilk að ræða. Þá andmælir kærandi málsmeðferð skattstjóra á þeim forsendum að sér skyldi ekki vera gert viðvart um breytinguna.

4. Kærandi fór þess á leit við skattstjóra í kæru, að leiðrétt yrði tekjufærsla í landbúnaðarskýrslu á heimteknum ám og dilkum og hún lækkuð um 10 740 kr. eða um verðmæti tólf slátra, er inn hafi verið lögð af heimanotuðu. Skattstjóri synjaði þessu á þeim forsendum, að heimanotað kjöt hefði verið fært á matsverði og það sé fyrir utan slátur, sbr. sérmat á slátri.

Kærandi mótmælir þeirri málsmeðferð skattstjóra, að ekki skyldi tilkynnt um þær breytingar, er greinir í 4.—6. lið hér að framan.

Af hálfu ríkisskattstjóra er þess krafist í málínu með bréfi, dags. 23. október 1980, að úrskurður skattstjóra verði staðfestur, enda virðist mat hans á ófrádráttarbærum hluta hins umdeilda kostnaðar hóflegt með hliðsjón af atvikum málsins.

Um 1. tl. Eftir atvikum þykir mega fallast á varakröfu kæranda og lækka tekjuviðbót skattstjóra samkvæmt því um 158 200 kr.

Um 2. tl. Með hliðsjón af skýringum kæranda og að virtum gögnum málsins að öðru leyti þykir frádráttarbær viðhaldskostnaður hæfilega ákveðinn 350 000 kr.

Um 3. tl. Með vísan til yfirlýsingar oddvita S-hrepps, dags. 3. nóv. 1979, og að öðru leyti með hliðsjón af skýringum kæranda um akstursnauðsynjar í störfum hans fyrir S-hrepp og félagsheimilið M þykir mega á það fallast, að í nefndum greiðslum þessara aðila til kæranda hafi að hluta verið fólgin endurgreiðsla útlagðs kostnaðar kæranda. Með tilvísan til þessa er fallist á kröfur kæranda.

Um 4.—5. tl. Meðferð skattstjóra var eigi í samræmi við ákvæði 1. mgr. 37. gr. laga nr. 68/1971, um tekjuskatt og eignarskatt. Með vísan til þessa eru kröfur kæranda teknar til greina.

Um 6. tl. Með vísan til b-liðar 2. tl. II. kafla skattmats ríkisskattstjóra framtalsárið 1979 er fallist á kröfur kæranda.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja