Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 781/1980

Gjaldár 1979

Lög nr. 68/1971, 25. gr.  

Barnabætur — Framfærandi — Munaðarleysingi — Lögskýring — Jafnræðisreglan — Skattskyldur aðili

Kærð er sú ákvörðun skattstjóra að synja kæranda um barnabætur gjaldárið 1979. Í kæru sinni til ríkisskattanefndar gerir fjárhaldsmaður kæranda svofellda grein fyrir kröfum sínum:

„Málavextir eru þeir að X (kærandi) missti móður sína á árinu 1978, en faðir hennar lést árið á undan. Yngstu systurnar (X og Y) bjuggu áfram á B-götu og héldu sameiginlegt heimili, en tilkostnaðurinn var greiddur af arfahluta þeirra.

Ljóst er af þessu, að X er sinn eigin framfærandi í þessu tilviki, þar sem hún gengur á eigin höfuðstól sér til framfærslu.

Skattstjóri hafnaði kröfu minni á þeim forsendum er greinir í C-lið 25. gr. 1. 68/1971. Í niðurlagi fyrstu málsgreinar segir „Framfærandi samkvæmt þessum staflið telst sá aðili sem hefur barnið hjá sér og annast framfærslu þess.“

Miðað við úrskurð skattstjóra skal hvorki Y, sbr. bréf með framtali, né X sjálf, sem greinilega er framfærandi eigin persónu, njóta barnabótanna er henni ber samkvæmt lögum.

Af þessu leiðir að X, sem orðin er foreldralaus og þarf að sjá sér farborða hefur verið sett skör lægra en jafnaldrar hennar sem eiga foreldra á lífi, eða svonefnda framfærendur.

Ég, sem lögráðamaður X, leyfi mér að gera þá kröfu fyrir hennar hönd, að henni verði reiknaðar til tekna úr ríkissjóði barnabætur 100 660 kr.

Til vara geri ég þá kröfu að Y verði reiknaðar barnabætur, vegna X.“

Af hálfu ríkisskattstjóra eru í bréfi, dags. 25. nóvember 1980, gerðar svofelldar kröfur:

„Samkvæmt ákvæðum 25. gr. skattalaga bæri að láta barnabætur falla til skylduframfæranda kæranda en ekki til hennar sjálfrar. Með vísan til þess er gerð krafa um að niðurstaða úrskurðar skattstjóra um þetta atriði verði staðfest,“

Kærandi er fædd 31. maí 1964. Á árinu 1977 missti hún föður sinn og á árinu 1978 móður sína. Bjó hún eftir það með systur sinni að B-götu í Reykjavík og héldu þær þar sameiginlegt heimili. Með því að kærandi hafði misst báða foreldra sína varð hún sjálfstæður skattaðili gjaldárið 1979 samkvæmt 4. gr. laga nr. 68/1971, um tekjuskatt og eignarskatt, sbr. 3. gr. laga nr. 11/1975.

Samkvæmt ákvæðum 2. ml. 1. mgr. 35. gr. nefndra laga, taldi fjárhaldsmaður hennar fram til skatts nefnt gjaldár og skilaði skattstjóra í framtalsfresti undirrituðu og staðfestu skattframtali. Voru opinber gjöld á hana ákvörðuð í samræmi við framtalið. Eigi voru henni þá ákvarðaðar barnabætur og er þess krafist að þeirri ákvörðun verði hrundið.

Þegar virt er orðalag ákvæða C-liðs 25. gr. laga nr. 68/1971, um tekjuskatt og eignarskatt, eins og sá stafliður er orðaður með 9. gr. laga nr. 11/1975 og 4. gr. laga nr. 3/1978, og tilgangur þessara ákvæða, þykir rétt að fallast á aðalkröfur kæranda í máli þessu.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja