Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 439/1979

Gjaldár 1976

Lög nr. 68/1971, 3. gr.  

Hjón/Samvistarslit

Kærandi taldi eigi fram til skatts gjaldárið 1976. Skattstjóri áætlaði kæranda því gjaldstofna til álagningar opinberra gjalda það ár. Í kæru til skattstjóra krafðist umboðsmaður kæranda þess, að álögð opinber gjöld, byggð á áætlun skattstjóra yrðu felld niður og kærandi yrði skattlagður með eiginmanni sínum, enda hefði skilnaður að borði og sæng ekki farið fram, fyrr en á árinu 1976 og hefði því borið að skattleggja hjónin sameiginlega gjaldárið 1976. Skattstjóri synjaði kröfu kæranda á þeim forsendum, að skattleggja bæri kæranda sérstaklega, þar sem samvistum virtist hafa verið slitið fyrir áramótin 1975 - 1976 og skattframtal gjaldársins 1976 hefði ekki borist þrátt fyrir ítrekun þar um.

Í kæru til ríkisskattanefndar ítrekaði kærandi fyrri kröfur og sjónarmið.

Af hálfu ríkisskattstjóra var gerð svofelld krafa:

„Að úrskurður skattstjóra verði staðfestur, sbr. kröfugerð ríkisskattstjóra og úrskurð ríkisskattanefndar í máli eiginmanns kæranda, úrskurðar nr. 232, 4. febrúar 1977.

Fallist er á að kæranda verði gefinn kostur á að skila undirritaðri skattskýrslu sem síðan yrði tekin til efnismeðferðar í stað áætlunar skattstjóra.“

Kæranda var sent ljósrit af kröfugerð ríkisskattstjóra og gefinn frestur til að koma að athugasemdum sínum og andsvörum. Í svari kæranda kom fram, að kærandi taldi það ekki rétta málsmeðferð að skila sérframtali og hafði uppi fyrri kröfugerð.

Í kæru eiginmanns kæranda til ríkisskattanefndar, dags. 4. október 1976, er afgreidd var með úrskurði nr. 232 frá 4. febrúar 1977, var af hálfu umboðsmanns hans staðhæft, að raunveruleg samvistarslit hefðu orðið með þeim hjónum vorið 1975.

Í bréfi til ríkisskattanefndar, var af hálfu umboðsmanns kæranda í málinu m.a. fullyrt, að samvistarslit hefðu orðið þann 1. apríl 1976.

Með því að verulegt misræmi reyndist þannig fram komið í yfirlýsingum umboðsmanna aðila um, hvenær samvistarslit hefðu farið fram, en það atriði hafði grundvallarþýðingu í málunum, fór ríkisskattanefnd með bréfi, dags. 23. febrúar 1979, þess á leit við bæjarfógetann í -----, að hann hlutaðist til um rannsókn á þessu þannig að staðreyndir málsins að þessu leyti mættu liggja ljóst fyrir.

Með bréfi, dags. 3. apríl 1979, barst ríkisskattanefnd frá bæjarfógetanum endurrit úr hjónaskilnaðarbók embættisins varðandi rannsókn á hvenær samvistarslit hjónanna urðu í raun. Gáfu kærandi og fyrrum eiginmaður hennar valdsmanni skýrslu um þetta atriði. Bar kærandi þar „að engin sambúð eða samvistir hafi verið með þeim N...... frá maí 1975 til útgáfudags leyfisbréfs til skilnaðar að borði og sæng 23. júní 1976.“ Bar fyrrv. eiginmaður kæranda að hann hefði slitið samvistum við kæranda og flutst af heimili þeirra haustíð 1975 í október að hann minnti. Samvistir eða sambúð hefði ekki verið með þeim eftir það.

Í úrskurði ríkisskattanefndar segir svo:

„Í samræmi við niðurstöðu ofangreindrar rannsóknar þykir bera að byggja á því, að hjónin hafi slitið samvistum á árinu 1975. Ber því að synja kröfu kæranda í máli þessu.“

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja