Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 410/1979

Gjaldár 1978

Sérsköttun barns

Málavextir voru þeir, að skattstjóri synjaði tilmælum kæranda, er fram komu í skattframtali hans árið 1978 þess efnis, að börnum hans þremur, fæddum 1963, 1964 og 1965, yrði ákveðinn skattur sem sjálfstæðum skattaðilum. Kærandi var bóndi. Skattstjóri byggði synjun sína um sérsköttunina á þeirri forsendu, að allar tekjur barnanna væru greiddar af framfæranda þeirra og væri honum því eigi heimilt að færa til frádráttar nema heimilaðan námsfrádrátt vegna náms þeirra. Kærandi krafðist þess, að synjun skattstjóra um sérsköttun barnanna yrði hrundið og tilfærður frádráttur á framtali að fjárhæð kr. 729.100 frá tekjum barna látinn óbreyttur standa.

Ríkisskattstjóri krafðist þess aðallega, að kærunni yrði vísað frá ríkisskattanefnd, þar sem nefndina brysti heimild til umfjöllunar um kæruefnið, en til vara að úrskurður skattstjóra yrði staðfestur. Röksemdir ríkisskattstjóra voru þessar:

„Telja verður að tvímælis geti orkað hvort ríkisskattanefnd sé bær aðili til að endurskoða afstöðu skattstjóra varðandi synjun á sérsköttun barna. Vísast til stuðnings þessari skoðun til undirstöðuraka 4. gr. skattalaganna, sbr. 10. gr. skattareglugerðar.

Hefð mun þó vera fyrir því að ríkisskattanefnd fjalli um slíkar kærur og jafnvel munu dæmi þess að nefndin hafi endurskoðað synjun skattstjóra á sérsköttun en eðlilegast væri að slík heimild væri hjá ríkisskattstjóra einum. Ríkisskattstjóri gerir aðalkröfu um frávísun en til vara, með vísan til áður genginna úrskurða ríkisskattanefndar, er krafist staðfestingar á hinum kærða úrskurði.“

Ríkisskattanefnd hratt frávísunarkröfunni með vísan til 41. gr. laga nr. 68/1971, um tekjuskatt og eignarskatt. Um efnisatriði málsins segir svo í úrskurði nefndarinnar:

„Samkvæmt launamiðum eru tilgreindar launagreiðslur til þriggja barna kæranda vegna starfa við búrekstur hans samtals að fjárhæð kr. 625.000 auk þess fæði í 160 daga fyrir hvert barn, en hvorutveggja var gjaldfært í landbúnaðarskýrslu. Ekki var um aðkeypta vinnu að ræða við búrekstur kæranda. Eftir 1. mgr. 4. gr. laga nr. 68/1971, um tekjuskatt og eignarskatt, sbr. 3. gr. laga nr. 11/1975, er skattstjóra heimilt að ákveða barni skatt sem sjálfstæðum skattþegn, nemi hreinar tekjur barns hærri fjárhæð en kr. 37.750 (kr. 80.500), enda komi fram tilmæli um það frá foreldrum.

Með hliðsjón af atvikum þessa máls og því, að skattstjóri þykir eigi hafa fært fram fullnægjandi ástæður fyrir synjun sinni, er fallist á kröfu kæranda um sérsköttun barnanna.“

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja