Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 32/1979

Gjaldár 1977

Lög nr. 68/1971, 7. gr.  

Eignayfirfærsla - Kvaðir - Gjöf

Málavextir voru þeir, að eiginkona kæranda keypti af fósturforeldrum sínum á árinu 1976 íbúð í Reykjavík, ásamt bílskúr á lóð hússins. Kaupverðið var skv. framtali kæranda kr. 1.500.000.

Í afsali fyrir eigninni kom fram, að hún var seld með kvöðum. Sagði svo um þetta atriði í afsalinu:

„Eignarhlutinn er seldur með þeirri kvöð, að seljendur eiga rétt á því að nýta sjálfir að öllu leyti hina seldu eign svo lengi, sem þau lifa hvort um sig og óska eftir slíku og án leigugjalds, enda sjái þau fyrir eigin reikning um viðhald og viðgerðir eignarhlutans og greiða af honum alla skatta og skyldur. Þá er kaupanda óheimilt að selja eða veðsetja öðrum eignarhlutann á meðan annar hvor seljendanna er á lífi, nema með samþykki þeirra. Eru allar framangreindar kvaðir skuldbindandi fyrir erfingja kaupanda.“

Skattstjóri leit svo á, að í þessum íbúðarkaupum fælist gjöf til kæranda sbr. ákvæði í B-lið 7. gr. laga nr. 68/1971 um tekjuskatt og eignarskatt. Við ákvörðun verðmætis eignarinnar lagði skattstjóri til grundvallar fasteignamat hennar frá 1971 að viðbættu 173% álagi sbr. verklagsreglu ríkisskattstjóra í bréfi dags 25.2. 1977 til skattstjóra.

Verðmæti íbúðarinnar þannig reiknað nam kr. 3.659.155. Mismunur að frádregnu söluverði kr. 1.500.000 var því kr. 2.159.155, en með hliðsjón af kvöðum þeim, sem áður er getið um, lækkaði skattstjóri þessa mismunarfjárhæð í kr. 1.200.000 og hækkaði tekjur á framtali kæranda 1977 um þá fjárhæð og taldi vera skattskylda gjöf.

Kærandi mótmælti þessari hækkun tekna á framtalinu og hækkun skatta, sem af henni leiddi, og krafðist niðurfellingar hennar. Sérstaklega lagði kærandi áherslu á það, að kaupum íbúðarinnar hefðu fylgt það miklar kvaðir, að með engu móti væri hægt að tala um gjöf, þótt íbúðin hefði verið seld við óvenjulega lágu verði.

Af hálfu ríkisskattstjóra var þess krafist í málinu, að úrskurður skattstjóra yrði staðfestur með vísan til forsendna hans.

Í úrskurði ríkisskattanefndar segir svo:

„Fallast má á það með kæranda, að með hliðsjón af kvöðum þeim, er á eigninni hvíla, sé ekki efni til að áætla honum skattskyldar tekjur vegna yfirtöku hennar. Er krafa hans því tekin til greina.“

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja