Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 106/1979

Gjaldár 1977

Lög nr. 68/1971, 9. gr.  

Skattlagning varasjóðs

Kærandi, sem var hlutafélag, keypti samkvæmt framtali sínu 1/3 hluta golfskála nokkurs ásamt innréttingum og aðstöðu þeirri er eignarhlutanum fylgdi. Seljandi var forstjóri félagsins og aðalhluthafi.

Skattstjóri taldi kaupverðið, sem var kr. 6.000.000, hærra en efni hefðu staðið til og jafnframt að ekki kæmi fram hvernig skálinn tengdist rekstri félagsins.

Með tilvísun í 4. gr. laga nr. 7/1972 um breytingu á lögum nr. 68/1971 um tekjuskatt og eignarskatt var varasjóður kr. 2.293.200 að viðbættum 20% viðurlögum færður til tekna hjá kæranda.

Kærandi krafðist þess, að teknahækkun þessi yrði felld úr gildi, enda væri kaupverð 1/3 hluta skálans síst of hátt. Máli sínu til stuðnings lagði kærandi fram vottorð frá tveimur byggingarmeisturum og einum tæknifræðingi, þar sem fram kæmi mat þessara manna á því, hvert væri kostnaðarverð golfskálans og jarðvinnu við gerð golfvallar á verðlagi í árslok 1978.

Ríkisskattstjóri krafðist þess í málinu, að úrskurður skattstjóra yrði staðfestur.

Í úrskurði ríkisskattanefndar sagði:

„Með tilliti til verðlagsbreytinga frá þeim tíma að kærandi keypti eignir þær, sem um ræðir í máli þessu og til ársloka 1978, þykja fyrrgreind vottorð um áætlað kostnaðarverð húss og jarðvinnu ekki styðja kröfur kæranda. Með tilliti til þessa og annarra atvika málsins er úrskurður skattstjóra staðfestur.“

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja