Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 1217/1979

Lög nr. 68/1971, 11. gr. A-liður  

Bifreiðakostnaður - Bifreiðastyrkur - Vefenging bifreiðaskýrslu

Málavextir voru þeir, að skattstjóri gerði þá breytingu á skattframtali kæranda árið 1978 að lækka gjaldfærðan rekstrarkostnað bifreiðar um kr. 238.053 eða úr kr. 488.343 í kr. 250.290. Þennan bifreiðakostnað hafði kærandi fært til lækkunar á framtöldum tekjum á móti fengnum bifreiðastyrk frá vinnuveitanda, hlutafélagi nokkru.

Skattstjóri taldi, að eigin notkun kæranda á bifreiðinni væri vanmetin. Skattstjóri miðaði þau not við 7.000 km. akstur á kr. 36 pr. km eða alls kr. 252.000.

Samkvæmt skýrslu kæranda um bifreiðastyrk og bifreiðarekstur á árinu 1977 nam heildarreksturskostnaður bifreiðarinnar kr. 502.290 og heildarakstur 20.600 km. Taldi kærandi að gerðum leiðréttingum á bifreiðaskýrslu, er urðu vegna mistaka, kr. 484.360 vera vegna aksturs í þágu vinnuveitanda eða rúmlega 96% af heildarkostnaði. Skv. þessu mat kærandi akstur í eigin þágu 740 km. á árinu 1977. Eigi lá fyrir í málinu greinargerð vinnuveitanda um ástæður til greiðslu bifreiðastyrks.

Af hálfu kæranda var þess krafist, að breyting skattstjóra yrði úr gildi felld með vísan til þess, að bifreiðin hefði á árinu 1977 verið nær eingöngu notuð í þágu vinnuveitanda. Yrði sú breyting ein gerð, er svaraði til leiðréttingar á reikningsskekkju og lækkaði gjaldfærðan bifreiðakostnað um kr. 3.983. Þá benti kærandi á, að mat skattstjóra kr. 36.- pr. km. væri eigi á rökum byggt, með því að kostnaður á ekinn km. lægi fyrir og væri kr. 23.70 árið 1977.

Í úrskurði ríkisskattanefndar segir svo:

„Kærandi þykir eigi hafa fært fullnægjandi rök fyrir tilgreindum einkaafnotum af bifreiðinni, er verða að teljast afbrigðilega lítil. Eftir atvikum þykir mega fallast á mat skattstjóra á akstri kæranda í einkaþágu. Með því að heildarreksturskostnaður bifreiðar kæranda hefur eigi verið vefengdur þykir rétt að veita til frádráttar hlutfallslegan rekstrarkostnað bifreiðarinnar miðað við ætlaðan akstur í þágu vinnuveitanda eða kr. 331 500.“

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja