Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 82/1979

Gjaldár 1977

Lög nr. 68/1971, 15. gr. C-liðu  

Fyrningar

Málavextir voru þeir, að skattstjóri lækkaði gjaldfærða fyrningu af skemmum og „Moelvenhúsum“ í eigu kæranda úr 15% í 8% af heildarfyrningarverði. Breyting þessi leiddi til hækkunar á tekjum kæranda til skatts um kr. 1.050.702.

Í kæru til ríkisskattanefndar sagði, að kærandi hefði átt eina og stundum tvær stálbogaskemmur og mörg smáhýsi úr timbri, er flutt væru á milli vinnustaða eftir þörfum, en kærandi var verktakafyrirtæki, sem m.a. hafði tekið að sér verk í sambandi við vatnsaflsvirkjanir, vegagerð og hafnarframkvæmdir. Kærandi tók fram, að hér væri ekki um að ræða venjulegar byggingar með tilheyrandi lóðum og tengslum við rafmagn, vatn, skólp og gatnakerfi, heldur væru þetta einskonar „gámar“, sem fluttir væru tómir milli vinnustaða og notaðir þar í stað tjalda áður. Með tilliti til þess hnjasks, sem þau óhjákvæmilega yrðu fyrir í slíkum flutningum, hefði fyrning nefndra eigna verið reiknuð 15% eins og af hverju öðru lausagóssi, en flýtifyrning ekki reiknuð af þessum eignum.

Aðalkrafa kæranda var sú, að breyting skattstjóra yrði felld úr gildi. Til vara var þess krafist, að væri um það að ræða, að fyrir lægju úrskurðir ríkisskattanefndar, er heimiluðu afskrift af slíkum eignum á bilinu 8%-15% eða yfir 15%, yrði úrskurður felldur í samræmi við það.

Ríkisskattstjóri krafðist þess í málinu, að ákvörðun skattstjóra á hundraðshluta fyrninga yrði látin óbreytt standa, enda væri hún í fullu samræmi við gildandi lög og reglur þar um.

Ríkisskattanefnd féllst á, að kæranda væri heimilt að fyrna eignir þær, sem um væri að ræða, með 12,5% afskrift, sbr. ákvæði 2. tl. C-liðar 15. gr. laga nr. 68/1971.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja