Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 1425/1979

Gjaldár 1978

Lög nr. 68/1971, 18. gr. 2. mgr.  

Tekjufærsla - Verk í framkvæmd

Kærð var sú ákvörðun skattstjóra að áætla kæranda tekjur vegna tilboðsverks í framkvæmd kr. 10.000.000. Málavextir voru þeir, að með samningi, dags. þann 25. nóvember 1977, tókst kærandi á hendur sem verktaki að annast ýmsar breytingar á skipi nokkru. Skyldi verkið skv. samningnum hefjast þegar í stað og vera lokið eigi síðar en þann 15. mars 1978.

Af heildarsamningsfjárhæð kr. 208.569.071 án verðbóta skyldi verkkaupi greiða kr. 68.000.000 á árinu 1977. Mismun þeirrar fjárhæðar að viðbættum kr. 742.123 og greiðslna til undirverktaka kr. 30.102.240 og v. sameiginlegs kostnaðar kr. 11.621,953, en mismunur þessi nam kr. 27.017.760 færði kærandi til skuldar sem fyrirframgreiðslu vegna tilboðsverks. Skattstjóri áætlaði kæranda ofannefndar tekjur vegna tilboðsverks þessa með því að umbeðin gögn og upplýsingar um verkið hefðu ekki verið lögð fram.

Kærandi lagði fram afrit samnings um tilboðsverks þetta. Kærandi krafðist þess, að tekjuviðbót skattstjóra yrði niður felld. Var á það bent, að óveruleg vinna hefði farið í verkið á árinu 1977. Aðallega hefði verið unnið að efnisútvegun og skipulagningu.

Af hálfu ríkisskattstjóra var krafist staðfestingar á úrskurði skattstjóra.

Ríkisskattanefnd féllst á kröfu kæranda með vísan til þess, að nefndu verki hefði ekki verið lokið um áramót 1977/1978.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja