Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 484/1979

Gjaldár 1976, 1977, 1978

Lög nr. 68/1971, 18. gr. 2. mgr.  

Tekjufærsla - Byggingastarfsemi í atvinnuskyni

Kærandi, sem var byggingarfélag, skilaði ekki skattframtölum árin 1976, 1977 og 1978 og áætlaði skattstjóri því gjaldstofna til álagningar opinberra gjalda. Umboðsmaður kæranda hafði kært álagninguna með bráðabirgðakærum. Lagði hann skattframtöl kæranda umrædd ár fyrir ríkisskattanefnd með kröfu um að þau yrðu lögð til grundvallar álagningu opinberra gjalda í stað áætlunar skattstjóra.

Ríkisskattstjóri krafðist frávísunar með þeim röksemdum m.a., að óeðlilegt væri að haga reikningsskilum á þann veg, sem kærandi gerði. Kærandi hefði byggt íbúðir til sölu og hefði að því er virtist skilað þeim til kaupenda. Byggingarframkvæmdir hefði kærandi fært til eignar og innborganir til skuldar. Ríkisskattstjóri taldi, að kæranda hefði borið að gjaldfæra áfallinn byggingarkostnað og áætla kostnað vegna þess verkhluta, sem eftir var, enda hefði framkvæmdum að mestu verið lokið.

Í kæru til ríkisskattanefndar sagði m.a.:

„Starfsemi félagsins hefir verið sú að byggja nokkrar íbúðir og selja. Um er að ræða eitt samfellt verkefni, sem væntanlega gerist upp í ársreikningi 1978, Þar af leiðandi er byggingarkostnaður áranna 1975/1976/1977 færður til eignar í ársreikningi og innborganir kaupenda til skuldar á móti. Þess skal getið að enn á félagið ólokið nokkrum framkvæmdum vegna sameiginlegs hluta íbúða þeirra, sem um ræðir. Svo sem efnahagsreikningur 31.12. 1977 ber með sér nema innborganir vegna íbúðakaupa þá samtals kr. 71.076.385 og áfallinn byggingarkostnaður kr. 69.135.637, þ.e.a.s. um er að ræða mismun að fjárhæð kr. 1.940.748. Það liggur fyrir nú að viðbótarkostnaður 1978 varð meiri en þessum mismun nemur, en frekari greiðslur koma ekki frá kaupendum. Og ennfremur skal ítrekað að félagið hefir ekki enn í dag að fullu lokið öllu, sem því ber, þannig að til frekari kostnaðar kemur á yfirstandandi ári.“

Með tilvísun til ofangreindra upplýsinga kæranda og skattframtala hans féllst ríkisskattanefnd á kröfur kæranda.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja